16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í D-deild Alþingistíðinda. (3741)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Magnús Kristjánsson:

Síðan tillagan um að lýsa vantrausti á núverandi stjórn kom fram, lagðist það í grun minn, að úr því yrði ekki annað en skrípaleikur. Þetta hefir ræst og meira en það. Jeg álít, að nú sje að verða hjer stórhneyksli. Og jeg álít, að það sje aðallega 1. þm. Rang. (Gunn. S.), sem tilefni hefir gefið til þess. Og jeg býst við, að enginn annar hefði leyft sjer slíkt, en einhver ófyrirleitinn oflátungur.

Þá sný jeg mjer að hv. þm. Dala. (B. J.). Það er tilgangslaust að eltast við það, sem hann talaði um atvinnumálin, því þar var ekkert nýtilegt. Jeg gæti tekið þá undir eitt alla þrjá, þm. Dala. (B. J.), 1. þm. Ám. (E. E.) og 1. þm. Rangvellinga (Gunn. S.). (Gunn. S.: Ekki Rangvellinga, heldur Rangæinga). Jeg tek ekki til greina leiðrjettingar þessa hv. þm. (Gunn. S.), heldur segi jeg það, sem mjer sýnist.

Þó vil jeg taka hv. þm. Dala. (B. J.) tali dálítið sjerstaklega, vegna þess, að hann hefir látið einna mest á sjer bera. Það er leiðinlegt að þurfa að tönlast á því, sem búið er að segja, en til að sýna, hve mergjað það er, sem hv. þm. Dala. (B. J.) hefir á móti stjórninni, þá vil jeg benda mönnum á, að aðalsynd stjórnarinnar virtist, eftir ræðu hans að dæma, vera sú, að hún styddist við menn úr flokkum, sem ekki væru henni eindregið fylgjandi. En jeg skil ekki, hvernig nokkur stjórn ætti að geta verið við völd hjer, sem einungis hefði fylgi eins flokks í þinginu; til þess eru þeir of fámennir og sundurleitir í skoðunum. (B. J.: Þingmaðurinn ætti að fara til eyrnalæknis). Jeg ætla að biðja hv. þm. (B. J.) að gera sig ekki að fífli hjer inni. Hv. þm. (B. J.) sagði, að stjórnin hefði notað slægðarbrögð til að neyða almenning til að kaupa ýmsar vörur með óhæfilegu verði. Þetta eru tilhæfulaus ósannindi. En jeg ætla ekki að fara lengra út í það hjer.

Enn fremur lá hann stjórninni á hálsi fyrir það, að hún hefði ekki tekið að sjer síldarsöluna. En jeg vil nú láta hann vita, að það hefði líklega þótt gengið nokkuð nærri einstaklingsrjettinum, þar sem þeir, sem síldina áttu, óskuðu ekki eftir því. Þar að auki gerði sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn alt sitt til þess að greiða fyrir sölunni.

Þá talaði hann um lánleysi stjórnarinnar, eins og hann komst að orði, og fullyrti, að ef lán hefði verið tekið, þá hefði landið grætt á því 6 miljónir kr. En jeg verð nú að segja, að þetta ber ekki vott um mikið fjármálavit. Og hann tók ekki heldur fram, hve mikið lán þyrfti að fá til þessa. En setjum nú svo, að hægt hefði verið að fá stórlán. Hver er þá kominn til að segja, að gengið lækkaði ekki einmitt við það ? Og hvar var þá þessi 6 miljóna gróði? Og það er ekki lengi um að muna, að þurfa að greiða 8–10% vexti af háu láni í langan tíma. Það veit enginn enn, hvort gengið yrði lægra þegar greiða ætti skuldina heldur en þegar lánið væri tekið.

Nú sný jeg mjer að annari hliðinni á ræðu hv. þm. Dala. (B. J.). Það er kunnugt, að þessi hv. þm. (B. J.) getur aldrei talað án þess að fara út í utanríkismál. þetta verður maður að virða honum til vorkunnar, vegna þess, að oft lítur svo út, að honum sje ekki sjálfrátt um, hvernig hann hagar orðum sínum, þegar hann kemst inn á þesskonar efni, sem oftast vill verða, þegar það á ekki við. Jeg verð að fara dálítið fram í tímann. Allir vita, að þessi sjálfstæðisflokkur, eða núverandi „Þversum“, sem hv. þm. (B. J.) mun vera faðir að, hefir látlaust reynt að sverta alla þá, sem við stjórnmál fást og ekki vilja aðhyllast hans kenningar, í augum þjóðarinnar. Þessi þm. (B. J.) hefir haldið fram, að hann einn væri sannur föðurlandsvinur, sannur Íslendingur; allir aðrir væru skaðræðismenn. En margur skyldi halda, að þetta meðal ætti nú ekki lengur við. En hann virðist ætla að halda áfram uppteknum hætti og vara menn við föðurlandssvikurunum! Hann vill auðsæilega vekja tortrygni á ný, byggja upp flokkinn og bjarga leifunum með þessum miður heiðarlegu meðulum. Þannig er hans pólitik.

En nú vil jeg biðja hv. þingmenn fyrirgefningar, þótt jeg viðhafi hjer líkingu. Jeg hefi sjeð trjehest, sem var notaður sem leikfang, og sjeð drengi setjast á bak honum, og mjer finst hv. þm. Dala. (B. J.) farast svipað og drengnum; hann ber fótastokkinn og heldur, að hann sje kominn á bak einhverjum dæmalausum gæðingi, og er auðsæilega harðánægður með sjálfan sig, og úr öllu þessu háttalagi þm. (B. J.) virðist mjer ætla að verða aumasta skrípamynd.

Nú vil jeg snúa mjer að hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.). Það er altaf þetta sama, sem þeir jeta hver eftir öðrum, sem sje að taka lán, lán og aftur lán. Jeg ætla ekki að fara mikið út í það mál hjer nú, því um það hefir áður verið rætt, en jeg vil þó geta þess, að slíkt er skaðræðishugsunarháttur, sannkallaður betlarabragur. það er miklu nær að reyna að bjarga sjer við á annan hátt. Eina rjetta leiðin er sparnaður og minni innflutningur. En á móti því berjast þeir með hnúum og hnefum, en annars sker reynslan úr því. Mjer fanst hv. þm. (Gunn. S.) fara nokkuð geyst, en hann ályktar víst sem svo, að „oft verður góður hestur úr göldum fola“. En það getur nú ekki átt við hjer. Hjer á þingi gagnar ekki að viðhafa nein rassaköst. Annars eru víst fáir hv. þm. honum sammála, og væri því mikið nær fyrir hann að fara hægara, ef hann ætlar ekki að vera sjer til minkunnar.

Þá er hv. 1. þm. Árn. (E. E.). Mig minnir, að jeg heyrði einhvern segja, að þessi hv. þm. (E. E.) hafi gefið kjósendum sínum mörg fögur loforð um mikil afrek til þjóðþrifa, ef hann kæmist á þing. Þessi loforð þingmannsins (E. E.), sem í spaugi voru kölluð 11 boðorð hans, munu enn að mestu óuppfylt. En nú á að byrja, nú eiga efndirnar og árangurinn að fara að sýna sig. En það þarf að gera meira en lýsa dáðleysi og athafnaleysi stjórnarinnar. Það eru tóm orð, sem lítið stoða ein út af fyrir sig. Hv. þm. (E. E.) hefir ekki bent á neitt, sem hægt væri að bjarga landinu við með, nema þetta eina og eilífa, að taka lán á lán ofan. Jeg verð að segja, að þessi framkoma af hv. þm. (E. E.) er nokkuð þokukend. Þokuhnöttur þessi sveimar um. En hver veit? Kannske sje þar inni falin einhver fögur stjarna. En þessi stjarna, ef hún annars er nokkur, er þá falin í þeim þokuhjúp, sem jeg get eigi sjeð í gegnum. Á meðan svo er get jeg ekki sjeð, að hann sje neinn sjálfkjörinn leiðtogi, sem sje fær um að vinna öll þau ósköp, sem hann vill láta hæstv. núverandi stjórn vera búna að gera.

Jeg tók það fram, að jeg ætlaði ekki að tala hjer lengi; aðeins ætlaði jeg að láta í ljós skoðun mína á málinu og mönnunum, sem grynst vaða og gusa mest. Ef svo væri, að einhver væri óráðinn, með hverju hann greiddi atkv. sitt, þá ættu þessar umr. að sýna honum, að þessi vantrauststilraun er ekki annað en gönuhlaup, því að ásakanir þeirra eru staðlausar og nauðaómerkilegar. Hæstv. stjórn hefir, eftir atvikum, staðið vel í stöðu sinni, og vænti jeg þess, að hún fái fullan stuðning hv. deildar.