10.03.1921
Neðri deild: 19. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í D-deild Alþingistíðinda. (3889)

62. mál, framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu

Bjarni Jónsson:

Mjer veittist sá óvænti heiður hjer í gær, að hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) gerði mig að spyrðubandi við stjórnina og setti eldhúsdag á mig um leið, bæði fyrir afskifti mín af samningnum við Dani og afskifti mín af því máli eftir á. Jeg ætla því að byrja á því að svara hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) nokkrum orðum, þótt jeg hefði í fyrstu ætlað mjer að beina máli mínu til hæstv. fjrh. (M. G.).

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hjelt því fram, að jeg hefði látið undir höfuð leggjast að krefjast þess af Dönum, að þeir gerðu skyldu sína samkvæmt 8. gr. sambandslaganna. En svo er mál vaxið, að þótt eigi sje tekið fram í sjálfri lagagreininni, hve mikil strandgæslan á að vera af Dana hálfu, þá var þó samþykt þessarar greinar, af hálfu dönsku nefndarmannanna, gerð háð því skilyrði, að Dönum bæri eigi skylda til að auka strandgæsluna fram yfir það, sem verið hefði. Þetta sjest af athugasemd þeirri, sem fylgir 8. gr. sambandslaganna, er svo hljóðar á dönsku:

„Den af Danmark udövede Fiskeriinspektion sker paa dansk Bekostning. Danmark er uden Forpligtelse til at udvide dens hidtidige Omfang“.

En á íslensku:

„Danmörk ber kostnaðinn af þeirri fiskveiðagæslu, sem hún hefir á hendi. Danmörku ber eigi skylda til að auka hana frá því, sem verið hefir“.

Með þessari athugasemd voru lögin samþykt af þingi og þjóð, þannig að enginn var leyndur því, hvað í þeim fælist. Þess vegna verður 8. gr. ekki skýrð öðruvísi en samkvæmt athugasemdinni, sem henni fylgir. Hingað til hefir þetta verið þekt og játað af öllum. Hvort hv. þm. (J. Þ.) hefir athugað þetta, um það er mjer ókunnugt, en eftir orðalagi greinarinnar mátti skilja hana á þann veg, sem hv. þm. (J. Þ.) gerði. Hins vegar vil jeg ekki ganga á gerða samninga og krefjast meira af Dönum en þeim ber skylda til að verða við. Mjer ber skylda til þess að gæta rjettinda Íslendinga í nefndinni, en ekki til þess að sníkja af Dönum.

Hv. þm. (J. Þ.) kvað sáttmála þann, er gerður var við Dani, vera afsalsbrjef íslenskra rjettinda. Þetta hefi jeg einnig heyrt úr annari átt, en síst kom mjer til hugar, að það kæmi úr þessum tveimur áttum, frá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) og frá hæstv. forseta (B. Sv.), sbr. orð hans á þingi 1918.

Ef átt er við þau rjettindi, sem 6. gr. getur um og mjer telst líklegast, að hv. þm. eigi við, þar sem Dönum er heimilaður sami rjettur til fiskveiða hjer í landhelgi og Íslendingum, þá ætti hv. þm. (J. Þ.) að líta í lög nr. 35, 27. sept. 1901, um rjett til fiskveiða í landhelgi, og sömuleiðis í lög nr. 31, 13. des. 1895, um skrásetningu skipa. Af lögum þessum sjáum við, að alt það, sem heimilað er Dönum í sáttmálanum, er heimilað þeim löngu áður með lögum. Einnig má benda á lög nr. 56, 30. nóv. 1914, um skrásetning skipa. Enn fremur má, viðvíkjandi þessu afsali, vitna í auglýsingu frá 11. maí 1898, um að öðlast og missa rjett innborinna manna. Með lögum þessum er kunngert, að allir Íslendingar sjeu danskir þegnar. En með sáttmálanum við Dani höfum vjer afsalað oss rjettinum til að vera danskir ríkisborgarar. Vjer höfum mist af þeim rjettindum að þurfa að ákveða með íslenskum lögum alt eftir þeim setningum. Nú er frá hinni hliðinni sagt, að íslenskum lögum hefði ávalt mátt breyta. En þess ber að gæta, að áður var það títt, að íslenskum lögum var synjað staðfestingar, og hefði Alþingi komið með lög um, að dönskum ríkisborgararjetti yrði synjað, þá mundu slík lög seint hafa orðið staðfest. Þessum rjetti höfum vjer afsalað oss, svo og rjettinum til að sigla undir Dannebrog, en aðrir menn kveða svo að orði, að í þess stað höfum vjer fengið rjett til að sigla undir okkar eigin fána. Auðvitað er 7. gr. mjög gölluð, en þó er þar viðurkent, að íslensk utanríkismál sjeu til. Þetta var ekki til áður; þá var hægt að ákæra íslenska sendimenn fyrir utanríkisráðherranum danska, og láta umræður fara fram í ríkisþinginu danska um það, eftir hverri grein danskra hegningarlaga bæri að dæma þá. Þessum rjetti höfum vjer afsalað oss. Þetta mál þarf ekki að ræða lengur, enda kemur það ekki við fyrirspurninni. En jeg hefi tekið mjer bessaleyfi. Jeg hefi viljað hafa minn eldhúsdag, eins og stjórnin, bera minn hluta af byrðunum, og þótt menn vildu leggja alla byrðina af sáttmála þessum á mínar herðar, þá teldi jeg mig ekkert vanhaldinn af því.

Sami hv. þm. (J. Þ.) taldi það óviðkomandi málinu að tala um „Þór“ í þessu sambandi, af því að hann væri eingöngu björgunarskip. En þetta skip hefir einnig haft með höndum strandvarnir, og sú er reynsla manna, að skip hafi alls ekki farið inn á landhelgissvæðið meðan til þess sást, eða menn vissu af því í nánd, en jafnskjótt og það frjettist, að „Þór“ væri farinn t. d. til Reykjavíkur, þá þyrptust botnvörpungar inn fyrir landhelgislínuna og sópuðu sjóinn með vörpum sínum.

Það er ekki eins ýkjabroslegt og hv. þm. (J. Þ.) vildi halda fram, að strandvörn gæti ekki farið fram á skipi, sem væri björgunarskip og væri ekki því hraðskreiðara. Tilgangur strandvarna er ekki sá fyrst og fremst að elta skipin, taka þau og sekta, heldur að skipin hefðu eins og beyg af strandvarnaskipinu. Og þetta hefði þessi bátur Vestmannaeyinga getað fult eins vel og „Beskytteren“ og „Islands Falk“. Gangmunurinn er aðeins hálf míla á þessum skipum. Og dönsku skipin hafa oftast legið við festar, en skipshöfnin lifað í vellystingum pragtuglega í landi. Það, sem jeg annars sagði viðvíkjandi þessu skipi Vestmannaeyinga, var alls ekki það, sem hæstv. fjrh. (M. G.) hafði eftir mjer. Jeg sagði alls ekki, að það hefðu verið alveg nægilegar framkvæmdir að leigja „Þór“, heldur að ef stjórnin hefði gert það, þá hefði hún þó að minsta kosti sýnt lit á því að vilja að einhverju leyti framkvæma ótvíræðan vilja þingsins 1919 og 1920. Þessi ganghröðu skip geta auðvitað hremt skip, svo hægt sje að sekta þau, en slík sekt er alveg tilgangslaus, því að þeir útlendu botnvörpungaeigendur gera með sjer einskonar samábyrgð, og þá munar þá ekki mikið um að borga þær sektir, því að það er vissulega ekki nema í eitt skifti af hundrað, sem skip, og það sama skip, sem er í landhelgi, næst og verður sektað.

Jeg vil þá víkja nokkrum orðum að hæstv. fjrh. (M. G.). Mjer þykir leiðinlegt, að hann skuli ganga fram fyrir skjöldu og stofna sjer í hættu í þessu máli. Honum bar engin skylda til þess; ræðu minni í gær beindi jeg að hæstv. forsrh. (J. M.), og það var auðvitað hann, sem átti að svara. Og jeg hagaði svo orðum mínum, að í þeim fælist engin móðgun við hæstv. stjórn. Því jeg vil ávalt koma mjer vel við þá, sem hátt eru settir, enda eru allir þeir, er stjórnina skipa, góðir vinir mínir. Þegar jeg gat þess í ræðu minni í gær, að þær hvatir, er rjeðu gerðum stjórnarinnar í þessu máli, gætu ekki verið aðrar en þær, að þeim væri eigi óljúft að sjá danska fánann blakta á íslenskum miðum, þá brást hæstv. fjrh. (M. G.) reiður við og kvaðst fyrirlíta slíka röksemdaleiðslu. En það var alls engin röksemdaleiðsla; það var miklu fremur spaug. Allar þær ástæður, er hugsanlegar voru, reyndust gersamlega ófullnægjandi. Og hvað var þá annað eftir en þetta? Annars var það hæstv. forsrh. (J. M.), sem átti að svara þessu. En þegar maður talar við þríhöfðaðan þursa, þá er ekki gott að haga skeytum sínum svo, að þau kunni ekki að hæfa það höfuðið, sem ekki var á miðað. Jeg verð að láta mjer nægja að segja hæstv. fjrh. (M. G.), að því skeyti var ekki á hans höfuð miðað.

Hæstv. fjrh. (M. G.) sagðist aldrei hafa heyrt talað um það, að slíkt skip mætti hafa sem skólaskip um leið og það væri haft til strandvarna, en jeg hugsaði, að stjórnin hefði getað sagt sjer það sjálf og framkvæmt það upp á eigin spýtur, því til slíkra framkvæmda þyrfti hún ekki lög frá Alþingi. Annars tók jeg þetta fram sem meðmæli með því að styrkja þetta fyrirtæki og ráð til þess að hafa gagn af því.

þá vill hæstv. fjrh. (M. G.) ekki ganga inn á það, að stjórnin hafi brugðið loforð við björgunarfjelag Vestmannaeyinga. Þegar stjórnin skrifar Vestmannaeyingum, að ef hún leigi skip, þá muni hún leigja „Þór“, þá hlýtur það að vekja eftirvæntingu hjá þeim. Og þegar stjórnin sendir „Beskytteren“ norður, þá hefir hún þar svikið Vestmannaeyinga. þess verður að krefjast af stjórninni, að hún sje varkárari í loforðum sínum en menn alment. Jeg skoða þetta sem fullkomið loforð. Annars er það og með öllu óverjandi að taka skip frá landhelgisgæslu og láta það vinna það verk, sem leigubátar laglega gætu leyst af hendi.

Það var annars rjett að segja liðið yfir hina dönsku samnefndarmenn, er þeir heyrðu hin hörðu orð þingsins 1919 um strandgæsluna. En hvað þingið 1920 hefir gert í þessu byggist á því, að stjórnin hefir líklega ekki sagt alveg rjett frá, eða að hún hefir haft slíkt ástríki af þingmönnum; hún var þá nýfædd, og menn hafa líklega viljað fara vel með hvítvoðunginn. Þingið hljópst á brott, og í stað þess að leggja hinni nýfæddu stjórn þau heilræði, er henni mættu að haldi koma, skildi það hana eftir, með öllu ófæra til allra framkvæmda.

Svo jeg svari hæstv. fjrh. (M. G.) um þýska tilboðið, þá mun hann ekki hafa verið kominn í stjórnina, er það lá fyrir. Jeg fjekk skriflega tilkynningu um, að þetta tilboð hefði verið sent stjórninni, sýndi sjávarútvegsnefnd það, en fór ekki með það til fleiri, og hefi síðan ekkert um það heyrt, svo það er ekki von, að það hafi borið fyrir augu hæstv. fjrh. (M. G.).

Jeg er maður óvarkár og hefi nú stofnað lífi mínu í hættu. Þar sem jeg nú er dauður um örlög fram, en hæstv. stjórn ódauðleg, þá býst jeg við því, að á gröf minni muni jeg heyra allþungt fótatak, en því verð jeg að taka í þeirri von, að jeg rísi upp aftur og geti þá sungið það hósíanna, sem verðugt sje.