09.03.1921
Neðri deild: 18. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í D-deild Alþingistíðinda. (3892)

62. mál, framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu

Bjarni Jónsson:

Jeg get ekki litið svo á, að nokkur landsstjórn mannskemmi sig á að hlýða fyrirskipunum Alþingis. Með lögunum 1919 var stjórninni ótvírætt lögð sú skylda á herðar að kaupa eða leigja skip til strandvarna af Íslands hálfu. Jeg get því ekki hugsað annað en að hæstv. stjórn ætli sjer að hlýðnast þessari fyrirskipun, ef núverandi þing leggur áherslu á það. Hæstv. forsrh. (J. M., sem talaði af landsstjórnarinnar hálfu, hefir ekki gefið neina samskonar yfirlýsingu og um daginn, þegar jeg flutti þál. mína um 7. gr. sambandslaganna, um að hann gæti ekki setið lengur í ráðherrastóli, ef hann ætti að framkvæma vilja þingsins í málinu. Jeg get því ekki ætlað, að stjórnin muni hröklast frá, þó að þingið endurnýi skipun sína.

Hæstv. forsrh. (J. M.) sagði, að flotamálaráðherrann danski hefði boðist til að auka strandgæsluna. Jeg vil ekki vefengja orð hæstv. forsrh. (J. M.), en grunur er mjer á, að flotamálaráðherrann hefði ekki farið að fara út í þá sálma, ef hann hefði búist við, að tilboðið yrði ekki þegið. Og ótrúlegt þykir mjer, að hann hafi gert tilboðið ótilkvaddur.

Jeg álít, að stjórninni hafi verið vel kleift að sinna vilja þingsins í þessu máli. Jeg vil benda á tvö atriði. Þingi og stjórn barst tilboð um kaup á ódýru þýsku skipi. Hvort skipið var vel fallið til strandvarna er mjer ekki kunnugt um. Þingið sinti tilboðinu ekki, vegna andúðar gegn manni þeim, sem var þar milligöngumaður. Stjórnin sinti því ekki heldur, og mjer er ekki kunnugt um, að hún hafi gert nokkuð til að rannsaka, hvort tiltækilegt væri að kaupa skipið eða ekki. En eftir verði því, sem var á skipinu, var sjálfsagt að kaupa það, því það var langt undir sannvirði. Þar að auki fylgdi tilboðinu sá kostur, að seljandi bauðst til að taka íslenska síld, sem ekki seldist þá, upp í andvirðið. Gróðinn var því auðsær. En stjórnin spurðist ekkert fyrir um það, hvort tiltækilegt væri að taka tilboðinu. Ef hún hefir gert það, þá hefir það verið í leyndum.

Hitt atriðið er Vestmannaeyjabáturinn Þór. Eins og kunnugt er, hefir landseti ríkisins í Vestmannaeyjum reist þar stóran og auðugan bæ, þar sem sumir mestu dugnaðarmenn ríkisins eiga sjer bústaði. Fiskifang og útvegur eyjaskeggja gefur af sjer margar miljónir króna árlega, þingi og stjórn til gleði. Vestmannaeyjar eru því eins og útrjett hægri hönd landsins, til þess að sópa auðnum úr sjónum, „draga gull úr græði sollnum, gnægð af auði bera á hauður“. En dugnaðinum fylgja hættur. Vegna hafnleysis geta þeir ekki komið við stærri og betri skipum, en þeir eiga fjölda af dýrum vjelbátum. Veiðarfæri munu þeir nú eiga, sem eru nærfelt 400,000 króna virði. Fjárskaðinn, sem þeir geta orðið fyrir af völdum sjávar og manna, er því geysilegur. En mannskaðinn verður ekki metinn til fjár, hvorki dýrleiki þeirra, sem deyja, nje harmur sá, sem eftir býr.

Þessi dýrindi þarf ríkið að vernda sem tryggilegast, hvort sem er við menn eða sjó að etja. Í fyrsta lagi fyrir yfirgangi útlendra og innlendra botnvörpunga, svo hann ónýti ekki nærfelt hálfa miljón króna í veiðarfærum og annað eins eða meira í afla. Í öðru lagi þarf að hjálpa fiskifleytunum undan stórsjó og myrkri. Þetta hafa enskir og aðrir erlendir botnvörpungar oft gert, bjargað bátum úr neyð og dregið til lands. En þá er mjög umhendis fyrir eyjaskeggja að taka þá menn fasta og sækja til sektar, sem bjargað hafa ef til vill bróður þeirra eða föður.

Þess vegna hafa Vestmannaeyingar keypt skipið Þór, til strandvarna og björgunar mönnum á hættulegasta tíma ársins. Þetta skip er með vönduðustu skipum, fyrsta flokks. Að vísu var þeim veittur þingstyrkur til kaupanna, en það er ekki nóg. Slíkt björgunarskip á heimtingu á árlegum styrk af alþjóðarfje. Stjórnin hafði hjer tækifæri til að slá tvær flugur í einu höggi, með því annaðhvort að leigja skipið og nota það til strandgæslu fyrir norðan um síldveiðitímann, eða kaupa það af Vestmannaeyjum. Með því hefði hún bæði hlýtt þinginu og styrkt lofsvert fyrirtæki Vestmannaeyinga.

Þetta lítur út fyrir að stjórnin hafi ætlað sjer að gera í fyrstu, því til er brjef, þar sem hún talar um að taka skipið á leigu. En einhvern veginn hefir það dregist henni úr höndum. Í stað þess hefir annað danskt skip haft strandgæsluna fyrir norðan. En það skip er ekki svo hraðskreitt, að það geti siglt á skömmum tíma í kringum eyna, sem sumir Danir hafa haldið vera fljótlegt verk. Stjórnin mun segja, að Þór sje ekki nægilega hraðskreiður. Þó að Fálkinn sje ef til vill nokkru hraðskreiðari, þá mun það ekki vera ýkjamikið. Tilgangurinn er ekki heldur að heyja stríð, heldur veita eftirlit og verja miðin. Sá er aðaltilgangurinn, en ekki sá að afla sektarfjár, enda svarar það venjulega ekki kostnaði. Maður getur hugsað sjer, að Fálkinn taki skip fyrir Suðurlandi og sigli með það inn til Vestmannaeyja til þess að fá það sektað. Í kjölfar skipsins sigla þá 10 skip önnur inn í landhelgina á meðan Fálkinn er í burtu, nota sjer fjarveru varðskipsins og fiska í friði á meðan í landhelgi. Eigi því strandgæslan að vera í nokkru lagi, þurfa varðskipin að vera mörg, en ekki stór, svo þau geti skift sjer niður á minni svæði og varið þau, svo að botnvörpungarnir þori ekki inn fyrir línuna. Með því verja þau ekki aðeins landhelgina, heldur og út fyrir, eins og reynsla Vestmannaeyinga hefir sýnt síðan þeir fengu sjer varðskipið.

Stjórnin hefir brigðað loforðið um að taka skipið á leigu, og ekki einu sinni viljað nota það þann tíma ársins, sem Vestmannaeyingar höfðu ekki þörf fyrir það. En það hefði orðið þeim mikill styrkur. Kostnaður við það hefði alls ekki orðið ríkinu ofvaxinn. Liggur og við borð, að formaðurinn á skipinu, sem er alkunnur dugnaðarmaður, geti ekki þolað lengur aðgerðaleysið, en það væri illa farið, ef hans misti við. Tel jeg það mjög vítavert, að stjórnin gerði þetta ekki, þar sem hún hefði grætt á því fyrir landsins hönd, en engu tapað. Í stað maklegs lofs hafa Vestmannaeyingar því hlotið brigðmælgi fyrir áhuga sinn og dugnað, en enga góðvild frá stjórnarinnar hálfu, að jeg ekki segi illvilja. En þetta er ekki ráðið til að hvetja menn til stórræða. Stórhugur hefir þó verið álitinn góður, jafnvel í framkvæmdalandinu Íslandi, til þessa. Það var sjálfsagt fyrir stjórnina að nota þetta skip, þegar hún hafði ekki önnur fullkomnari. Þór hefir haft ágæta sjúkrahjálp og haldið uppi gæslu. Stjórnin hefði líka mátt athuga, að hægt er að nota hann fyrir skólaskip fyrir þá, sem útskrifast af stýrimannaskólanum.

Jeg ætla ekki að orðlengja meira um þetta. En stjórnin á þungar ávítur skilið fyrir að hafa ekki gert þetta. Og hvers vegna hefir hún ekki gert það? Hvað gengur henni til? Ekki græðir hún á því. Ekki fær hún velvild neins fyrir það. Jeg varaði hana við aðgerðaleysinu á fundi í sumar, en hún hefir ekki látið sjer segjast. Ekki sparar hún fje við það að eyðileggja þetta fyrirtæki Vestmannaeyinga og veita þeim vanþakklæti og brigðmælgi í stað stuðnings, og fæla þannig aðra menn frá framtakssemi og dugnaði. Ekki geðjast hún þingmönnum með þessu. Hefir aldrei komið fram fastari þingvilji en í landhelgislögunum 1919. Þó að skipunin væri orðuð sem heimild, þá var það aðeins gert af þinglegri hæversku.

Cui bono? Hverjum er þá athafnaleysi hennar til góðs? Jeg vil ekki vera svo illviljaður að halda, að hún þoli ekki að sjá íslenska fánann blakta við hlið „Dannebrog“ í landhelginni. Það lægi þó næst að álykta svo, því enginn íslenskur maður mun þakka henni þetta aðgerðaleysi.

Jeg vil ekki gera Dönum upp neinn tilgang að ósekju, en aðeins lesa hjer upp úr gerðabók dansk-íslensku ráðgjafarnefndarinnar ummæli danska nefndarmannsins Kragh:

„Frá danskri hlið var spurst fyrir um það, hvort Íslendingar óskuðu ekki, að Danir ykju eftirlit með fiskiveiðum hjer, og þá er landhelgisgæslan að íslendinga áliti væri orðin fullnægjandi, hvort málið væri ekki þar með til lykta leitt um sinn. Eða hvort íslendingar óskuðu, að fiskiveiðaeftirlit frá danskri hlið væri ekki aukið fram yfir það, sem sambandslögin ákveða“.

Þetta er það eina, sem komið hefir nú frá Dönum í þessa átt. En við þekkjum þetta orðalag frá sjálfstæðisbaráttunni. Í hvert skifti sem breytingu átti að gera á stjórnarskránni, þá vonuðust Danir til, að málið yrði nú „útkljáð um sinn“. Ef Danir auka nú landhelgisgæsluna, þá á málið með því að vera til lykta leitt um sinn, þ. e. a. s. um þau 20 ár, sem eftir eru sambandstímans. Þá vonast Danir til, að Íslendingar verði farnir að venjast við að sjá danska fánann blakta í landhelginni.

Jeg þori ekki að fullyrða, að þetta liggi í orðunum. En það væri eðlilegt, þar sem því var haldið fram í eyru Dana í nefndinni, af einum íslensku nefndarmannanna, að Alþingi hafi gefið út landhelgislögin til þess eins að láta í ljós, að þeir álitu fiskiveiðaeftirlitið ófullægjandi. En jeg vil segja það dönsku nefndarmönnunum til lofs, að þeir tóku ekki undir þennan skilning. Á næsta fundi svaraði Borgbjerg hæstv. forsrh. (J. M.) á þessa leið:

„Borgbjerg þakkaði forsætisráðherra fyrir skýrslu hans og upplýsingar, er hann taldi nægilegar til þess, að nefndin að þessu sinni hefðist ekki frekar að í málinu, enda mundi þing og stjórn Danmerkur haga gerðum sínum eftir því, sem Alþingi og stjórn Íslands gerði í málinu. Hinir dönsku meðnefndarmenn hans lýstu sig samþykka orðum hans“.

Það er þá á valdi þingsins, hvort Íslendingar verða bónbjargarmenn Dana eða ekki. Jeg veit, að Danir eru fjedrengir góðir, og munu bregðast vel við fjárbænum vorum og gefa oss eða lána jafnvel eftir vild. En það er oss algerlega ósæmandi að biðja Dani að auka strandgæsluna, sem þeim ber engin skylda til. það er ekki nóg að senda brjeflappa út í veröld til þess að auglýsa fullveldi landsins, þegar fáninn sjest hvergi, en Dannebrog blaktir við strendur landsins. Um fullveldi Danmerkur efast enginn, þó að fáni hennar sjáist ekki við vorar strendur. Um Ísland er öðru máli að gegna. Það hefir verið lítt þekt um 600 ár. Og rjettur vor er auðsýndastur á hafinu. Íslendingar verða að vilja sitt eigið gagn. Jeg skil það ekki að vilja baka sjer beint óhagræði og tjón til þess eins að sýna ekki sinn eigin fána. En undarlegt er það, að jeg man ekki til að hafa heyrt neinn Íslending lýsa gleði sinni yfir fullveldi landsins og fengnum fána. En það þarf að sjást, hver hugurinn er.

„Það fljótsins svell er frekast orðið, sem fela náir yfirborðið.

En aldan straums und köldum klaka er kvik og mun um eilífð vaka.“

Ef hún er vakandi, kemur hún kann ske upp um síðir.