17.03.1921
Neðri deild: 25. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í D-deild Alþingistíðinda. (3766)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Ólafur Proppé:

Jeg get verið mjög stuttorður, því það, sem jeg vildi sagt hafa, eru aðeins örlitlar athugasemdir út af svörum hæstv. forsrh. (J. M.). Mjer þykir það mjög leitt, annara þm. vegna, að svör hans hafa ekki verið greinilegri en þau voru. En hins vegar verð jeg að taka gilda afsökun hans í því efni. Jeg hefi, síðan jeg hjelt fyrri ræðu mína og gerði fyrirspurnina, haft færi til þess að tala við hann og fjrh. (M. G.) ítarlega um þessi mál og kynnast áformum þeirra, og þær upplýsingar, sem jeg hefi fengið hjá þeim, get jeg látið mjer nægja, eftir atvikum.

En það, sem jeg legg aðaláhersluna á í þessu lántökumáli, er það, að hvernig sem fyrirkomulagið verður, þá verði gengið svo frá, að hag þeirra kaupsýslumanna og annara framleiðenda, sem við bankann skifta, verði borgið, og það jafnt hvort sem þeim banka eða Landsbankanum verður fengið fjeð til ráðstöfunar.