08.03.1921
Neðri deild: 17. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í D-deild Alþingistíðinda. (3875)

62. mál, framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu

Forsætisráðherra (J. M.):

Það liggur við, að óþarfi sje fyrir mig að svara, því hv. flm. (P. O.) hefir að miklu leyti svarað fyrirspurninni sjálfur.

Það er að vísu satt, að lögin frá 28. nóv. 1919, um landhelgisvörn, eru aðeins heimildarlög, en jeg hygg það sönnu næst, að mikill hluti þingsins 1919 hafi ætlast til, að heimildin yrði notuð þegar, annaðhvort á þann hátt að kaupa eða láta byggja eitt eða fleiri skip til landhelgisvarna, og væri látið byggja, þá að leigja skip meðan á byggingunni stæði. Jeg skýrði þinginu 1920 frá því, hvers vegna stjórnin hefði ekki treyst sjer til að taka upp þvílíkar landhelgisvarnir að svo vöxnu máli, sjerstaklega vegna hins feikimikla kostnaðar, sem af því hlyti að leiða að taka þær upp, einmitt þegar allir hlutir, sem til þess þyrfti, voru sem allra dýrastar. Þá kom það og fram, að Danir, sjerstaklega flotamálaráðuneytið, voru ekki ófúsir til að auka landhelgisgæsluna nokkuð, eins og flm. (P. O.) tók fram. Frá þessu skýrði jeg á þinginu 1920, og jeg verð að segja, að jeg gat eiginlega ekki skilið betur en að menn vildu sætta sig við þetta í bráðina, þar sem hjer væri um mjög kostnaðarsamt viðfangsefni að ræða, sem erfitt væri að taka upp á þeim allra verstu tímum, sem líklega hafa komið yfir þessa álfu.

Eins og hv. þm. (P. O.) tók fram, skýrði jeg þinginu 1920 frá því, hvers vegna stjórnin hefði ekki treyst sjer til þess að taka upp þvílíkar landhelgisvarnir að svo vöxnu máli, sjerstaklega vegna hins feikilega kostnaðar, sem af því hlyti að leiða að taka þær upp, einmitt þegar allir hlutir, sem til þess þurfti, voru sem allra dýrastir. Þá kom það og fram, án þess að farið væri fram á það af minni hálfu í upphafi, að Danir voru ekki, sjerstaklega flotamálaráðuneytið, ófúsir til þess að auka landhelgisgæsluna nokkuð. það var því ekkert gert af hálfu landsstjórnarinnar til framkvæmdar lögunum, áður en Alþingi kom saman í febrúar fyrra ár. Þá skýrði jeg þinginu frá þessu, og varð jeg ekki annars var en þingmenn yfirleitt, ef til vill að einstöku undanskildum, teldu þær ástæður, er jeg færði fram í þessu máli, fullgildar.

Mjer virtist svo, sem það mætti telja það samkomulag við flotamálastjórnina dönsku, að landhelgisgæslan af hálfu Dana yrði aukin þannig, að auk þess, að 1 skip væri hjer, sem venjulegt var, í kringum 10 mánuði, — það mun nú reyndar hafa verið nær 9 mánuðum, — þá væri hjer við land enn fremur annað varðskip á vetrarvertíð, frá miðjum febrúar til miðs maí, og um síldartímann. Og eftir áliti margra manna átti þessi landhelgisvarsla að nægja. Með þetta fyrir augum hygg jeg hafi verið samþykt áskorun á þinginu í fyrra til stjórnarinnar um að annast um, að landhelgisgæsla Dana yrði aukin svo, að tvö skip yrðu að staðaldri við landhelgisgæslu. Þar er að vísu frekara að orði komist en umrætt samkomulag gat talist fela í sjer. En niðurstaðan af þessu varð nú sú, að landhelgisgæslan varð ekki aukin, heldur minni, því að hin fyrirhugaða gæsla frá Dana hálfu var ekki framkvæmd eins og ætlast var til í fyrstu. Islands Falk kom að vísu hingað til landsins í miðjum febrúar í fyrra, en hitt skipið, Beskytteren, sem átti að koma, um líkt leyti og fór af stað í þeim tilgangi litlu síðar, stöðvaðist á leiðinni vegna kolavandræða, sem þá voru orðin svo mikil, að stjórnin neyddist til að fá að láni mikið af birgðum strandgæsluskipanna, svo að það, sem eftir var, var fulllítið handa einu skipi. Til dæmis um það, hversu kolavandræðin voru mikil, get jeg sagt frá því, að jeg varð að fara bónarveg að einu útgerðarfjelagi hjer í bænum til að fá 10 tonn af kolum. Það var því auðsætt, að það þýddi ekki að láta Beskytteren koma, þar sem kol voru aðeins tæplega handa einu skipi.

Mjer er enn fremur vel kunnugt um það, að flotamálaráðuneytið reyndi mikið til að fá viðbót af kolum frá Englandi við kolabirgðir sínar hjer, en það var ómögulegt. Úr kolavandræðunum fór ekki að greiðast fyr en kom fram á sumar, og alt fram á vetur var óttinn við kolavandræði í allri álfunni, Bretlandi auðvitað undanskildu, mikill.

Hv. þm. (P. O.) tók það fram, sem rjett var, að Islands Falk hefði farið til Grænlands í maí og ekki komið úr þeirri ferð fyr en í ágúst. Ástæðan til þess var sjómannaverkfallið í Danmörku, sem gerði dönsku stjórninni ómögulegt að senda skip þaðan. En Beskytteren kom svo loks í byrjun júní.

Alls voru varðskipin hjer: Islands Falk frá miðjum febrúar til mánaðamóta apríl og maí, og frá 5. ágúst til 24. nóvember, að undantekinni hraðri ferð til Bergen með dönsku ráðgjafarnefndina. En Beskytteren var hjer frá byrjun júní til miðs september.

Það var ráðgert, að aðalvarðskip það, sem nú á að vera hjer við land, færi af stað áleiðis hingað í byrjun janúar, en aðgerð á skipinu olli því, að skipinu seinkaði mjög. Hefir sendiherra Dana skýrt mjer frá þessu.

Jeg þóttist verða þess var, að yfirforingjar þeir allir, er á þessum skipum voru, höfðu mikinn áhuga á því að rækja starfið vel, og jeg veit eigi annað en að þeir hafi fengið lof hjer fyrir starf sitt, að minsta kosti fyrir gæsluna um síldartímann. Af þessu er það ljóst, að ástæðan til þess, að landhelgisgæslan varð minni en skyldi, er aðallega sú, hversu kolabirgðirnar voru litlar og útlitið ískyggilegt með kol, en ekki að foringjarnir hafi ekki gert skyldu sína.

Þegar dönsku ráðgjafarnefndarmennirnir voru hjer í ágúst, þá kom landhelgisgæslan til umræðu við nefndina, og einnig hefir fjármálaráðherra talað um málið við ríkisráðherra Dana, og nú má líta svo á, að kostur sje á því frá Dana hálfu að auka landhelgisvörnina, eftir samkomulagi við Alþingi, og boð eða kostir á þessu frá Dana hálfu eru nú til athugunar í hv. sjávarútvegsnefnd. En áður en afstaða Alþingis til þessa er kunn, en það ætti að vera innan örfárra daga, hefir ráðuneytið ekki talið ástæðu til að gera frekara í málinu.

Annars skal jeg ekki fjölyrða mikið um þetta mál. Það er í nefnd, og það væri móti öllum þingvenjum að taka það til umræðu. Er það auðvitað alveg á valdi þingsins, hvað það gerir í þessu efni, hvort það vill heldur sinna þessum kostum af hendi Dana, sem jeg tel heppilegra, eins og nú standa sakir, fjárhagsins vegna, eða þá að kaupa skip og gera út. Skip er að sjálfsögðu hægt að fá, og við höfum að minsta kosti einn mann hæfan til forystu. Og telja Alþingi þessa leið færa kostnaðar vegna, þá væri það að mörgu ákjósanlegt, en út í það skal jeg ekki fara frekara að sinni. Annars mun fjármálaráðherra (M. G.), sem betur er kunnugur sumum atriðum þessa máls, bæta við skýrslu mína, ef og þegar umræður þykja gefa tilefni til.