19.03.1921
Neðri deild: 27. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í D-deild Alþingistíðinda. (3824)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Forseti (B. Sv.):

Jeg leyfi mjer að hringja þennan hv. þm. (Þór. J.) niður, þar sem hann bæði talar um það mál, sem ekki liggur fyrir til umræðu, og fer þar að auki með bein ósannindi.

Þegar jeg hafði felt þann úrskurð, að hin rökstudda dagskrá hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) væri fallin, og ætlaði að fara að bera undir atkvæði þingsályktunartillöguna sjálfa, þá stóð upp flutningsmaður hennar, hv. þm. Dala. (B. J.), eins og þingheimur man, og tók aftur tillöguna. Þar sem enginn varð til þess að taka hana upp, lýsti jeg því, að till. væri tekin aftur og máli þessu þar með lokið. Því næst tók jeg önnur mál út af dagskrá. Þá las jeg dagskrá næsta fundar. Og þá fyrst, eftir dúk og disk, í því er jeg var að slíta fundi, kveður hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sjer hljóðs og gerði athugasemd við úrskurð minn, sem jeg þá svaraði um hæl. Er sú athugasemd hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) rjett bókuð í fundarbókinni. (Þór. J.: Fundi var þá ekki slitið). Veit jeg vel, að ekki var slitið fundi, en málið, sem athugasemdin var um, var útrætt og hafði fengið sín endalok. Önnur mál voru tekin af dagskrá, næsti fundur boðaður og dagskrá lesin fyrir þann fund, eins og áður er tekið fram. Eða er þessi hv. þm. (Þór. J.) svo illa að sjer í þingsköpum, að hann viti ekki, að þegar t. d. 10 mál eru á dagskrá, eins og nú, þá liggur ekki fyrsta málið fyrir til umræðu hve nær sem er, allan fundartímann, þótt verið sje að ræða önnur dagskrármál, eða fundinum sje ekki slitið.