05.04.1921
Neðri deild: 35. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

2. mál, erfðafjárskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg verð að þakka hv. nefnd fyrir undirtektirnar, þó að mjer hafi skilist, að það hafi þótt álitamál í nefndinni, hvort frv. ætti að ná fram að ganga eða ekki. Jeg verð að halda því fram, að frv. sje ekki eins þýðingarlítið og margir vilja telja. Tekjuaukinn af því verður talsverður, því að sá erfðafjárskattur, sem frv. nær til, er tíðastur. Það hefir þess vegna ekki lítið að segja, hvort skatturinn hækkar um 1/4 eða 1/10 á þúsundi.

Jeg get ekki talið brtt. nefndarinnar til bóta, heldur þvert á móti. Orðið „fósturbarn“ er óákveðið hugtak, sem ekki er gott að taka föstum tökum. Mjer þætti gaman að vita, hve lengi barnið þyrfti að vera hjá einhverjum til þess að geta kallast fósturbarn hans. Sumir vilja telja þau ein fósturbörn, sem koma til fósturforeldra kornung, á fyrsta eða öðru ári, aðrir, ef þau hafa verið hjá fósturforeldrum megnið af æskunni o. s. frv. Um kjörbörn er öðru máli að gegna. Um þau leikur enginn efi, og þau erfa eins og skilgetin börn. Jeg get því ekki talið þessa breytingu til bóta; hún er ruglingsleg og óskýr.

Eins og háttv. þm. Barð. (H. K.) gat um, hefi jeg ekkert á móti brtt. hans, og þarf jeg ekki að ræða hana.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) vill gefa mönnum leyfi til að setja aðra erfingja jafnhátt lífserfingjum og vill, að löggjöfin leggi ekki hærri skatt á þá. Menn eiga að ráða því sjálfir með erfðaskrá sinni. hvaða skatt erfingjar skuli greiða af fjórðungsgjöfum. Af þessu yrði talsverður tekjumissir, og auk þess yrði gengið út fyrir þann grundvöll, sem erfðafjárskatturinn byggist á. Jeg veit ekki til, að í neinu landi sje öðrum erfingjum gert jafnhátt undir höfði og lífserfingjum. Jeg verð því að leggjast á móti þessari brtt., eins og brtt. nefndarinnar. Þær gera frv. ruglingslegra og valda auk þess tekjumissi.