09.03.1921
Neðri deild: 18. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í D-deild Alþingistíðinda. (3880)

62. mál, framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu

Fyrirspyrjandi (Pjetur Ottesen):

Hæstv. forsrh. (J. M.) sagði í ræðu sinni í gær, að jeg væri að mestu leyti búinn að svara fyrirspurninni sjálfur, með því að gera heyrum kunnug ummæli forsætisráðherrans, þau er hann flutti í ráðgjafarnefndarsamkundunni síðastliðið sumar. Jú, þetta er mikið rjett, því svör hæstv. forsrh. (J. M.) falla nú á sama veg og þar kemur fram. En það var hvorttveggja, að jeg hafði ekki sjeð þennan gerðabókarútdrátt, er við komum fram með fyrirspurnina, og svo hitt, að þótt svo hefði nú verið, að jeg hefði verið búinn að sjá þetta, þá hefði jeg samt sem áður ekki hikað við að koma fram með fyrirspurnina, og það af þeirri einföldu ástæðu, að jeg hefði ekki trúað því, að þessi ummæli væru rjett, fyr en jeg væri þá búinn að fá staðfestingu á þeim af vörum hæstv. forsrh. (J. M.) sjálfs.

Og nú hefi jeg fengið þessa staðfestingu. Staðfestingu á því, að stjórnin hafi ekkert gert, þrátt fyrir alt, sem á undan er gengið og jeg hefi áður tekið fram, til undirbúnings eða framkvæmda í þessu máli, á grundvelli laganna frá 1919. Og ekki nóg með það, heldur hefi jeg líka fengið yfirlýsingu um það, að að svo stöddu að minsta kosti ætli stjórnin ekkert að gera til að hrinda þessu máli í framkvæmd.

Þetta eru þung orð hjá hæstv. stjórn, og jeg gæti trúað því, að þessi ákvörðun yrði afdrifarík fyrir land og lýð.

Þá er að líta á ástæðurnar, sem hæstv. forsrh. (J. M.) ber fram fyrir því, að stjórnin hefði ekki framkvæmt vilja þings og þjóðar í þessu efni. Og ástæður þessar voru dýrtíðin og fjárhagsörðugleikarnir.

Því er ekki að neita, að þetta er biturt vopn. En þetta bitra vopn snýst í höndum stjórnarinnar, þegar hún ætlar að nota það til varnar athafnaleysi sínu í þessu máli. Þetta vopn snýst að stjórninni sjálfri, nema hún geti sýnt og sannað, að það hefði verið um megn hinni íslensku þjóð að kljúfa það að kaupa eða leigja eitt skip til landhelgisgæslu og halda því úti. En hún getur ekki sýnt fram á þetta, og ekkert svipað því.

Stjórnin lítur ekki nema á aðra hlið þessa máls, kostnaðarhliðina, og vex hún svo í augum, að hún vill ekki líta á hina hliðina, tjónið, sem þjóðin bíður við það, að landhelgin sje óvarin. En stjórninni var innan handar að aðhafast eitthvað í þessu máli, og það því fremur, sem líklega hefði verið hægt að fá tækifæriskaup á hentugu skipi til þessa verks.

Hygginn bóndi sjer ekki í það að taka lán til þess að girða túnið sitt og verja það fyrir ágangi, og hyggin stjórn mundi ekki heldur hika við það að fara að dæmi bóndans til þess að verja þetta stóra tún þjóðarinnar, landhelgina, fyrir ágangi erlendra og innlendra lögbrjóta.

Og þinginu 1919 hraus alls ekki hugur við því að ráðast í þennan kostnað. Það skildi nauðsynina og sá það rjettilega, að þetta fyrirtæki gat aldrei verið vafasamt frá fjárhagslegu sjónarmiði.

Þetta verða því að teljast heldur veigalitlar ástæður hjá stjórninni, enda mun óhætt að fullyrða, að þær sjeu í raun og sannleika alt aðrar. Að minsta kosti get jeg ekki betur sjeð en að ástæður stjórnarinnar sjeu þær, að hún, stjórnin, hefir ekki gert sjer nógu ljósa grein fyrir því, hvað er í húfi, hvað mikið fjárhagslegt tjón landið bíður við það, að landhelgin er ekki varin.

Þetta er höfuðatriðið. Stjórnin hefir ekki gert sjer nógu ljósa grein fyrir því, hvaða þýðingu það hefir í framkvæmdunum, að við höfum forustuna í landhelgisgæslunni, þó að ekki sje nema með einu skipi, að við getum notið, einmitt á þessu sviði, þeirra afburðasjómannahæfileika, sem eru til hjer á landi í svo ríkum mæli, notið í þarfir landhelgisgæslunnar þess áræðis, einbeitni, dugnaðar og þrautseigju, sem eru yfirleitt einkenni á íslenskri sjómannastjett, að við höldum uppi forustunni í þessu máli. Það er því mjög stórt og þýðingarmikið atriði, að forustan sje hold af okkar holdi og bein af okkar beinum.

Þá getur verið allþýðingarmikið líka að njóta aðstoðar Dana, fyrst og fremst þeirrar, sem þeir eru bundnir við að lögum, og þá auðvitað þeim mun betra, sem meira er.

Að því leyti er jeg ekki sammála hv. þm. Dala. (B. J.), að skoða það sem einskonar náðarbrauð að þiggja af Dönum landhelgisvarnir þær, sem þeir eru skyldir að veita okkur samkvæmt lögum, og þar sem gæsla þessi hefir lagst niður að nokkru leyti á stríðsárunum, þá er því meiri ástæða til að krefjast uppbótar á það af Dönum, þegar þörfin er jafnaðkallandi og nú er orðið.

En á meðan við höfum ekki sjálfir þessa forustu í landhelgisgæslumálinu, má segja, að það sje dauður höfuðlaus her. Og þá fyrst og fremst af þeim eðlilegu ástæðum, — þó að ekkert væri til sparað af hálfu Dana, — að altaf er á fárra mánaða fresti verið að skifta um foringja á þessum skipum. Þegar þeir eru loks búnir að fá þá praktisku þekkingu, hvernig þeir eiga að haga starfi sínu, svo að raunhæft sje og komi best að notum, og ef til vill er vaknaður áhugi hjá þeim fyrir starfinu, þá eru þeir teknir í burtu, og nýir menn koma í staðinn, og þar mun eðlilega misjafn sauður í mörgu fje. það er ofuraugljóst mál, að þetta fyrirkomulag eitt út af fyrir sig, þessi tíðu foringjaskifti, gerir gæsluna mjög kraftlausa. (Fjrh. M. G.: Það er íslenskur „lóds“ á strandvarnarskipinu). Já, en hann ræður engu um það, hvernig gæslunni er hagað; hans starf er að leiða skipið fram hjá boðum og blindskerjum, og annað ekki.

Nei, hluturinn er sá, að stjórnin hefir ekki hugleitt það sem skyldi, hverjir agnúar eru á þessu fyrirkomulagi og hvað mikið er í húfi yfirleitt. Það er sorglegt, að þetta skuli vera svo, eins og búið er þó að brýna þetta fyrir henni. En þetta verður þó ekki hrakið.

Jeg hefi síðan í gær aflað mjer upplýsinga um það, að af 40–50 róðrarbátum, sem haldið var úti nokkum hluta stríðsáranna á Akranesi, muni ekki verða haldið úti nema 5 á þessari vertíð. Það er reynsla tveggja undanfarandi ára, sem þessu veldur. Hjeðan úr Reykjavík og af Seltjarnarnesi gengur sennilega enginn opinn bátur í vetur. Á Álftanesi og í Hafnarfirði mun þetta vera eins eða síst betra, og suður með sjó gengur útgerðin og úr sjer. Að jeg held mjer við Faxaflóa kemur auðvitað til af því, að jeg er kunnugastur ástandinu þar, en þessa sömu sögu er að segja umhverfis alt land, að útvegi báta hnignar vegna usla botnvörpunga á fiskimiðum landsmanna.

Og nú vil jeg spyrja: Hefir nú stjórnin athugað, hvaða afleiðingar það getur haft fyrir land og lýð, að allur bátaútvegur leggist niður? Og hefir stjórnin athugað það, hvaða afleiðingar það hefir í för með sjer, að alt það fólk, sem varla mun vera færra en 1000 manns, er lifir á sjávarafla við Arnarfjörð vestra, verður að leggja árar í bát fyrir það, að bjargræðisvegur þess er eyðilagður, eins og gefið var í skyn í erindi því, er jeg las hjer upp í gær?

Jeg geri ráð fyrir, að stjórnin hafi ekki íhugað þetta sem skyldi.

Eins og nú er komið, er auðvitað sjálfsagt að taka boði Dana um svo liðsterka landhelgisgæslu, sem kostur er á, og hefir sjávarútvegsnefnd Nd. gert till. um það, hvernig starfi þeirri skuli hagað. En það dregur ekkert úr nauðsyninni á því, að framkvæmd sjeu fyrirmæli síðustu þinga um kaup á skipi til landhelgisgæslu. Og forustuna verðum við að hafa. Á því veltur alt. Þá gæti líka tekist samvinna milli foringjans á því skipi, er við hefðum við gæsluna, og dönsku foringjanna, og gætu Danir tekið Íslendinga sjer til fyrirmyndar í dugnaði og árvekni við starfið, en Íslendingar aftur á móti lært sumt það af þeim, er að framkvæmd þessa starfs lýtur.

Hæstv. fjrh. (M. G.) hefi jeg litlu að svara. Það er alveg rjett, að mjer hafði skotist yfir að geta þess, að tillagið úr ríkissjóði í landhelgissjóðinn hefir verið hækkað, en hitt var rjett frá skýrt, sem jeg sagði um það, hver upphæð sjóðsins væri.

Það var rangt hjá hæstv. fjrh. (M. G.), að fullnægt hefði verið öllum kröfum þingsins 1920. (Fjrh. M. G.: Jeg hefi aldrei sagt það). Jú, hann sagði það, en það er ekki rjett, og það er einmitt vegna þess, að fyrirspurn þessi er fram komin, að stjórnin hefir verið aðgerðalaus í þessu máli, eins og jeg hefi sýnt fram á. Kolaskorturinn í fyrra er hvergi nærri nóg ástæða til að bera blak af stjórninni fyrir undirbúningsleysi hennar í málinu. Og samþykt þingsins 1920 var einmitt til að sýna stjórninni, að aukning sú á landhelgisgæslunni, sem Danir ætluðu þá að láta í tje, — en reyndar varð lítið úr, — væri engin fullnaðarúrlausn í málinu.

Þá var það fyrirspurn hæstv. fjrh. (M. G.) til sjávarútvegsnefndar viðvíkjandi björgunarskipinu „Þór“ í Vestmannaeyjum. Þó að jeg hafi oft verið framsögumaður ýmsra mála, sem sjávarútvegsnefnd hefir haft meðferðis, þá hefi jeg ekkert umboð til þess að skýra frá því, sem gerst hefir í nefndinni um þetta björgunarbátsmál. En jeg vil aðeins geta þess, að þegar þetta mál var til umræðu í nefndinni, þá var það áreiðanlega sameiginlegt álit nefndarmanna að vilja ekki blanda saman björgunarstarfinu og landhelgisgæslunni, heldur halda því alveg aðgreindu, og jeg hygg, að það muni reynast heppilegast í framtíðinni. Til landhelgisgæslu hjer útheimtist umfram alt hraðskreitt skip og vel útbúið, en stærra þarf það ekki að vera en trollari, að minsta kosti ekki stærra en þeir eru nú, og mundi sú gerð skipa einna heppilegust fyrir allra hluta sakir.

Þá hefi jeg ekki fleiru að svara, og lýk þá máli mínu með lítilli fyrirspurn til hæstv. stjórnar.

Á síðasta þingi hjet jeg þeirri stjórn, er þá var skipuð og nú er við völd, fylgi mínu. Og gerði jeg það í trausti þess meðal annars, að stjórnin mundi sýna þessu máli fullan sóma og vinna með áhuga að undirbúningi þess, enda svo frá málinu gengið í hendur stjórnarinnar, að maður gat trauðla annars vænst. En eins og málið horfir nú við, þá verð jeg að segja það, að stjórnin hefir brugðist trausti mínu; hún hefir ekki gert skyldu sína í þessu máli, eins og jeg hefi bent á. Þess vegna leyfi jeg mjer nú að spyrja á þessa leið: Ætlar stjórnin nú á þessu ári að framkvæma fyrirmæli síðustu þinga, að kaupa eitt skip til landhelgisgæslu og sjá um, að það verði altilbúið til gæslu í seinasta lagi fyrir næstu áramót? Því jeg býst við, að á skemmri tíma geti stjórnin ekki komið máli þessu í framkvæmd.

Við spurningu þessari vil jeg strax fá skýr og ótvíræð svör. Og á þessum svörum veltur svo um afstöðu mína til stjórnarinnar.