17.03.1921
Neðri deild: 25. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í D-deild Alþingistíðinda. (3767)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Magnús Jónsson:

Jeg skal vera ákaflega fáorður. Er það hvorttveggja, að umræður eru orðnar langar, og auk þess hefi jeg verið svo óheppinn að fá kvefpest þá, sem nú gengur, og er því hás og lítt hæfur fyrir löng ræðuhöld. Það kemur sjer því afarvel fyrir mig, að þau hafa verið svo undarlega kraftlítil þessi skeyti stjórnarinnar og verjenda hennar. Því fyrir bragðið hefi jeg næsta fáum að svara. Jeg get þó ekki stilt mig um að víkja með nokkrum orðum að ræðu hæstv. forsrh. (J. M.), þar sem hann var að leggja út af ummælum mínum um, að það væri óeðlilegt í þingræðislandi, að menn skyldu ekki skiftast í greinilega flokka um stórmálin og starfa á þann hátt. Jeg skal fúslega játa það, að það geti einstöku sinnum komið fyrir, að málefnum sje þannig farið, að ekki sje gott að mynda fasta flokka um þau. En jeg verð samt að halda því fram, að þetta muni ekki vera heppilegt sem regla, og jeg býst við, að bæði hæstv. forsrh. (J. M.) og aðrir verði að játa það, að slíkt geti orðið beint hættulegt, er til lengdar lætur.

Mjer finst meðferðin á þessu máli einmitt bera vitni um það, að þetta getur orðið að hreinni og beinni sýking. Er ekki kynlegt, að jafneðlileg og óbrotin till. og sú, er hv. þm. Dala. (B. J.) hefir komið hjer fram með, skuli ekki geta fengið beina afgreiðslu, heldur vera undir eins vafin og kafin slíkum glundroða, sem hjer er á ferðinni?

Að því er snertir umyrði mín um viðskiftahöftin, þá hafa hæstv. ráðherrar snúið orðum mínum þar við. Þeir sögðu, að ekki ætti að halda óeðlilega lengi í slíkar ráðstafanir. En jeg taldi aðeins undarlegan snúning hæstv. ráðherra síðan í þingbyrjun, er þeir vörðu viðskiftahöftin af kappi, því síðan veit jeg ekki til, að nein breyting hafi orðið í þessu efni.

Annars þarf jeg ekki að svara því, sökum þess, að það var ekki rjett eftir haft.

Þá hefir það komið fram hjer, að ekki sje viðeigandi, að hv. þm. sjeu að skattyrðast hjer og skiftast á köpuryrðum sín á milli. Nú, það má náttúrlega að öllu of mikið gera; en annars fæ jeg ekki sjeð, að þegar sumir hv. þm. ganga fram fyrir fylkingar og verja stjórnina, en aðrir sækja á, þá sje það nema ofureðlilegt, að í harðbakka slái með þeim. Annars hafa bæði meðhaldsmenn og mótstöðumenn stjórnarinnar í þessum umræðum verið að reyna að skýra stefnu stjórnarinnar, og tekist mismunandi vel. Hygg jeg, að hæstv. forsrh. (J. M.) hafi komist þar næst með líkingu sinni um sólskinið og bóndann í Árnessýslu, og mun það einmitt vera sláandi dæmi upp á stefnu stjórnarinnar. Við bændurna á að segja, þegar að þeim kreppir: Bíðið, þangað til sólin skín, og við togaraeigenduma á einnig að segja: Bíðið þangað til sólin skín. Með öðrum orðum, kjörorð núverandi stjórnar er: Bíðið þar til sólin skín. Jeg skal nú játa það, að það er mörgum sjúkdómum svo farið, að þeir batna af sjálfu sjer, án þess að læknir sje sóttur. En það sannar ekkert um það, að ekki sje sjálfsagt að leita læknishjálpar, er sjúkdóma ber að höndum. Að minsta kosti hygg jeg, að fáir sjeu nú svo óvitrir að halda slíku fram. Og ekki býst jeg við, að sú aðferð gæfist betur þar, sem um sýkingu heillar þjóðar er að ræða.

Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði í ræðu sinni áðan, að það væri mjög undarlegt, eftir annari afstöðu minni, er jeg lýsti yfir því, að jeg legði ekkert upp úr því, hvort vantraustsyfirlýsingin væri feld eða samþykt. það voru ekki mín orð, að jeg legði ekkert upp úr því, en hitt tók jeg fram, að mjer lægi það í ljettu rúmi hjá hinu, að slík loðmulla verði samþykt, sem dagskrá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) er, og afstaða þingsins til hæstv. stjórnar verði eftirleiðis jafnóákveðin og nú.

Þá var hæstv. ráðherra (M. G.) að tala um, að jeg hefði verið farinn að bjóðast til þess að verja stjórnina gegn öllu illu. Það gætir hjer svipaðs misskilnings hjá hæstv. ráðherra og áður. Jeg var þar að leggja út af ræðu hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) og sagði, að vörn hans væri svipuðust því, sem verið væri að verja sakamenn. En þess væri engin þörf, því engum hefði dottið í hug að saka hæstv. stjórn um að hafa aðhafst neitt, sem væri glæpsamlegt. í því tilliti kvaðst jeg vera fús til að verja hana fullum fetum, og það er jeg enn.

Þá skal jeg með örfáum orðum víkja að ræðu hv. samþm. míns, 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Jeg varð satt að segja hálfhissa á mörgu í ræðu hans. Hún var mjer órækur vottur um það, hve varlega maður verður jafnan að tala þar, kem vinir eiga hlut að máli. Sjerstaklega þegar ræða er um góða vini, þá verður að tala mjög varlega við þá, því þeir skilja stundum lausleg ummæli manns sem bón og fara þegar að leggja hart á sig til þess að verða við henni. Jeg mintist eitthvað á poka, sem hann hefði klætt sjálfan sig í og kæmist nú ekki úr, hvernig sem hann brytist um. En hann hefir tekið þetta sem ósk frá mjer og þegar í stað farið að leitast við að verða við henni, með því að fara að sprikla í pokanum hjer frammi fyrir öllum þingheimi. Þetta var alls ekki meining mín, því mig langaði ekkert til, að hann færi að gera sig hjer að athlægi. En hann um það, úr því hann gerði það óbeðinn.

Til þess að menn skilji, hvað hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) átti við, er hann sagði, að jeg hefði ekkert stjórnmálavit, nema frá honum, þá verð jeg að skýra, hvernig á þessum orðum hans muni standa. Um kosningamar í vetur var nefnilega borinn út sá orðrómur hjer í bænum, að jeg sendi skrifara á þá fundi, sem þessi hv. þm. (J. Þ.) hjelt, til þess að skrifa upp ræður hans; átti jeg svo að læra þær utan að og flytja síðar. Þetta er það, sem hann er að glópa með, en það varð til þess að breiða yfir það, sem satt var, að hann hefði tekið upp......*)

Hann var að tala um tóninn í minni ræðu. En gaman væri að bera saman tóninn í minni ræðu og hans. Jeg nenti auðvitað ekki að skrifa upp það, sem hann sagði, en ef til vill kemur það í Morgunblaðinu, eða kann ske öllu heldur í fornvini hans, Alþýðublaðinu, því lík ummæli og hans komu um ræðu, sem jeg hjelt um daginn, í því blaði.

Jeg talaði um, að hann hefði annaðhvort orðið að greiða atkvæði með dagskrártillögunni eða á móti, og fyrir þessu gerði jeg grein. En ef hann nú greiðir atkvæði með dagskránni, þá hefir hann engar ákveðnar stefnur hvað snertir frv. stjórnarinnar. En nú hefir hann þó ákveðna skoðun á þeim sumum, t. d. þeim, er snerta fossamálið, því maður veit, frá hans fossanefndarstarfi, hverju hann hjelt fram um eignarrjettinn. Eitt í þessu dæmi getur þó ef til vill verið skakt. Jeg gerði sem sje ráð fyrir, að hann hefði sagt satt á þingmálafundunum hjer, þar sem hann hjelt fram fastri og ákveðinni skoðun í þessum málum. En vilji hann taka það aftur og segja, að hann hafi enga skoðun á þeim, og því sagt ósatt á þingmálafundunum, þá er honum það guðvelkomið. En það getur vel komið fyrir, að honum verði launað það síðar.

Hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) sagðist hafa skrifað það eftir mjer, að framleiðslukostnaðurinn minkaði því aðeins, að lán væri tekið. Jeg sagði það aldrei, en hitt sagði jeg, að framleiðslukostnaðurinn minkaði því aðeins, að vörur fengjust frá útlöndum ódýrari en þær hefðu verið að undanförnu. En til þess að geta keypt þær þarf peninga. Best væri auðvitað að hafa þá fyrirliggjandi, en úr því að því er ekki til að dreifa, yrði að taka lán.

Mjer þykir vænt um, að hv. þm. (Þór. J.) sagði, að sjer þætti best að greiða atkvæði annaðhvort um traust eða vantraust á stjórnina, og trúi jeg þessu vel, því hv. þm. (Þór. J.) er kunnur að því að vera maður ákveðinn.

*) Hjer vantar eitthvað í ræðuna.