16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í D-deild Alþingistíðinda. (3739)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Jón Þorláksson:

Þessi hæstv. stjórn, er nú situr, var mynduð fyrir ári síðan og hafði þá fylgi, eða hlutleysi, meiri hlutans í þinginu. Jeg var ekki á því þingi og hefi því óbundnar hendur um afstöðu til þessarar stjórnar.

Þegar nú líta skal á það, hvort rjett sje að víkja stjórninni frá með vantraustsatkvæði, þá kemur fyrst til athugunar, að þessi hæstv. stjórn hefir aðeins setið milli tveggja þinga og framkvæmt þær ráðstafanir, sem þingið í fyrra lagði fyrir hana, og ráðstafanir undanfarinna þinga, er ekki voru áður framkvæmdar.

Jeg er óánægður með margt það, sem stjórnin hefir gert, og jeg veit, að svo er og um fjölda manna. En sú óánægja beinist ekki svo mjög að því, hvernig stjórnin hefir framkvæmt vilja þingsins, heldur beinist hún að ráðstöfunum þingsins sjálfs. Það eru margir hræddir um, að opinber starfræksla sje nú orðin svo umfangsmikil og kostnaðarsöm hjer á landi, að hún muni sliga atvinnuvegina, gjaldþol þeirra beri hana ekki. En sú óánægja beinist auðvitað til þingsins, því það eru þess aðgerðir. Mörgum hrýs hugur við skuldabyrði ríkissjóðs, sem nú er um 20 miljónir kr. Og þó að margir treysti því, að landið komist klaklaust úr því feni, þar sem mikið af þessu fje stendur í fyrirtækjum, sem gefa arð, eða geta endurgreitt lánin, þá eru þó margir hræddir við það glamur, sem nú heyrist, bæði utan þings og innan, um að taka þurfi meiri lán og leggja þau í fyrirtæki, sem óvíst er um, hvort geti endurgreitt þau.

Jeg get undirstrikað það, sem hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) sagði, að það væri ógætilegt að taka nú lán. Það er öllum gætnum mönnum ljóst, að vandkvæðin verða ekki læknuð með nýjum lánum til óvissra atvinnufyrirtækja. Framleiðslukostnaðurinn verður að minka áður en atvinnuvegirnir geti borið sig. Og meðan sú breyting kemst ekki í kring verðum við að draga saman seglin í atvinnuvegunum. Þetta er eina leiðin til þess að fá aftur heilbrigðan grundvöll fyrir atvinnuvegi landsmanna. Hin leiðin er sú, að taka lán og leggja fje til atvinnuvega, sem ekki svara kostnaði, og þá er voðinn vís.

Það, sem nú einkum hefir verið veist að stjórninni fyrir, er það, að hæstv. fjrh. (M. G.) skuli ekki hafa tekið lán til þessa. En mjer finst hann hafa svarað því svo, að ekkert er þar eftir ámælisvert.

Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) og hv. 1. þm. Árn. (E. E.) hjeldu því fram, að stjórnin hefði átt að taka lán og troða því upp á bankana, á þeim tíma, er hvorugur bankinn vildi þiggja aðstoð stjórnarinnar til lántöku. Jeg lít nú alt öðrum augum á afstöðu stjórnarinnar til bankanna en þessir háttv. þingmenn. Skilyrðið fyrir því, að bankar geti starfað vel samkvæmt tilgangi sínum og haft traust viðskiftamannanna, er fyrst og fremst það, að slíkir bankar sjeu sem minst undirorpnir íhlutunarsemi ríkisstjórnar. Á erfiðum tímum, svo sem í styrjöldum, hefir það reynst bönkunum um allan heim hættulegast, ef ríkisstjórnirnar hafa gripið inn í þeirra starf og misbrúkað þá. Og það hafa margar ríkisstjórnir því miður gert. Það er litið svo á af fjármálamönnum heimsins yfirleitt, að bankar eigi að starfa samkvæmt grundvallarreglum viðskiftalífsins, en ekki eftir ákvörðunum, er ríkisstjórn setur eða kann að setja í það og það skiftið, jafnvel þótt það sje þingræðisstjórn.

Jeg veit, að þegar þeir hv. þm., sem kunnugir eru bankamálum og bera skyn á þau, athuga þetta rólega, þá muni þeir kannast við, að þetta sje mikilsvarðandi skilyrði fyrir því, að bankarnir geti notið nauðsynlegs trausts hjá viðskiftavinum sínum. Jeg vil því ekki áfellast stjórnina fyrir neitt afskiftaleysi í þessu, eða fyrir það, að hún misbeitti ekki valdi sínu í þessu efni. Því það hefði verið sannarleg misbeiting á valdi hennar að taka lánsfje og troða því upp á bankana, er þeir töldu sig ekki þurfa það, og treystust ekki til að ávaxta það í fyrirtækjum, er þeir teldu nægilega trygg.

Það hafa engar rjettmætar aðfinningar komið fram um það, hvernig stjórninni hafi farist framkvæmdin á ákvörðunum síðasta þings eða síðustu þinga, er talist geti svo stórvægilegar, að þær rjettlæti vantraustsatkvæði. En þá er eftir að athuga undirbúning stjórnarinnar undir löggjafarstarf þessa þings, og vík jeg að því seinna, en vil fyrst minnast á nokkur atriði í ræðu hv. þm. Dala. (B. J.).

Jeg ætla ekki að fjölyrða um það, að hann vill fara að kenna mönnum að sitja á Alþingi. Hann sagði sem sje, að þegar fylgismenn og andstæðingar stjórnar væru saman í þingflokki, þá kynnu þeir menn ekki að sitja þing. Það vill nú svo til, að á síðasta þingi gaf hann sjálfur yfirlýsingu um, að í hans eigin þingflokki væru sumir á móti stjórninni, en einn flokksmaður með henni, og þar með hefir hann þá gefið sjálfum sjer og sínum flokksbræðrum þann vitnisburð, að þeir kunni ekki að sitja þing. Þessi yfirlýsing er skjalfest í Alþingistíðindunum og má sjá hana þar. Hvers vegna hann leggur þennan dóm á sig og flokksbræður sína, geta þeir gert upp með sjer innbyrðis.

Aðfinslur hans í garð stjórnarinnar eru margar þess eðlis, að ef stjórnin hefði farið að hans ráðum, þá hugsa jeg, að jeg mundi hafa greitt atkvæði með vantraustsyfirlýsingu til hennar. Hann kvartaði undan því, að stjórnin hefði ekki gert neitt til þess, að önnur ríki sendu hingað sendiherra. Jeg er stjórninni þakklátur fyrir það, að hún gekk ekki út á þá braut, svo að greiðari yrði gata þeirra, sem gera sjer vonir um að verða skipaðir sendiherrar fyrir Ísland hjá sömu ríkjum. Jeg get ekki heldur fallist á aðfinslu fyrir það, að stjórnin hefir ekki gert samning um myntsláttu við Noreg og Svíþjóð. Jeg held, að sú ráðagerð hefði orðið gagnslítil, því að jeg skil ekki, að síðustu árin hafi verið hjer svo mikið gull og silfur, að nokkru hefði munað að fara að slá mynt úr því.

Jeg er yfir höfuð hæstv. forsrh. (J. M.) þakklátur fyrir það, að hann vill nú ekki þiggja ráð hv. þm. Dala. (B. J.). Jeg get ekki neitað því, að um tíma rýrnaði nokkuð traust mitt á hæstv. núverandi forsætisráðherra (J. M.), einkum vegna þess, að mjer fanst skoðanir hans í sumum málum falla heldur nær skoðunum hv. þm. Dala. (B. J.) en jeg hefði kosið. En mjer þykir vænt um, að jeg get nú verið rólegri um þetta í framtíðinni.

Önnur atriði, sem hv. þm. Dala. (B. J.) bar fram, eru ámóta veigalítil og þau, sem jeg nefndi. Það eina, sem hann nefndi og nokkru varðar af þeim þingmálum, sem hæstv. stjórn hefir lagt fyrir Alþingi, er afstaða stjórnarinnar til vatnamálanna. Og kem jeg þá að annari hlið á starfsemi stjórnarinnar, þar sem er löggjafarstarfsemi hennar. Hún er nú ekki svo lítil, því að stjórnarfrv., sem lögð hafa verið fyrir þingið, munu vera nær 50 talsins. Þar á meðal eru mörg stórmál, og mjer skilst, að skoðanir hv. þm. muni skiftast um ýms þeirra, og er þá eðlilegt, að afstaða þingsins til stjórnarinnar fari eftir því, hvernig um þau mál fer. Jeg skal þar tilnefna skattalagakerfið alt. Þegar það kemur fram eftir meðferð nefndarinnar, sjest, hvaða fylgi það fær, en fyr ekki. Auk skattamálanna vil jeg nefna eitt þýðingarmikið frv., sem sjerstaklega hefir verið mitt áhugamál, sem sje frv. um rannsóknir til undirbúnings virkjunar Sogsfossanna og járnbrautarlagningar. Jeg vil telja þetta mesta framtíðarmálið, sem lagt hefir verið fyrir þetta þing. Jeg hafði ætlað að láta þetta frv. vera hið eina, sem jeg flytti af eigin hvötum inn á þetta þing. En hæstv. stjórn flytur það nú sem stjórnarfrv., og hlýtur þetta að ráða miklu um afstöðu mína til hennar.

Þessi stjórnarfrv. eru ekki komin lengra en að þau eru því nær öll í meðferð nefnda og óafgreidd af þeim, og hv. þm. því ekki haft tækifæri til að ræða þau til hlítar og ekki einu sinni mynda sjer ákveðnar skoðanir um þau, þar sem umsagnir nefndanna, er þau hafa til meðferðar, eru ókomnar fram.

Jeg hygg, að hv. þdm. geti verið mjer samdóma um það, að ekki er enn þá hægt að taka afstöðu til stjórnarinnar á grundvelli þeirra mála, sem hún hefir lagt fyrir þingið. En það ætti að vera hægt seinna á þinginu.

Af þessari ástæðu get jeg ekki sjeð, að rjett sje að samþykkja eða yfir höfuð greiða atkv. um vantraustsyfirlýsingu til stjórnarinnar nú. Þar við bætist það, að ef slík vantraustsyfirlýsing yrði samþykt og stjórnin færi frá, þá liggur fyrir þinginu að mynda nýja stjórn, og þá mundi verða sama óvissan um, hvernig ætti að skipa þá stjórn, þannig að hún yrði í samræmi við skoðanir meiri hluta Alþingis um þau stórmál, sem fyrir þinginu liggja. Það er vitanlegt, að samtök um stjórnarmyndun hafa ekki getað farið fram, því að þm. hafa ekki getað skifst í flokka um mál þau, sem fram hafa komið, vegna þess, að þau eru órædd.

Ef dæma á eftir því, úr hvaða átt þessi tillaga er fram komin, þar sem hún er borin fram af hv. þm. Dala. (B. J.) í nafni sjálfstæðisflokksins, þá yrði að ætla, að sá flokkur væri sjálfkjörinn til forystu í myndun nýrrar stjórnar, ef til kæmi. En jeg get sagt afdráttarlaust, að þó að þeim flokki tækist með forgöngu sinni að mynda stjórn eftir sínu höfði, þá mundi jeg ekki bera jafnmikið traust til hennar eins og núverandi stjórnar, og því síður meira.

Af þessari ástæðu tel jeg rjett, að þessari fram komnu vantraustsyfirlýsingu á núverandi stjórn verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Vil jeg því leyfa mjer að afhenda hæstv. forseta tillögu til slíkrar dagskrár, og skal jeg fyrst, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana upp.

„Þingdeildin álítur, að afstaða til núverandi stjórnar og samtök um skipun nýrrar stjórnar, ef til stjórnarskifta kæmi, hljóti að ákvarðast af skoðunum þingmanna á ýmsum þeim stórmálum, er stjórnin hefir lagt fyrir þetta þing. En með því að flestöll þessi mál eru enn til meðferðar í nefndum, og þingdeildarmönnum því ekki gefist kostur á að ræða þau til neinnar hlítar, eða taka afstöðu til þeirra, þá tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Í sambandi við þetta vil jeg minnast á till. hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) til rökstuddrar dagskrár. Hún er borin fram á þann einkennilega hátt, að flm. (Gunn. S.), eftir yfirlýsingu hans sjálfs, ber hana fram til þess, að hann geti greitt atkv. á móti henni. Jeg vil ekki hjer í þingsalnum nota þau orð um þetta athæfi, sem rjettilega væru viðeigandi. Jeg hugsa, að slík aðferð gæti komið fyrir hjá börnum, en get ómögulega skilið, að hún sje samboðin löggjafarþingi þjóðarinnar. Jeg vil skjóta því til hv. flm. (Gunn. S.), hvort hann sje mjer ekki sammála um þetta og hvort það mundi ekki vera mest sæmd fyrir hann, ef hann tæki tillögu sína aftur. Jeg get ekki með nokkru móti talið þetta þinglega aðferð, og ef hv. flm. (Gunn. S.) vill ekki gera þetta, að taka till. aftur, vil jeg beina þeirri spurningu til hæstv. forseta, hvort hann sje mjer ekki sammála um það, að þetta sje óþingleg aðferð, og hvort ekki sje hægt fyrir hann að koma í veg fyrir þetta, sem er ljótt fordæmi, ef látið verður viðgangast. Vil jeg því skora á hann að vísa tillögunni frá atkvæðagreiðslu.

Geti hæstv. forseti ekki fallist á þetta, eða álíti sig samkvæmt þingsköpunum ekki hafa vald til þess að gera þetta, og vilji hv. flm. (Gunn. S.) ekki taka tillöguna aftur, skora jeg á hv. þingdeild að vísa þessari nýju þingvenju á bug með því að neita að greiða atkvæði um þessa tillögu og færa þau rök til þess, að tillagan sje óþinglega fram borin, með því flm. (Gunn. S.) hafi sjálfur lýst yfir því, að hann ætlaði að greiða atkv. á móti till.

Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. forseti taki þá ástæðu gilda fyrir því, að þeir neita að greiða atkv. um till., en verði það ekki, þá vænti jeg þess, að sá fyrsti, sem verður krafinn um að greiða atkv., leiti úrskurðar deildarinnar, hvort þetta sje ekki nægileg ástæða fyrir neituninni.

Jeg treysti því, að meiri hluti deildarinnar álíti, að till. sje óþinglega fram borin og samþykki þá ástæðu.

Vonast jeg svo eftir, að hæstv. forseti taki mína dagskrá því næst til atkvæðagreiðslu, sem fram borna næsta þar á eftir.