17.03.1921
Neðri deild: 25. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í D-deild Alþingistíðinda. (3744)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg verð að minnast nokkrum orðum á ræðu hv. 1. þm. Ám. (E. E.). Jeg get ekki vel orða bundist um ummæli hans viðvíkjandi samtali fjrh. (M. G.) við bankastjórana í október í haust, sem fram fór í Kaupmannahöfn. Hv. þm. (E. E.) segir, að þegar bankastjórarnir eigi töldu rjett að taka lán, þá hefði stjórnin átt að taka af þeim ráðin. Af því nú að jeg hefi heyrt svipuðu hreyft af fleirum hjer á þinginu, þá vil jeg taka það fram og benda á, eins og hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), hvílík fjarstæða slíkt er, að stjórnin eigi í fjármálum að taka fram fyrir hendur á þeim. Það mun vera hið tíðasta, að landsstjórnir hafi helstu banka landsins til aðstoðar og ráðuneytis í fjármálum, en grípi eigi fram í fyrir þeim um fjármálaráðstafanir sjálfra þeirra.

Í sambandi við þetta margþvælda umtalsefni, lántökuna, tekur hv. þm. (E. E.) svo til orða, að það sjeu brjóstheilir menn, sem vilja halda uppi vörnum fyrir stjórnina. Jeg tek þetta sem unggæðingshátt hjá honum og tel það lýsa dæmafáu þroskaleysi og fljótfærni. Annars er búið að tala mikið um þetta lánamál, en engum hefir enn þá dottið í hug að benda á, hverjir möguleikar hefðu verið fyrir stjórnina til þess að fá slíkt lán. Það hefir verið sagt, að fá mætti lán í Ameríku, en engin rök hafa verið færð fyrir því enn. Enda fæst slíkt ekki á einu augnabliki. Danir og Norðmenn voru mörg ár um að vekja svo mikla athygli og kunnugleik á sjer, að þeir gætu fengið lán þar. En hvað má þá segja um Ísland, sem öllum hefir verið ókunnugt til þessa,

Það, sem jeg tók til mín af því, sem hv. 1. þm. Árn. (E. E.) sagði, var annars ekki þetta, heldur það, sem hann mintist á afstöðu stjórnarinnar til atvinnuveganna. Hann spurði um það, hvað stjórnin hefði gert til viðreisnar atvinnuvegunum. Mjer er nú spurn: Var nú hægt að ætlast til mikillar viðreisnar atvinnuveganna á þessu tímabili, sem þessi stjórn hefir staðið, eða síðan um þetta leyti í fyrra?

Tökum fyrst landbúnaðinn. Hvernig átti núverandi stjórn að sjá fyrir því, að nægilegar fóðurbirgðir væru í landinu haustið 1919, svo að vel væri á sett ? Hvaða tækifæri hafði hún til þess, og hvað gerði hún í því máli? Það er nú margreynt, að stjórnin getur ekki gert mikið í slíku máli. En einmitt þessi stjórn reyndi meira til en undanfarandi, og það varð þó ögn til björgunar, að minsta kosti sumstaðar. Og jeg vildi spyrja, hvort viðleitni stjórnarinnar hafi ekki einmitt í Árnessýslu, kjördæmi hv. þm. (E. E.), orðið fult eins notadrjúg og það, sem hjeraðsstjórnin gerði?

Þá kem jeg að öðru atriði, landbúnaðinum til meins, en það er hið háa kaupgjald. Hvernig átti stjórnin að koma í veg fyrir það? Það er alveg eins um kaupgjaldið hjer og hjá sjávarútvegnum, að það átti stóran þátt í tekjuhallanum á þessum atvinnuvegi. Á meðan bændur eigi hlutuðust til sjálfir með samtökum sín á milli um sanngjarna samninga við verkalýðinn, hverju getur þá stjórnin áorkað til bóta eða samkomulags í því máli?

Og þá er dýrtíðin að öðru leyti. Hvaða áhrif gat stjórnin haft á verð í útlöndum á aðfluttum vörum? Hefir stjórnin ekki einmitt með landsversluninni útvegað skárri kjör með vöruverð en ella hefði fengist?

En það eru einmitt þessi atriði, fóðurskorturinn í fyrra vor, kaupgjaldið í sumar og þetta síhækkandi verð á öllum aðfluttum vörum, sem hnekt hafa landbúnaðinum. Síðan bætist hið gífurlega verðfall á öllum afurðunum ofan á. Og hvernig gat stjórnin ráðið við það?

Um sjávarútveginn er hið sama að segja. Stjórnin gat með engu móti ráðið við hin óheppilegu skipa- og vörukaup í fyrra vetur. Það var ekki á hennar valdi að stemma stigu fyrir þessu, og það því síður, þar sem þetta var nærri alt um garð gengið, eða á fullan rekspöl komið, áður en stjórn sú, er nú situr, komst á laggirnar. En eftir að stjórnin tók við völdum og viðskiftanefndin var sett hefir ekki verið stofnað til slíkra óhappakaupa.

Viðvíkjandi fiskinum, sem lá óseldur um nýár, þá átti stjórnin ekkert vald á honum, þar sem hann var í höndum einstakra manna. Fiskinn gat stjórnin aðeins tekið með því að gefa út bráðabirgðalög um stjórnareinkasölu. Og hvernig hefði það mælst fyrir hjá þeim mörgu, er fiskinn áttu? Aukaþingið í fyrra hefði þá líka átt að gera eitthvað í því. En hvaða skipakost hefði svo líka stjórnin haft til að flytja fiskinn út? Og átti svo stjórnin að vita það fyrirfram, sem enginn af fagmönnum sá fyrir? Stjórnin hafði enga hvöt til úr neinni átt að grípa til slíkra örþrifaráða, því síður að það væri skylda hennar að taka af eigendum umráð yfir fiskinum og ráðstafa honum á betri hátt. Loks er mjer kunnugt um það, að stjórnin hefði tæplega fengið nokkurn mann til að standa af hennar hálfu fyrir útflutningi fiskjarins. Svona aðgerðir hefðu að vísu getað bjargað miklu, en viðreisn atvinnuveganna hefði það ekki getað heitið. Nei, í svona árferði og aðköstum er ekki hægt að ætlast til viðreisnar atvinnuveganna. Það eina, sem hjer var hugsanlegt að gera, var að veita viðnám. Og að slíku viðnámi hefði mikið stutt, ef stjórnin hefði tekið vald á gjaldeyri landsins þegar í byrjun, en til þess hefði þurft lagaheimild frá Alþingi. Þessi krafa er því hreint og beint hverri stjórn ofurefli. Hið eina, sem Alþingi fól stjórninni og gaf vald til að reyna og lagði áherslu á, var að veita viðnám með sparnaði, þ. e. að hamla innflutningi á óþarflega miklum vörum.

Í þessu allsherjaröngþveiti atvinnuvega og viðskifta eru það tvö höfuðatriði, sem koma til greina. Í fyrsta lagi óviðráðanlegar orsakir, svo sem afarslæmt tíðarfar og óhagstæðar verðbreytingar á erlendum markaði, eins og áður er nefnt. Í öðru lagi nokkuð mikil óforsjálni af hálfu atvinnurekenda í sumum atriðum. Jeg verð því einnig að telja það þroskaleysi af hv. þm. (E. E.), sem sjálfur er bankastjóri, og ekki hefir getað reist rönd við hengingarvíxlum austanfalls, að krefjast þess af stjórninni, að hún framkvæmi það, sem hann getur ekki sjálfur gert og getur ekki sýnt að sje framkvæmanlegt í hans litla umdæmi.

Jeg neita því, að stjórnin eigi nokkurn þátt í því með aðgerðum sínum nje aðgerðaleysi, að gjaldeyrir landsins í útlöndum hafi selst of seint og rýrnað í verði. Það, sem jeg sagði að stjórninni væri ofvaxið, var að sporna við, að landið keypti meira af vörum og skipum en það mátti við, — það var þetta, sem einkum skapaði öngþveiti bankanna. Verðfall og seinkuð sala bætist svo ofan á, og þetta veldur gjaldeyrisskorti, hvort sem það er sprottið af óforsjálni eða öðru.

Hv. þm. (E. E.) mintist á hina lögskipuðu yfirfærsluskyldu Íslandsbanka á árinu 1920 og fann það að stjórninni, að hún hefði ekki haldið bankanum til skyldunnar. En um það ber nú eiginlega ekki að ræða hjer; þetta er bankamál, og slík mál eru nú í alveg sjerstakri nefnd, sem hv. þm. (E. E.) er sjálfur í, og ætti því að láta það bíða þangað til sú nefnd skilar af sjer. Jeg skal nú samt geta þess, að stjórnin hefir haldið Íslandsbanka til skyldunnar á þann hátt, að bankinn gaf út tjekka til landssjóðs, sem námu 1 miljón króna. En þeir fengust eigi greiddir í Prívatbankanum í Kaupmannahöfn. Stjórnin fær þannig bankann til að gera meira í þessa átt en hann er fær um, og gefa út yfirfærsluávísanir, sem ekki fást greiddar í hans aðalviðskiftabanka. Betri sönnun getur ekki fengist fyrir því, að stjórnin hafi haldið bankanum til þess að gera skyldu sína.