19.03.1921
Neðri deild: 27. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í D-deild Alþingistíðinda. (3838)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Bjarni Jónsson:

Jeg undrast þolinmæði hæstv. forseta, að leyfa þm. að vaða hjer uppi.

Fyrst er tekin í óleyfi fundarbók þingsins, sem er ekki annað en sögulegur vitnisburður þess, sem fram fer á þingfundum, og klóraðar í hana athugasemdir um þau atriði, er ekkert koma bókuninni við. Eða halda þessir vísu herrar, að í fundarbókina eigi að bóka skoðanir þm. um einstök atriði? Nei, það kemur fram í ræðuparti þingtíðindanna.

Bókunin er hárrjett skýrsla um þá atburði, er á fundinum gerðust, og getur enginn það vefengt með neinum rökum.

Hefir það og nú upplýstst í málinu, að sumir hafa skrifað undir athugasemdina af ókunnugleik á þingsköpum, enda beðið á því afsökunar, og „er sá drengur, er við gengur“. En sumir munu þetta gert hafa af öðrum hvötum. Má því hiklaust strika þetta klór út.

Að lokum vil jeg svo endurtaka þá áskorun mína til hæstv. forseta, að hann sjái til þess, að bókarinnar verði betur gætt framvegis, og slíti umræðum um þetta mál.