17.03.1921
Neðri deild: 25. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í D-deild Alþingistíðinda. (3768)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Jakob Möller:

Þó að nokkuð sje liðið á nótt, verð jeg að tefja hv. þm. augnablik. Jeg á ósvarað nokkrum atriðum.

Einn hv. þm. sagði, að nú væri orðin fremur sókn en vörn af hálfu stjórnarinnar. En jeg verð að segja, að hún er einkennileg sú sókn.

Það hefir verið talað um, að taka þyrfti lán, en nú vill svo til, að stjórnin og þeir, sem verja hana, eru eigi þar á eitt sáttir. Hæstv. atvrh. (P. J.) segir, að stjórnin hafi viljað taka lán, en ekki vitað til þess, að hægt væri að fá það. Hæstv. fjrh. (M. G.) segir, að stjórnin hafi „útvegað“ lán. En þeir þm., sem verja stjórnina, lofa hana einmitt fyrir það, að hún skuli ekki hafa tekið neitt lán eða viljað taka það. En svo vita þeir ekkert, hvað hjer er um að ræða. Þeir halda, að hjer sje verið að tala um að taka lán til eyðslu. Þetta er misskilningur, því að gjaldeyrislán er tekið til þess að borga með skuldir, sem á hvíla, en ekki til að auka þær. Og í öðru lagi hefir verið talað um að taka lán til atvinnurekstrar.

Hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) sá, að jeg hristi höfuðið, er hann var að tala. Jeg skal nú gera honum skiljanlegt, hvers vegna jeg gerði það. Hann hafði heyrt, að ef til vill gæti orðið hungursneyð, ef togararnir hættu að stunda fiskveiðar, og hann skildi það svo, að Reykvíkingar myndu þá svelta, af því að togararnir hættu að færa þeim fisk í soðið! En togararnir fiska fyrir alt landið, og ekki aðeins „í soðið“ fyrir Reykvíkinga. Hv. þm. (Þór. J.) hefir ef til vill heyrt, að þeir geta fiskað fyrir alt að 10 milj. kr. yfir vertíðina, og hann ætti að vita, að því fje, þeim erlenda gjaldeyri, sem fyrir fiskinn fæst, er varið til að kaupa mat fyrir handa öllum landsmönnum jafnt, en ekki handa Reykvíkingum.

Hann sagði og, að ef útgerðin bæri sig ekki, ætti að hætta að gera út, en ekki að taka áfram lán til eyðslu. Ef menn nú komast að þeirri niðurstöðu, að hægt sje að gera út, með því að leggja dálitla viðbót til útgerðarinnar, þá myndi jeg skoða huga minn um, hvort eigi væri rjett að verja t. d. einni milj. til þess að fá aftur tíu. Væri enginn fiskur veiddur á togarana, yrðum við óhjákvæmilega að taka 10 miljónirnar allar til láns erlendis, — eða að svelta.

Jeg bjóst ekki við, að hæstv. fjrh. (M. G.) notaði sjer það, að viðskiftahömlurnar væru ekki á dagskrá, og fyndi þar af leiðandi ekki ástæðu til að svara því, er jeg drap á þeim viðvíkjandi, og ljeti jafnvel í veðri vaka, að óvíst væri, að stjórnin vildi sætta sig við að nema þær úr gildi. En þótt nú stjórnin álíti þær enn eina bjargráðið, þá hefir hún þó ekki framkvæmt þær svo, að að gagni hafi orðið, og það er að minsta kosti ekki upplýst, að hún ætli að halda fast við þær, eða að hún hafi hugsað sjer neitt í þeirra stað.

Þar sem jeg talaði um, að stjórnin ætti framvegis, samkvæmt till. viðskiftamálanefndar, að hafa heimild til að hefta greiðslur með póstávísunum til útlanda, þá var það af því, að jeg verð að líta svo á, að með því sje stjórninni „gefið undir fótinn“ að láta hjá líða að bæta úr því ástandi, að bankarnir gætu ekki uppfylt þá skyldu sína að yfirfæra fje. Stjórnin vill ekki tryggja, að þetta komist í lag, þó að fje það, sem þannig yrði sent í póstávísunum, sje ekki eyðslufje, heldur sent til að greiða með skuldir. Stefna stjórnarinnar í þessu er því sú að láta landið safna skuldum hjer og hvar erlendis og banna útflutning á greiðslum. Jeg skal svo eigi fjölyrða frekar um það mál.

Af því að hjer var talað um stefnur, langar mig til að spyrjast fyrir um það, hvað hæstv. forsrh. (J. M.) hafi átt við, þegar hann sagði um 2. þm. Reykv. (J. B.), að hann gæti ekki stutt aðra stjórn en þá, sem hefði á stefnuskrá sinni: Frjáls verslun í frjálsu landi, ef núverandi stjórn færi frá? Á að skilja það svo, að hæstv. forsrh. (J. M.) sje að ógna hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) með því, að ef þessi stjórn fari frá, þá komist andstæðingar hennar að, og stefnuskrá þeirra verði: Frjáls verslun í frjálsu landi, en það sje eitthvað annað, sem núverandi stjórn vilji? Það væri fróðlegt fyrir hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) að fá að vita nánar um þetta.

Jeg skil það, að hæstv. forsrh. (J. M.) furðaði sig á því, að jeg lagði svo mikla áherslu á það í fyrri ræðu minni, í sambandi við afstöðu mína til hæstv. stjórnar, að stjórnin þyrfti að vera sannleikselsk. Jeg get skilið, að það sje svo fjarlægt honum, að honum þyki það undarlegt, að nokkur skuli halda því fram, að stjórnin þurfi að vera það. Og jeg hugsa, að hann hafi hvorki getað sannfært mig eða aðra þm. um það, að stjórnin væri sjerlega sannleikselskandi.

Viðvíkjandi strandvarnarmálunum er ekki fullljóst, hvort hæstv. forsrh. (J. M.) hefir sagt vísvitandi ósatt. En mjer þótti undarlegt, að þegar hann svaraði mjer, vjek hann undan. Jeg man ekki betur en hæstv. forsrh. (J. M.) talaði á dögunum um, að flotamálastjórnin danska hefði látið á sjer skilja, að henni væri það ljúft að auka strandvarnir hjer við land. Spurningin er um það, hvort slíkt tilboð, beint eða óbeint, hafi komið fram frá flotamálaráðuneytinu að fyrra bragði. Á því veltur það, hvor forsætisráðherranna fer rjett með þetta. Þetta atriði kemur sambandsnefndinni ekkert við, eða því, sem dönsku nefndarmennirnir sögðu um strandvarnamálið. Það er enn óupplýst hjer af hæstv. forsrh. (J. M.), hvort danska stjórnin hefir boðið auknar strandvarnir, eða hæstv. forsrh. (J. M.) hefir sjálfur beðið hana um þær. Hann lagði mikið upp úr því, að jeg hefði farið rangt með nokkur orð, sem hann sagði hjer á dögunum. Jeg sagði, að hann hefði sagt, „að annað mál væri, ef hann hefði beðið dönsku stjórnina“. En hann segist hafa sagt: „Jafnvel þó jeg hefði beðið“. Jeg fullyrði nú, að jeg hafi haft orð þessi rjett eftir. En þótt hann segði nú satt um þetta, þá sjer hver maður, að einnig í þeim orðum, sem hann segist hafa viðhaft, liggur neitun á því, að hann hafi beðið dönsku stjórnina um auknar strandvarnir.

Þá talaði hæstv. forsrh. (J. M.) um, að hann hefði viljað ganga fast eftir því, að Danir fullnægðu samningunum. En jeg man ekki betur en að hann hafi sagt, að þeir fullnægðu þeim, ef þeir hefðu eitt skip til strandvarna hjer. Þá er rangt, að þeir sjeu skyldugir að hafa meira. Jeg skal ekki tala meira um það nú, sem jeg sagði áður, að hæstv. forsætisráðherra hafi þvælst fyrir því, að mynduð yrði samfeld meiri hluta stjórn. Um það mætti deila lengi, en aðeins reynslan getur skorið úr því.

Þá skal jeg með nokkrum orðum víkja að hinni rökstuddu dagskrá 1. þm. Rang. (Gunn. S.). Nokkrir hv. þm. hafa beint að mjer spurningum viðvíkjandi því, hvort mjer sýndist dagskráin vera þingleg, og jeg get svarað því strax, að mjer finst ekkert óþinglegt við hana. Jeg held meira að segja, að það, sem hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) gerir, sje ekkert þinglegra, því að dagskráin hans er fram komin af því, að hann óttast, að vantraustsyfirlýsingin yrði annars samþykt. En er það þá þinglegt að reyna með krókaleiðum að koma í veg fyrir það, að hinn sanni vilji þingsins komi í ljós?

hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) ætlar að greiða atkvæði á móti sinni eigin dagskrá, hefir fordæmi, og nægir þar að minna á Benedikt gamla Sveinsson, er hann tók frv. Valtýs upp sjálfur til þess að fella það.

Hv. samþm. minn, 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sagði það ekki rjett, sem jeg hafði sagt, að hann væri flutningsmaður að frv., sem hann sjálfur væri ekki fylgjandi. Jeg er hissa á því, að hann skuli leyfa sjer að segja þetta, því jeg hefi tvo votta að því, að hann sagði við mig, að hann væri á móti því og vildi ekki flytja það. Hann hefir að vísu sagt þetta utan þings, og ef til vill ekki ætlast til þess, að það kæmi opinberlega fram. En jeg segi þetta ekki hjer honum til hneisu, því jeg álít það enga hneisu að flytja frv. samkvæmt áskorun kjósenda sinna, þó að maður sje því sjálfur ósamþykkur.