10.03.1921
Neðri deild: 19. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í D-deild Alþingistíðinda. (3898)

62. mál, framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu

Jón þorláksson:

Aðeins örstutt athugasemd viðvíkjandi rjetti Íslendinga samkvæmt 8. gr. sambandslaganna. Jeg viðurkenni, að vegna athugasemdanna við þá grein hefir stjórnin ekki rjett til að gera kröfu til Dana um meira en eitt skip til strandvarna hjer. En jeg lít þó svo á, að hin almenna skylda samkvæmt 8. gr. nái svo langt, að alt, sem Danmörk gerir eða kann að gera í þessu máli, falli undir það að inna af hendi skyldu samkvæmt þeirri grein. Þess vegna geti ekki verið um neina gjöf að ræða, svo sem utan hjá samningnum, þótt Danir auki hjer strandgæsluna. Læt jeg þessa getið hjer, til þess að undirstrika ummæli hv. þm. Barð. (H. K.), að okkur sje engin minkun í því að taka við aukningu strandvarnanna frá Dönum. Mjer finst sjálfsagt að taka því með þökkum, ef þessarar skyldu sje gætt frá Dana hálfu um fram það minsta, sem tilskilið er.

Jeg tel rjett, að við viðurkennum þetta og látum það, hve Danir eru fúsir á að halda þetta samningsatriði drengilega, verða til þess, að önnur atriði samningsins verði vel og drengilega haldin af vorri hálfu. Því svo er best borgið sæmd beggja samningsaðilja, að þeir láti sjer umhugað um að reynast í hverju atriði betur, en ekki ver en tilskilið var.