17.03.1921
Neðri deild: 25. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í D-deild Alþingistíðinda. (3755)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Forsætisráðherra (J. M.):

Það má undarlegt heita, að eftir allar þessar löngu umræður um þetta mál í deildinni, þá er það í rauninni lítið, sem segja þarf af hálfu stjórnarinnar.

Maður getur sjeð, hve mikill mergur hefir verið í ræðunum, eftir að hafa heyrt ræðu hv. 4. þm. Reykv. (M. J.). Hann hefir ekki sagt eitt orð, sem ekki var margbúið að segja áður, en aðeins endurtekið það með þessum venjulegu vafningum sínum.

Það er margbúið að segja, að stjórnin eigi að leita trausts hjá þinginu, og ef frv. hennar falli, eigi hún að segja af sjer. Um þetta má margt segja. Hjer er, eins og víðar, sinn siður í landi hverju. í Englandi t. d. mun það vera siður, að stjórnin segi af sjer, ef hún verður undir í atkvæðagreiðslu jafnvel í smámáli. Hjer hefir það aldrei verið. Það dettur engum í hug, að stjórnin þurfi að taka nærri sjer eða segja af sjer, þó að frv. sje felt fyrir henni.

Jeg hefi setið á öllum þingunum síðan ráðuneytið varð innlent, og aldrei orðið þess var, að heimtað væri af stjórn að hún segði af sjer, þó að slíkt kæmi fyrir.

Það kom fyrir stjórnina, þegar hún var sterk, eins og hún var í fyrri ráðherratíð Hannesar Hafsteins, að frv., sem hann hafði lagt mikla alúð við, ágætt frv., fjell fyrir mótstöðu sumra hans manna. Honum datt ekki í hug að fara samt. Hjer verður að fara eftir því, hver venja er hjer upp tekin. Jeg skal aðeins minna á, hvernig á stóð 1913.

Það voru fögur orð, sem hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) og fleiri þingmenn átu hver eftir öðrum, þetta, að stjórnin æti afkvæmi sitt. Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) kom með þau fyrst við þessar umr., og þóttist fyndinn. Jeg vil nú ekki spilla ánægju hans út af þessu, en ekki hefir hann fyrstur fundið þetta púður. En þegar tveir, sem þykjast miklir ræðumenn, hv. þm. Dala. (B. J.) og hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), jórtra þetta eftir honum, og loks hv. 4. þm. Reykv. (M. J.), þá fer mesti glansinn að fara af þessari mjög svo smekklegu fyndni.

Það hefir verið sagt, að stjórnin þegar í þingbyrjun hefði átt að biðja um traustsyfirlýsingu. Um það er það að segja, að jeg hygg það ekki hægt að krefjast af neinni stjórn, að hún leiti traustsyfirlýsingar fyr en henni sýnist. Því verður hún að ráða. En að mótstöðumenn hennar beri fram vantraustsyfirlýsingu er þinglegt, þótt það lýsti óþolinmæði hjá hv. þm. Dala. (B. J.) að koma fram með hana einmitt þann dag, er hann gerði það. Fyrir viku sagði hann hjer í þingsalnum, að síðasta ráðið, sem hann ætlaði að gefa mjer, væri að heimta traustsyfirlýsingu, en daginn eftir kom hann fram með vantraustyfirlýsinguna, og hefði mátt búast við, að hann gæti beðið einn dag til þess að vita, hvort jeg ætlaði að fylgja ráðleggingu hans.

Sem sagt, það er ekkert út á það að setja, að mótstöðumenn stjórnar reyni að koma henni frá með vantraustsyfirlýsingu. Það er ofureinfaldur hlutur og á ekki að þurfa að taka mikinn tíma fyrir þinginu, ef rjett er að farið.

Jeg vil benda á annað. Á undanförnum þingum, eða þingum, sem vantraustsyfirlýsing hefir verið borin fram, — það mun vera þrisvar sinnum, — þá var bygt á því, að það væri yfirlýstur vilji alls þingsins, eða meiri hluta alls þingsins, er hjer ætti að ráða úrslitum, en ekki, eins og nú virðist tilgangurinn, aðeins meiri hluti annarar deildarinnar.

Jeg hefi áður nefnt þær þrjár vantraustsyfirlýsingar, sem komið hafa fram, og það verð jeg að segja, að umr. voru þá á alt annan veg en nú. Þá var ekki talað eins mikið, og þá var reynt að halda sjer við það, sem fyrir lá, en ekki þuldir framtíðarspádómar og annað þess háttar.

Það var villandi hjá hv. 4. þm. Reykv. (M. J.), að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefði ekki þurft að verja stjórnina, því á hana hefði ekki verið ráðist. Jeg veit ekki, hvað hv. þm. hafa verið að gera þessa tvo daga, ef þeir hafa ekki ásakað stjórnina, og jeg skil ekki, hverju þetta vantraust á að byggjast á, ef stjórnin væri ekkert ásökuð fyrir það, sem hún hefir gert eða látið ógert.

Hv. þm. Dala. (B. J.) hafði það vit að reyna að finna orðum sínum stað, en margir þm. hafa reyndar farið með tóman vaðal, sem ekkert mark er á takandi. Jeg leiði þess vegna minn hest frá því að elta ólar við alt það, sem sagt hefir verið, og drep aðeins á einstöku atriði.

Jeg þarf litlu að svara öðrum, því svo má segja, að fátt eða ekkert nýtt hafi komið fram eftir fyrstu ræðu hv. þm. Dala. (B. J.). Jeg hefi gleymt að svara ásökunum hans fyrir það, að jeg hafi ekki sjeð fyrir því, að sendimenn, er hingað komi, hafi „diplomatiska funktion“, sem hann kallaði svo. Hann hefir víst átt við aðalkonsúla senda, eða aðra sendiræðismenn. það er rjett, að slíkir menn eru stundum sendir til annara ríkja, en það er helst til hálfsiðaðra þjóða, og veit jeg ekki, hvort hv. þm. (B. J.) vill láta telja Íslendinga í þeim flokki. Annars ætti hv. þm. (B. J.) að vita, að slíkum málum ræður hvert ríki sjálft, og er þýðingarlaust að heimta sendiherra hingað eða sendiræðismenn frá öðrum ríkjum. Hvernig því er háttað, ræður það ríki, er sendi, alveg eftir sínum hentugleikum. Jeg hefi gleymt að svara þessu fyr, en jeg býst ekki við, að þetta verði stjórninni fundið að sök af meiri hluta hv. deildar.

Jeg býst við því, að hv. þm. (B. J.) hafi sagt það í spaugi, sem hann sagði um myntsláttuna. Það þarf ekki langan tíma til að gera samning, ef þar að kemur, og ætti engri stjórn að verða skotaskuld úr því. En tíminn til þess að taka upp myntsláttu nú væri heldur en ekki heppilegur!

Þá hjelt hv. þm. (B. J.), að vandalaust yrði að skipa nýja stjórn. Jeg vil engu um það spá, en erfitt reyndist það í fyrra, en ef til vill reynist það betur nú. Um það get jeg ekki sagt.

Hv. þm. (B. J.) mintist á dagskrá hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) og gat ekki talið hana þinglega, heldur nefndi hana þinghrekk. Jeg þarf ekkert um þessa dagskrá að tala; jeg hefi lýst yfir því áður, hvaða skoðun jeg hefi um hana. En hv. þm. Dala. (B. J.) hefir ekki álitið hana samboðna sóma sínum, eftir því sem hann talaði í fyrstu ræðu sinni. Hann talaði svo um það, eins og honum hefði komið til hugar að hafa þvílíka aðferð sem hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), en fundið, að það var ósæmilegt.

Þá talaði hv. þm. (B. J.) um viðskiftahöftin og kaupmennina og hjelt því fram, að þeir væru á móti þeim, af því þeir vildu ekki okra á almenningi. Þetta er vitanlega alveg rangt skilið. Kaupmennirnir hugsa fyrst um sjálfa sig og sjá það, að þótt þeir græði ef til vill á höftunum í svip, tapa þeir á þeim er til lengdar lætur. Þeir eru það hygnir að horfa einnig fram í tímann, en það ræður afstöðu þeirra, hvernig hagur þeirra verði mestur.

Það hefir verið talað um afstöðu ráðherranna til vantraustsins, og margir hafa fárast yfir því, ef þeir greiddu atkv. gegn því. Jeg get hjer litið hlutlaust á málið, því jeg get ekki greitt atkv., og jeg verð að segja það, að hugleysi eitt gæti aftrað ráðherrum frá að greiða atkv., eða misskilin hógværð. Allir vita, hverju megin þeir eru, og ef fastir flokkar væru hjer á þingi, mundi ráðherrum ekki haldast annað uppi en að greiða atkv., því auk þess, sem þeir eru ráðherrar, eru þeir þingmenn. Í sambandsríki voru, Danmörku, sat nýlega stjórn að völdum, sem aðeins hafði 1 atkv. meiri hluta í fólksþinginu. Ráðherrarnir voru margir þingmenn, og ef vantraustsyfirlýsing hefði verið borin fram, og ráðherrarnir ekki greitt atkv., hefði minni hlutinn samþykt vantraust. Jeg held, að slík framkoma ráðherranna væri of hógvær.

Hv. þm. Dala. (B. J.) talaði um, að enginn mætti greiða atkv. með fjárveitingu til sjálfs sín, en hjer er ekki um fjárveitingu að ræða. Jeg held, að þeir sjeu fáir hjer í deildinni, sem líta á ráðherraembættið peningaaugum. En það mætti minna hv. þm. (B. J.) á, áð fyrir nokkrum árum greiddi þm. (B. J.) atkvæði með sjálfum sjer, og hafði sú atkvgr. fjárveitingu í för með sjer. Það var gerður allmikill þytur út af þessu, en jeg lít svo á, og leit svo á þá, að sá þm. (B. J.) hefði gert það eitt, sem rjett var.

Hv. þm. Dala. (B. J.) sagðist vera einn af þeim fáu, sem ekki ásakaði stjórnina fyrir kolakaupin. Jeg veit ekki til, að nokkur maður, sem hefir athugað það mál, ásaki stjórnina fyrir þau kaup. Allir sjá, að það var rjett gert, nema hv. 4. þm. Reykv. (M. J.), og er ekki ástæða til að taka slíkt alvarlega. (B. J.: Jeg hefi ekki heyrt nema last um stjórnina fyrir þau kaup). Margir heyra það helst, sem þeir vilja heyra, og tek jeg hv. þm. (B. J.) trúanlegan.

Hv. þm. (B. J.) taldi það óforsvaranlegt af mjer, að jeg sagði, að vantraustið tefði þingtímann og spilti samvinnu þm., og hv. þm. Str. (M. P.) tók þetta einnig óstint upp. Hann sagði, að ekkert hefði það tafið fyrir sjer, og verð jeg að trúa þessu, þegar það er borið blákalt fram. En jeg er hræddur um, að hv. þm. (M. P.) sje þá undantekning, ef eitthvað er leggjandi upp úr þeim sögum, sem um þetta ganga. Vitanlega hefi jeg ekki ráð yfir því, hve langan tíma hv. þm. taka sjer til þess að koma vantraustsyfirlýsingunni fram, en óheppileg er öll þessi tímatöf, ef ekki er trygt, að hún nái fram að ganga.

Jeg sagði það í fyrri ræðu minni og endurtek það hjer, að jeg álít það ganga ósvífni næst að setja stjórninni fyrir og láta hana ekki í friði fyrir ráðleggingum, en vera þó í andstöðu við hana. Hv. þm. Dala. (B. J.) virðist ekki skilja þetta, en hann ber enga ábyrgð á stjórninni og getur því geymt ráðleggingar sínar.

Hv. þm. (B. J.) sagði, að jeg vildi endurbæta og reisa við atvinnuvegina með sparsemi. En jeg tók það fram, að hún væri ekki nægileg; fyrirhyggja og atorka þyrfti að fylgja.

Það var hrein fjarstæða hjá hv. þm. (B. J.), að stjórnin hefði lagt atvinnuvegina í kalda kol, og held jeg, að þm. (B. J.) hefði ekki dottið slíkt í hug, ef hugsun hans hefði verið í eðlilegu ástandi; en eitthvert rót hefir verið á henni. Jeg held, að hann eigi bágt með að sanna, að stjórnin hafi skaðað atvinnuvegina á nokkurn hátt. En á svona tímum er það fast lögmál, sem ekki verður undan komist, að það þrengi að öllum framkvæmdum, og held jeg, að ástandið sje ekki verra hjer en annarsstaðar í álfunni.

Einhver hv. þm. sagði það, að atvinnuvegirnir yrðu að halda áfram sem undanfarið, og það þó að halli yrði. Jeg veit ekki betur en að allir hafi dregið saman seglin meira eða minna; t. d. í Ameríku stóðu til miklar framkvæmdir, sem nú verða að liggja í láginni, og um allan heim liggur mikill hluti skipaflotans í höfnum, því það eru ekki nógar vörur til flutnings. í Danmörku eru yfir 200 þús. manna atvinnulausir, og svo má víðar telja. Það er þess vegna ekkert undarlegt, þó að hjer komi einhver afturkippur, og er ósanngjarnt að kenna nokkurri stjórn um það. Togararnir hafa nú stöðvast, en jeg vona, að það líði ekki langur tími þar til þeir halda út aftur.

Hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) veit minna um það en stjórnin, hvers vegna togararnir ganga ekki, og ætti hann sem minst um það að tala.

Hv. þm. Dala. (B. J.) þótti jeg heldur harðorður í fyrri ræðu minni, en það get jeg ekki viðurkent. Jeg feldi úr margt miklu harðara, sem jeg ætlaði að segja, og það gerði jeg af því, að hv. þm. Dala. (B. J.) talaði mjög stillilega, og jeg vona, að mjer hafi tekist að svara honum á sama hátt.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) stóð hjer upp og lýsti yfir því, að hann væri á móti stjórninni. Það furðaði víst engan á því, en á hinu furðaði mig, að aðalástæðan virtist vera einskær sannleiksást. Hann, sem er ritstjóri að hógværu og sannleiksflytjandi blaði, gat ekki þolað það, að jeg hefði gefið rangar skýrslur. Hann tilfærði tvö dæmi, ummæli mín í ráðgjafarnefndinni í sumar um landhelgismálið og skeyti ríkisráðherrans. Á því þykist hv. þm. (Jak. M.) hafa sjeð, að jeg hafi farið rangt með, því hann telur sjálfsagt, að Íslendingurinn hafi á röngu að standa, ef honum ber ekki saman við erlendan mann. En sannleikurinn er sá, að við höfum báðir sagt satt, ríkisráðherrann danski og jeg. Spurningin er aðeins um það, hvernig ummælin verða skilin. Jeg þarf ekki að lesa þau upp; hv. þm. hafa heyrt þau svo oft. En jeg vil skjóta því til þeirra, hvort það eigi að kalla tilboð af hálfu nefndarmannanna dönsku, að þeir segjast fúsir til þess að leggja það til, að strandgæslan verði aukin, ef Alþingi óskar þess. Hvort þetta má kalla tilboð, það getur verið álitamál, en ekki var um neitt beðið að fyrra bragði. En það hefir í raun og veru enga þýðingu, hvort þetta er kallað einu nafni eða öðru. Svo mikið er víst, að kostur er á þessu frá hálfu Dana. Jeg sagði það eitt, sem jeg vissi sannast og rjettast í þessu efni, og eins gerði jeg, er jeg sagði frá afstöðu þingsins 1920 á annan veg, og á annan veg frá afstöðu dönsku stjórnarinnar. Það hefði verið óðs manns æði að segja annað en satt um þetta, því það var sagt í einu við íslenska þingmenn og stjórnmálamenn og danska þingmenn og stjórnmálamenn. Jeg áleit það skyldu mína að reyna að fá Dani til að uppfylla skyldur þær, er þeir höfðu gengist undir í þessu efni, í sem ríkustum mæli, og þeir mega álasa mjer fyrir það, sem það vilja. Og þótt jeg hefði að fyrra bragði farið fram á ríkari landhelgisgæslu en beint var skylt, þá hefði jeg ekki þóst þurfa að biðja neinnar afsökunar á því.

Hv. þm. (Jak. M.) talaði um það, að jeg flæktist hjer fyrir og að á mjer strönduðu allar tilraunir til eðlilegrar flokkamyndunar, og þá um leið stjórnarskipunar. Menn efast vonandi ekki um sannsögli hans, en þó mun hann hafa vitað það, að tilraunir hafa verið gerðar til að mynda meiri hluta flokk í sumar, og hefir ekki tekist, en jeg hefi enga tilraun gert til að spilla því. Jeg hlýt að verða upp með mjer af því trausti, sem hv. þm. (Jak. M.) ber til hæfileika minna, að jeg geti farið með hv. þm. eftir geðþótta mínum, því þótt jeg sje ekki fíkinn í völd, kitlar það altaf hjegómagirnina að heyra manni hælt svo og vald sitt sagt eins víðtækt og hv. þm. lýsti mínu valdi.

Hv. 1. þm. Árn. (E. E.) vítti það mjög, að verið var að tala um Magnús Stephensen í sambandi við þessa stjórn, er nú situr. Þótt svo sje, að minst hafi verið á hann í einhverju sambandi, þá fæ jeg ekki skilið, að það sje í neinu óviðkunnanlegt. (E. E.: Jeg átti við fjármálastjórnina). Mjer er alveg sama, hvort hv. þm. (E. E.) átti við fjármálastjórn eða einhverja aðra; jeg skil ekki svona ummæli yfirleitt. Jeg þekti Magnús Stephensen betur en hv. þm. (E. E.), og jeg er viss um það, að hann hefði ekkert haft við það að athuga, þótt hann hefði verið nefndur í sambandi við fjármálaráðherra.

Það virtist koma fram í ræðu hv. þm. (E. E.), að jeg megi ekki dæma um mínar gerðir. Nú. þm., sem er sækjandi í þessu máli, hann má dæma, en stjórnin, sem er verjandi, hún má það ekki.

Þm. (E. E.) sagðist ekki treysta sjer til að koma heim til kjósenda sinna, ef hann þá væri ekki búinn að taka skýra afstöðu til stjórnarinnar. Sumir segja nú, að þessi umbrot hans sjeu til þess gerð, að hv. þm. (E. E.) þurfi ekki að koma til þeirra aftur. (E. E.: Þetta skil jeg ekki). Jeg get ekki gert við skilning hv. þm. (E. E.).

Hv. þm. (E. E.) talaði enn fremur um vandræðin, sem nú væru fyrir landbúnaðinn og sjávarútveginn. það er rjett, að hjer er vandi á ferðum, þótt jeg hins vegar verði að álíta, að hann lýsi ástandinu í sínu kjördæmi lakar en það er. En jeg hefi nú meiri trú á bændunum en hann. Og jeg get ekki, í þessu sambandi, látið vera með að segja litla sögu um kotbónda nokkum, og bera svo saman það, sem hv. 1. þm. Árn. (E. E.) segir um búskapinn í Árnessýslu, og orð þau, er þessi bóndi sagði við mig.

Sumarið sem leið var, eins og allir vissu, mjög erfitt, votviðrasamt og hey skemd. Jeg segi þá á þessa leið við bónda: „Mikið ósköp hlýtur að vera erfiður tími fyrir bændur núna“. En bóndi svaraði: „Ojæja, örðugt er það að vísu. En þegar sólin skín, þá lifnar alt aftur“. Þetta var nú hans trú, ólík trú bankastjórans. þetta er sú sanna íslenska trú, að alt rís upp aftur þegar sólin skín.

Hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) sagði, að ekki hefði verið rjett skýrt frá hjá mjer um samsteypustjórn í nágrannalöndunum. Jeg nefndi nú aldrei neina samsteypustjórn heldur minni hluta stjórn. Jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. (J. B.) viti eitthvað um þetta, fyrst hann er að leiðrjetta mig. En sje svo ekki, þá get jeg sagt honum það, að sá stjórnarforseti, sem var næst á undan þeim, sem nú er í Danmörku, sat einu sinni með 16 manna fylgi, að undanskildu stuttu millibilsástandi utanþingsstjórna. — Í Noregi mun líkt hafa verið ástandið, og er má ske enn. Vafasamt, hvort nokkursstaðar á Norðurlöndum er veruleg meiri hluta stjórn með samfeldan meiri hluta að baki sjer.

Hv. þm. (B. J.) sagði, að nauðsynlegt væri nú að mynda meira hluta, og að hann mundi vilja styðja að því. En hvað kemur honum það við, hvort hjer er meiri hluti eða flokkabrot, eða ekki. Jeg get ekki hugsað mjer, að sócíalisti geti tekið þátt í flokksmyndun hjer. Hann getur ekki samlagað sig neinum flokki hjer, hann stendur einn og á að standa einn, eftir sínum kenningum. Hann getur ekki tekið ábyrgð með neinum flokki, sem segir: Frjáls verslun í frjálsu landi. Ef jeg skil sócíalista rjett, þá er þoka fyrir augum hv. þm. (J. B.). Annars skal jeg ekkert setja út á það, þótt hann sje á móti stjórninni; jeg mundi vera það sjálfur, ef jeg væri í hans sporum, og þá líklega á móti allri stjórn, er hjer gæti myndast, svo jeg þá væri sjálfum mjer samkvæmur.

Hv. þm. (J. B.) talaði um einkasölufrv. og sagði, að þau sýndu svipaða stefnu og hann vildi viðhafa. Nefndi hann þar einkasölu á tóbaki, lyfjum o. s. frv. Þetta er og misskilningur hans. Það hefir verið tekin upp einkasala í ýmsum löndum, t. a. m. á tóbaki, eldspýtum og fleiru, án þess að það hafi þótt benda nokkuð í sócíalistaátt. Austurríki þótti ekki sjerlega sócíalistiskt fyrir stríðið t. a. m. Tóbakssölufrv. hjer átti ekki að sýna neina þvílíka stefnu.

Svo er það lyfjasalan. Hún er til tryggingar því, að lyfin verði góð, en sýnir alls enga stefnu í verslunarmálum. Þetta er bara misskilningur, viljandi eða óviljandi. Hitt gæti verið rjett, að heimta af stjórninni, að hún stæði eða fjelli með einhverju frv. En það væri alveg nýr siður, ef stjórn ætti að fara frá, þótt eitthvert af frv. hennar fjelli, t. d. að þessi stjórn ætti að fara frá, þótt eitt af þeim 50 frv. fjellu, er hún hefir lagt fyrir þingið að þessu sinni.

Frá sjónarmiði þm. (J. B.) get jeg vel skilið, að hann sje mótfallinn Íslandsbanka, en það á ekki, frá hans sjónarmiði, að gera svo mikið til, hvort eigendur eru innlendir eða útlendir. Hann hlýtur að vera á móti honum, — samanborið við Landsbankann, — af því að bankinn er eign einstakra manna. Og hv. þm. (J. B.) á eftir að sýna fram á það, að stjórninni hafi verið fjárhagslega mögulegt að taka bankann í sínar hendur. Aftur á móti er hitt rjett, sem hv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) benti á, að stjórnin verður að láta sig máli skifta, að það frv. fái á einhvern hátt sæmileg afdrif. Hann er þingvanur og skilur betur þingmálin.

Það var eitthvað lítils háttar, sem jeg skrifaði eftir hv. 1. þm. Rang.(Gunn. S.), en jeg held nú samt, að jeg sleppi honum.

Þá er það frændi minn, hv. þm. Str. (M. P). Hann ásakaði stjórnina fyrir það, að hún hefði ekki komið með neitt það mál, er valdið gæti ótvíræðri flokkaskiftingu í þinginu. Jeg held, að það sje til nokkuð mikils ætlast að krefjast þess af stjórninni, nú á þessum vandræðatímum, að hún vinni það kraftaverk að láta menn skiftast í meiri og minni hluta flokka um ákveðin mál. Slíkt er nær alveg óþekt nú sem stendur. Yfir höfuð myndast varla flokkaskifting á þann hátt.

Viðvíkjandi því, að stjórnin komi ekki með nein stefnumál, þá vildi jeg spyrja: Hvaða stefnumál hefir hv. þm. Str. (M. P.) komið með? Mjer þykir gaman að sjá, þegar þessi stjórn er farin frá, sem nú er ætlast til, hvernig sú stjórn, er þá tekur við, fer að koma á flokkaskiftingu hjer í þinginu.

Hv. þm. (M. P.) sagði, að stjórnin hefði ekki hugsjónir. Hvað meinar hv. þm. (M. P.) ? Jeg veit ekki betur en að það eigi að geta talist fullsæmilegt og forsvaranlegt að leggja fyrir þing heilt nýtt skattakerfi.

Jeg tek það alveg trúanlegt, að sú nefnd, sem háttv. þm. Str. (M. P.) hefir starfað í, hafi ekki tafist í öllum undirbúningi þessa máls, enda er það meiri hluti flokks þm. Dala. (B. J.), sem borið hefir þessa till. fram. (B. J.: Jeg er nú einmitt í þessum flokki, sem ekki hefir tafist).

Hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) var að tala um það, að jeg hefði sagt svo skýrt, að hann væri stjórnarandstæðingur. Mjer þykir leiðinlegt, ef jeg hefi gert hann að stjórnarandstæðingi með því. En jeg man svo langt, að hann var efstur á lista stjórnarandstæðinga. Og að því er snertir þessi 1400 atkv., þá gerði jeg ráð fyrir, að það væru fleiri stjórnarandstæðingarnir í þessum bæ en 1400, svo að þessi tala hræðir mig ekki.

Hv. þm. (M. J.) talaði um stjórnmálaástandið í landinu og glundroðann, sem ríkti þar, og það var víst líka það, sem ræða hans spanst út af. Jeg held, að hún sje nú nokkuð langsótt þessi kenning hv. þm. (M. J.) um alt þetta. Þm. sagði, að glundroðinn væri jafnvel kominn inn í þessa virðulegu stofnun. Jeg vil nú ekki segja neitt ilt um þessa virðulegu stofnun, þingið, en jeg held, að glundroðinn sje nú fult eins mikill hjer og fyrir utan. Jeg veit ekki, hvort stjórnin hefði getað fyrirbygt það, en hitt fullyrði jeg, að það á sjer alls engan rjett að ásaka stjórnina fyrir ástandið. Það gera tímarnir mest. Það er vitanlegt, að hjer er eiginlega ekki nema einn flokkur í þinginu, sem hefir ákveðna stefnu, og þó er þessi flokkur nú sundurlausari og ósamstæðari en áður.

Svo mintist hv. þm. (M. J.) á þetta, sem svo margir hv. þm. hafa talað um, að þingræði heimtaði fasta flokkaskiftingu. Þá kenningu hefi jeg aldrei heyrt fram setta fyr. Þingræði getur vel verið án fastra flokka; það gæti vel verið, þótt ekki væri nokkur flokkur.

Hv. þm. (M. J.) var að finna að því, að skift væri um einstaka menn í stjórn. Það hefir alls ekki verið á valdi þingsins; þessir menn hafa farið sjálfviljugir, og ekkert hefir bundið þá.

Stjórnin tók að vísu sömu stefnu um eignarrjett vatna, sem hún áður hefir fram haldið og hún taldi rjetta.

Og þó að hv. þm. Dala. hafi lastað þetta, þá get jeg ekki tekið það neitt nærri mjer. Jeg álít það alveg rjett, af hvaða stjórn sem er, að standa á sinni meiningu, þangað til þing beinlínis skipar henni að breyta til.

Ásökun þessa hv. þm. (M. J.) að öðru leyti á sjer engan stað. Því það er föst og ákveðin stjórnarvenja að leggja frv. fram í þeim búningi, er þau hafa fengið á fyrra þingi. Stjórnin hefir nú, að því er þetta frv. snertir, aðeins fylgt þessari sjálfsögðu reglu af virðingu fyrir þinginu.

Hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) talaði um það, að stjórnin stæði ekki við dýrtíðarráðstafanir sínar, nema hún hjeldi þeim áfram svo og svo lengi.

En stjórninni fanst nú rjettast að halda slíkum ráðstöfunum áfram til þings, svo að þingið gæti sjálft ákveðið, hvort þeim skyldi áfram haldið eða ekki. Stjórnin hefir aldrei ætlað sjer að halda því máli fram til streitu, þótt breytt væri til. Slíkt fer auðvitað eftir breyttum aðstæðum. Jeg býst við, að þetta sje í samræmi við þá kenningu þessa hv. þm. (M. J.), að betra sje ilt að gera en ekkert, þótt mjer raunar þyki það dálítið spaugilegt af munni þessa hv. guðsmanns.

Það hefir verið minst hjer á það, að ekki dygði að draga saman seglin. En jeg er samt hræddur um, því miður, að það verði að gerast.

Annars virðist mjer það nokkuð undarlegt, að þessar umræður, er áttu að snúast um stjórnina, hafa að miklu leyti lent í deilur milli einstakra hv. þm. Það væri æskilegt, að hv. þm. hjeldu sjer betur við efnið og deildu aðeins á stjórnina, kæmu með vantraustið á hana, en ekki hver á annan.

Hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) talaði um það, að stjórnin vildi ekki taka lán og teldi það óráðlegt. En þetta er hinn mesti misskilningur. Fjrh. (M. G.) hefir tekið það skýrt fram, að hjer sje ekki um það að ræða, hvort stjórnin eigi að taka lán í framtíðinni, heldur sje um það að ræða, hvort stjórnin hafi átt að taka lán. Það var líka ásökun hv. þm. Dala. (B. J.). þeirri ásökun hefir fjrh. (M. G.) svarað svo, að hann hafi ekki sjeð ástæðu til lántöku á árinu sem leið. En um hitt vill stjórnin eðlilega ekkert segja við þetta tækifæri, hvort eða hvenær eða hvar hún ætli að taka lán einhvern tíma. Og það ekki síst, ef hún nú fer frá.

Jeg held, að jeg sje þá búinn að svara flestu í ræðum hv. þm., er var svaravert. Og jeg vona að þurfa ekki að lengja umræður mikið fram úr þessu.