05.04.1921
Neðri deild: 35. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

2. mál, erfðafjárskattur

Hákon Kristófersson:

Jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, og er það af þeirri ástæðu, að jeg er þessari tilhögun yfirleitt mótfallinn. Jeg hefi þó ekki viljað bregða fæti fyrir frv., en hinsvegar hefi jeg ekki sjeð mjer annað fært en að koma fram með brtt. við 12 gr., og er hún á þskj. 210. Hún er ekki efnismikil, en fer að eins fram á það, að útnefning sú, sem ákveðin er í 12 gr., fari ekki fram nema í sjerstökum tilfellum. Jeg hefði helst viljað halda í gamla fyrirkomulagið að öllu leyti, en jeg sá enga von til þess að menn fjellust á það, en vænti að háttv. deildarmenn geti greitt þessari brtt. atkv. sitt. Jeg vil geta þess, að jeg hefi borið hana undir hæstv. fjrh. (M. G.), og hefir hann ekki haft neitt við hana að athuga.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) á brtt. á þskj. 209, og jeg vil mælast til þess, að henni verði tekið með velvild. Hún fer fram á það, að lögin skerist ekki í leikinn. Þó að einhver vilji gera öðrum erfingjum jafnhátt undir höfði og börnum sínum, en í frv. er gert ráð fyrir því, að hærra gjald renni í ríkissjóð af slíkum arfi. Þessi brtt. fer í líka átt og brtt. nefndarinnar, en hún nefnir til fósturbörn, en það getur orkað tvímælis, hvaða börn eigi að nefna svo.