12.05.1921
Neðri deild: 68. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í D-deild Alþingistíðinda. (3865)

125. mál, eignarumráð ríkisins yfir vatnsréttindum í Soginu

Jón Þorláksson:

Efnið í síðari hluta till. er samkynja og efni frv. þess, sem hjer var vísað til 3. umr., og er ekki viðeigandi að samþykkja hann, ef frv. verður afgreitt. En fyrri hluti þál. fer fram á, að eignarráð yfir vatnsrjettindunum verði tekin áður en rannsóknin er byrjuð.

Ef til þess kemur, að eignarnám þarf að gera, þá efast jeg um, að það sje hægt, nema ákveðið sje að virkja. En hins vegar er ekki hægt að taka ákvörðun í því efni, nema undan sje gengin rannsókn á málinu. Lögin um eignarnám mæla svo fyrir, að taka eigi tillit til breytinga á verði, sem orsakast af mannvirkjum þeim, sem eignarnám er framkvæmt fyrir. Hygg jeg þá, að eigi væri verra að hafa rannsókn að styðja sig við í því efni.

Mjer hefir heyrst á tillögumönnum, að þeir taki ekki tillit nema til eins eignarnáms. Þeir ganga alveg fram hjá Reykjavíkurbæ og eiganda Úlfljótsvatns. En eftir því, sem orðað er í till., þá á að taka vatnsrjettindi þessara eigenda líka.

Annars finst mjer till. aðallega verða að skoðast sem tilraun til að sprengja upp verð á þessu fallvatni, og væri því hyggilegast að taka málið út af dagskrá, eins og hæstv. atvrh. (P. J.) stakk upp á, og sjá, hvernig fer um frv. því ekki er hægt að vita um þörf þess, sem í till. felst, fyr en útsjeð er með frv.

Ef málið verður ekki tekið út af dagskrá, verður fyrri liðurinn að skoðast sem aðalatriðið, og þá greiði jeg atkvæði á móti till. þál. 1919 ætti að vera nægileg hjer. Hún er svo orðuð, að ekki er gefið undir fótinn með, að okkur liggi á að koma kaupum í framkvæmd.

Að endingu vildi jeg biðja hv. 1. þm. Ám. (E. E.) að svara því, hvers vegna hann telur, að ekki megi byrja á járnbrautarrannsókninni fyr en búið sje að ná umráðum yfir vatnsrjettindum Sogsins.