19.03.1921
Neðri deild: 27. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í D-deild Alþingistíðinda. (3827)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Forseti (B. Sv.):

Gagnvart því, sem hv. þm. Ísaf. (J. A. J.) segir, að hjer sje að ræða um ágreining um bókun, þá er það alls ekki rjett. Bókunin er skýrsla um þá atburði, er á fundinum gerðust. Og sú skýrsla er hárrjett, enda hafa þm. á það fallist, þeir sem hjer hafa talað.

Ágreiningurinn er um það, hvort úrskurður forseta sje rjettur. En hjer liggur alls ekki fyrir að ræða það, sem forseti hefir gert á undanförnum fundum. Hitt er hverjum þm. heimilt, að gera athugasemdir við bókun, og þess vegna er svo ákveðið, að gerðabókin skuli liggja frammi að minsta kosti 2 tíma fyrir fund. Þessi háttv. þm. má því gera við það athugasemdir, ef rangt er bókað, en slíkt á hann að gera munnlega í byrjun næsta fundar, en ekki pára það inn í fundabókina. Slíkt er algerlega óheimilt og óviðeigandi, ekki síst þegar þetta pár snertir þá ekkert bókunina sjálfa, eins og hjer er raun á orðin.

Annars hjelt jeg, að svo skarpir „heilar“, sem hjer eiga hlut að máli, gætu gert greinarmun á bókun og forsetaúrskurði, og þyrftu því ekki að gera sig seka um afglöpun í því efni.