08.03.1921
Neðri deild: 17. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í D-deild Alþingistíðinda. (3876)

62. mál, framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu

Gunnar Sigurðsson:

Úr því fyrirspurnin er komin inn á þing, sje jeg ekki ástæðu til annars en að ræða hana.

Jeg vil byrja á því að lýsa ánægju minni yfir aðgerðum fyrri þinga í þessu máli, því að þær sýna þá sjálfstæðisviðleitni að vilja taka strandvarnirnar í sínar hendur. En svo hörmulega hefir til tekist fyrir stjórninni, að þessa viðleitni þingsins hefir hún eyðilagt og virt að vettugi.

Hæstv. forsrh. (J. M.) gat þess, að lögin frá 1919 væru aðeins heimildarlög. Það er rjett, en það voru heimildarlög, sem þung og ákveðin alvara lá á bak við; það sýnir best, að í enda 1. gr. laganna eru fjárframlög heimiluð. Hv. þm. Ak. (M. K.), sessunautur minn, spurði áðan, hvar ætti að taka fjeð. Mjer kemur þessi spurning ekkert á óvart, því að það hefir æ verið flokkur manna hjer á Alþingi, sem verið hefir þeirrar skoðunar, að alt væri gott gefins. Og þeirri stefnunni hefir verið fylgt í viðskiftum okkar við Dani.

Jeg vil nú ekki vanþakka Dönum neitt, sem þeir hafa gott gert, en hitt vil jeg víta, að hylst sje til þess að vera komnir upp á Dani fjárhagslega. Þjóðarsóminn á ekki að vera verslunarvara. En athugum nú lítillega afstöðu dönsku stjórnarinnar. Hvað gengur henni til að bjóða hingað tvö skip til strandvarna? Skyldi það vera af brjóstgæðum, eða er það af því, að hún hafi ekkert á móti því að sjá sinn eigin fána blakta í íslenskri landhelgi? Tilhugsunin þægileg, að vita af dönskum fleyjum við strendur Íslands. En til hvers er sjálfstæði í orði, ef það sjest hvergi á borði? Og jeg vil spyrja: Er annað heppilegra og áhrifameira til að kynna fána okkar en það, að láta hann blakta við hún við strendur landsins? En strandvarslan í höndum Íslendinga er ekki einungis ákjósanleg frá sjálfstæðisins sjónarmiði, heldur og líka frá nothæfu eða „praktisku“ sjónarmiði.

Margir foringjanna hafa að vísu reynst vel, en sumir hafa líka verið ærið duglitlir og reynst fúsari og færari til þess að stíga dans í landi en eltast við togara og hremma þá. Og enginn mun efast um það, að meiri mundi áhugi íslenskra fyrirliða en danskra að rækja þetta starf, sem líka eðlilegt er.

Hæstv. forsrh. (J. M.) gat þess, að óheppilegt mundi hafa verið að gera byggingarsamning um strandvarnarskip. Það má vel vera satt, en þess var ekki þörf, því að Vestmannaeyingar með tilstyrk ýmsra efnamanna hjer í Reykjavík, höfðu keypt skip til strandvarna við Vestmannaeyjar. Þessir menn sóttu um styrk til að halda skipinu út til strandvarna, en stjórnin virti það vettugi, og er slíkt athæfi vítavert Að minsta kosti hefði stjórnin átt að styðja þetta þarfa fyrirtæki, — eins og kunnugt er, er skipið líka björgunarskip, — með því að leigja það til strandvarna við síldveiðarnar vestan- og norðanlands.

Jeg gat þess áðan, að örugg landhelgisgæsla væri stórmikils virði frá nothæfu sjónarmiði. Eins og menn vita, er fyrir suðurströnd landsins eitt hið mesta hrygningarsvæði í veröldinni. og munu því flestir telja, að síst sje vanþörf á að verja það.

Eins er mjer kunnugt um, að margir Vestmannaeyingar telja kaupin á skipinu gróðafyrirtæki, að minsta kosti óbeinlínis, þó að dýrt sje. Fyrir komu skipsins var fult af togurum, sem gerðu hinn mesta óskunda. En eftir komu þess brá svo við, að togararnir lögðu frá og þorðu ekki að halda sig innan landhelgi, og afleiðing þessa varð sú, að uppgripaafli, einhver sá mesti, er menn muna, varð við Vestmannaeyjar, og einnig fiskaðist mjög vel fyrir Landeyjasandi og Eyjafjalla.

Skal jeg svo ekki fara ítarlegar út í þetta mál hjer, en vil leggja áherslu á, að svo framarlega sem nokkur eyrir er aflögu, þá megum við ekki sjá eftir honum til strandvarna, hvorki þjóðarsómans nje hagsmunanna vegna.