19.03.1921
Neðri deild: 27. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í D-deild Alþingistíðinda. (3813)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Magnús Kristjánsson:

Vegna þess, að jeg býst við, að jeg eigi eitthvað af þessum óviðurkvæmilegu orðum, sem hæstv. forseti hefir viðhaft, þá vil jeg taka það fram, að jeg get ekki skilið það öðruvísi en að fundabók liggi frammi til þess, að menn geti gert athugasemdir við hana, skriflega og formlega. Hæstv. forseti segir, að hann hafi látið bóka rjett, en jeg vil leyfa mjer að halda fram, að það sje ekki rjett, og annað það, að bókunin er eins og við höfum lýst yfir. Og þó að hæstv. forseti vilji beita einveldi við þessa þingmenn, þá rjettlætir hann ekki úrskurð sinn með því, og vil jeg nú spyrja hann, hvernig menn eigi að láta í ljós eða koma fram með ágreiningsatriði sín?