19.03.1921
Neðri deild: 27. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í D-deild Alþingistíðinda. (3821)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Magnús Pjetursson:

Hæstv. forseti hefir þegar tekið fram margt af því, sem jeg vildi sagt hafa, og með fullum rökum sýnt fram á, að það, sem bókað er í fundargerð 25. fundar, er í fullu samræmi við það, sem gerðist á fundinum. En af því, að jeg, sem annar skrifari deildarinnar, hlýt að bera nokkra ábyrgð á því, hvernig bókað er, þá get jeg ekki stilt mig um að segja fáein orð til skýringa.

Fyrsta málsgrein 14. gr. þingskapanna segir frá, hvernig gerðabók skuli halda, og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana upp. Hún hljóðar svo:

„Skrifarar halda gerðabók, undir umsjón forseta, og geta í henni mála þeirra, er rædd eru á fundum, og úrslita þeirra“.

Samkvæmt þessu á þá aðeins að bóka meðferð málanna og úrslit þeirra, og þau ein úrslit geta af skrifurunum tekist til greina, sem forseti lýsir úr forsetastóli. Og að sú frásögn sje hárrjett í gerðabókinni vil jeg staðhæfa, enda hefi jeg eiginlega engan heyrt mótmæla því. Umr. er því hjer ekki um annað en það, hvort úrskurður forseta á 25. fundi hafi rjettur verið, og hvort þm. eigi að gera hann ómerkan. En nú vil jeg halda því fram, að úrskurður forseta, sem fallinn er, sje óáfrýjanlegur samkvæmt þingsköpum, og síst myndi slíkt geta til mála komið á alt öðrum fundi en þeim, sem úrskurðurinn var feldur á. Jeg vil því endurtaka og undirstrika, að þessum úrskurði forseta verður ekki breytt, og jeg vil skora á þá hv. þm., sem eru mjer eldri og þvældari í þingsköpunum, að leiðrjetta mig, ef jeg hefi á röngu að standa, og skora jeg þá jafnframt á þá að benda mjer og hv. deildarmönnum á, í hvaða grein þingskapanna slíkt sje að finna. þangað til mjer verður á þetta bent mun jeg telja allan þennan leik algerlega fyrir utan lög og rjett.