17.03.1921
Neðri deild: 25. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í D-deild Alþingistíðinda. (3756)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg skal ekki vera margorður, því jeg tel, að umræður eigi nú að fara að styttast.

Hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) gerði mjer upp hugsanir, er jeg samdi og bar fram tekjuskattsfrv. þessar hugsanir, sem hv. þm. (J. B.) lagði mjer í brjóst, báru ekki vott um neinn sjerstakan velvilja í minn garð, þar sem jeg átti að hafa lagt fram frv. og samið þau til þess að afla mjer atkvæða á víxl úr ýmsum flokkum. En jeg get sagt þessum hv. þm. (J. B.) það, að jeg hefi aldrei ætlað að veiða atkvæði hans eða annara með þessu eða öðru frv. Hann var ekki kominn á þing þegar jeg samdi frv. og hafði því ekkert atkvæði.

Þar sem þessi hv. þm. (J. B.) talaði um tekjuskattsfrv., þá skýrði hann beinlínis rangt frá, er hann sagði, að það gengi nær mönnum en tekjuskattslögin frá 1877. því í frv. mínu er gert ráð fyrir því, að frá sje dregið tekjunum fyrir hvern ómaga, er sá hefir fram að færa, er skattskyldur er, þannig, að sá, sem á fyrir að sjá 2–3 ómögum, er betur settur eftir frv. mínu en samkvæmt gildandi lögum.

Þetta var þm. (J. B.) skyldur til að taka fram, ef hann vildi segja allan sannleikann, en ekki gerast ber að ósanngirni og röngum sakargiftum.

Þessi hv. þm. (J. B.) sagði, að jeg hjeldi vörnum uppi fyrir Íslandsbanka. Hann má nú segja það. Jeg skammast mín ekkert fyrir að reyna að sjá um það, að ekki sjeu eyðilagðar peningastofnanir landsins.

Það er og rangt hjá hv. þm. (J. B.), að missir seðlaútgáfurjettarins hafi verið við lagður, ef bankinn gæti ekki yfirfært peninga til útlanda. Þetta getur þm. sjeð, ef hann nennir að líta í lögin frá í fyrra, og á annað borð vill heldur segja satt en skrökva. Hann sjer það, að við liggur, að seðlarnir sjeu innleysanlegir, en ekki annað.

Jeg hafði og skrifað hjá mjer ummæli þessa hv. þm. (J. B.) um flokkaskipunina. Því hefir hæstv. forsrh. (J. M.) rækilega svarað. Þarf jeg engu þar við að bæta, en er á sama máli og hann um það, að þessi þm. (J. B.) geti ekki, samkvæmt stefnu sinni, gengið í nokkum flokk í þinginu eða átt með þeim samleið.

Um hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) tala jeg ekki. Hann er nú framliðinn í þessari umræðu, og þeir dauðu hafa sinn dóm, og dóminn yfir honum hefi jeg þegar kveðið upp.

Mjer skildist á hv. þm. Str. (M. P.), að hann væri gramur yfir því, að jeg hefði ekki lýst yfir því, að jeg segði af mjer, ef einkasölufrv. væri felt. Telur hann það vott um stefnuleysi hjá mjer og stjórninni yfirleitt. En þetta mál er fyrir mjer ekkert stefnumál. Það, sem fyrir mjer vakti við samningu frv., var það, að fje þyrfti að útvega í ríkissjóð, og jeg sá ekki betri leið til þess en þetta. Og ef hv. þm. Str. (M. P.) getur bent á heppilegri leiðir til þessa, þá skal jeg fúslega fylgja honum.

Hv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) spurði, hvað stjórnin ætlaði sjer að gera, ef tekjur og gjöld ríkisins stæðust ekki á. Þessi fyrirspurn er óþörf. Jeg sagði við 1. umr. fjárlaganna, að ef einhver tekjufrv. yrðu feld, eða gjöldin aukin, þá byggist jeg við, að hallann yrði að jafna með útflutningsgjaldi af afurðum landsins. Jeg játa það fúslega, að slíkt er neyðarúrræði, og jeg vildi óska, að slíkt þyrfti ekki að koma fyrir.

Jeg skal taka það fram, að mjer þykir það nokkuð undarlegt, ef ráðherra á nú að fylgja svo fast fram hverju einasta frv., að hann segi af sjer, ef við því er hróflað. Jeg mundi telja slíkt nokkuð mikinn einstrengingshátt, er ekki mundi bæta ástandið. Þar sem nú yfir 40 þingmenn sitja á þingi, þá er ekki hægt að búast við því, að allir fái vilja sínum framgengt í öllu. Menn verða að sveigja til, ef samkomulag á að fást eða samvinna verða.

Enn fremur spurði hv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) um það, hvernig fara mundi um yfirfærslur peninga gegnum póst. Já, það er nú ekki gott að svara því, hvernig það verði í framtíðinni. En svo mikið get jeg þó sagt, að mikið hefir verið yfirfært nú upp á síðkastið gegnum póstinn, t. d. nær einni miljón á einum mánuði. En að því getur þó rekið, að hjer verði að taka í taumana, ef aðalviðskifti landsmanna við útlönd eiga að fara fram á þennan hátt.

Hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) hefir hæstv. forsrh. (J. M.) svarað. Það var annars býsna margt, sem sá hv. þm. (M. J.) sakaði stjórnina um. Hún átti sök á flokkaglundroðanum á þingi. Hún átti sök á illu ástandi, sem er afleiðingar ófriðarins, o. s. frv. Þó benti nú þessi hv. þm. (M. J.) sjálfur á ástæðuna fyrir flokkariðluninni, að það væri lausn sambandsmálsins. Er það rjett hjá hv. þm. (M. J.). Sama kom og fyrir hjá Norðmönnum, er þeir losnuðu úr sambandinu við Svía.

Hv. sami þm. (M. J.) segir, að stjórnin hafi ekkert gert til þess að ljetta af dýrtíðinni í landinu. Ja, hvað á þm. við ? Ef hann á við, að stjórnin hefði átt að selja vörur undir sannvirði, þá var slíkt ekki hægt. Það gat stjórnin ekki gert án lagaheimildar frá þinginu.

Hann sagði enn fremur, að stjórnin væri stefnulaus viðvíkjandi viðskiftahömlunum og vissi ekkert hvað gera skyldi í þeim efnum. Það hefir nú aldrei verið meining stjórnarinnar að halda þeim hömlum til eilífðar. Hann hjelt því fram, að stjórnin hefði haldið þeim of lengi. En til þess er því að svara, að verðfall á erlendum markaði hófst fyrst fyrir 2–3 mánuðum, og því naumast hægt að áfellast stjórnina mjög, þótt hún vildi ekki sleppa öllu lausu þá þegar, þar sem bæði þing átti að koma saman innan skamms, og verðfallið tiltölulega lítið erlendis. Jeg hygg, að flestir muni telja það hyggilegt af stjórninni, úr því sem komið var, að bíða eftir vilja þingsins.

Þm. (M. J.) talaði um peningaleysið hjer, að það væri mikið. Og það er satt. En það er alda, sem gengur yfir allan heim, og því eðlilegt, að við sjeum þar engin undantekning.

Þessi hv. þm. (M. J.) er mjög óánægður yfir því, að stjórnin skuli ekki þegar vera farin frá. Jeg býst nú við, að það fari að styttast fyrir henni, og þm. (M. J.) geti því verið ánægður. En jeg vil geta þess, að það hefir aldrei verið siður hjer, að stjórn hafi leitað trausts hjá þingmönnum. Og af hverju hefir þm. (M. J.) ekki sjálfur komið með vantraustsyfirlýsingu, öðru en því, að hann veit, að hann getur ekki fengið hana í gegn? Hann gerir fúlyrðum sínum of mikinn kraft, er hann heldur, að stjórnin víki fyrir þeim einum. Til þess hefir hún ekki heimild.

Þá mintist þm. (M. J.) á bókunina í ráðherrabókinni viðvíkjandi kornvörufrv., og að sú bókun sýndi best stefnuleysi stjórnarinnar. En jeg get nú sagt þessum hv. þm. (M. J.) það, að svona slagorð met jeg einskis. Stjórnin ætlaði aldrei að nota þá bókun sem neitt skálkaskjól, heldur átti hún aðeins að sýna það, að stjórnin legði ekki og ætlaði sjer ekki að leggja neitt kapp á þetta mál.

Þessi hv. þm. (M. J.) sagði, að stjórnin væri hálfvolg og óákveðin, og því væra þm. það líka. Jeg skil ekki almennilega, að þm. (M. J.) skuli vilja lýsa vantrausti á öllum þm. líka; þeir eru ekki heldur hjer til umræðu í dag. Hann ætti því að láta sjer nægja að fást við stjórnina eina, en hann er í svo miklum vígahug, að hann veit ekki hvert hann heggur.

Um lántökurnar söng hann aðeins sama sönginn sem áður hefir verið sunginn hjer. Þarf jeg ekki að svara því, þar sem það er marggert áður.

Þá spurði hv. þm. (M. J.), hvaða gagn væri að afnámi viðskiftahamlanna, ef ekki væri hægt að taka lán til að greiða skuldirnar erlendis. Jeg hefi aldrei borið á móti því, að hægt væri að taka lán. Þvert á móti. Landsbankinn hefir tekið lán. Og það hafa verið tekin lán bæði í Englandi, Ameríku og Danmörku. En það þykir ekki nóg. Altaf er verið að klifa á lántökum og sagt, að stjórnin vilji ekki taka lán, og það eingöngu vegna þess, að stjórnin vill ekki vasast í því að taka lán handa einstökum mönnum til atvinnurekstrar.

Þm. (M. J.) segist ekkert upp úr því leggja, hvort samþ. verði traust eða vantraust á stjórnina. En til hvers var hann þá að eyða dýrmætum þingtíma með klukkutíma ræðu?

Þm. (M. J.) sagði, að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefði tekist vel að verja stjórnina, þ. e. a. s. að bera af henni glæpi. En hann tók aftur að sjer að lasta stjórnina, og reyndi að finna henni ýmislegt til foráttu. Meðal annars það, að fjeð fyrir trollarana hefði verið fast hjá stjórninni, nema þá til kaupa á nýjum skipum. Þetta er ekki satt. Stjórnin borgaði fjeð út, þegar ekki þótti þörf fleiri skipa.

Ef jeg ætti þá að draga saman í eitt það, sem stjórninni hefir verið fundið til foráttu af þessum hv. þm. (M. J.), þá er það þetta, að hún hefði átt að koma í veg fyrir afleiðingar ófriðarins, en ekki gert það. En hver einasti meðalgreindur maður hlýtur að sjá, að þetta er ómögulegt. Þegar miljónir manna gera ekki annað árum saman en eyða og spilla fjármunum og vegast, í stað þess að framleiða, þá hlýtur slíkt að koma niður á öllum heiminum.

Mjer skildist, að þessi hv. þm. höfuðstaðarins (M. J.) miklaðist mjög af því að hafa fengið rúm 1400 atkvæði einungis vegna þess, að hann var á móti stjórninni. En mjer finst nú, satt að segja, þm. (M. J.) vera orðinn nokkuð bljúgur og lítilþægur, ef hann heldur, að hann hafi ekkert atkvæði fengið sjálfs sín vegna, heldur hafi stjórnin útvegað honum þau öll. En kann ske þetta sje satt?

Jeg mun ekki greiða hjer atkvæði, hvorki með eða móti vantraustinu. En hitt játa jeg þó, að það er skýlaus rjettur hvers þm. En jeg vil þó ekki nota þann rjett nú. En hitt er annað mál, þegar jeg fer að gera það upp með sjálfum mjer, hverjir eru með og hverjir móti núverandi stjórn, að þá getur enginn bannað mjer að telja mig í hópi stuðningsmannanna, því jeg er með stjórninni, eins og hv. þm. munu hafa heyrt.