18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í D-deild Alþingistíðinda. (3909)

108. mál, símagerð og póstgöngur í Dalasýslu og Barðastrandarsýslu

Hákon Kristófersson:

Jeg get verið stuttorður, því hv. þm. Dala. (B. J.) hefir tekið flest fram, sem jeg vildi sagt hafa, og sje jeg ekki ástæðu til að endurtaka eða bæta þar nokkru við. En jeg vildi aðeins gera þá kröfu, að þegar á þessu sumri væru gerðar ráðstafanir af símastjórninni um undirbúning á símalagningunni.

Jeg finn líka ástæðu til að þakka hv. þm. Ísaf. (J. A. J.) fyrir ummæli hans, og voru þau nokkuð annars eðlis en hv. þm. Str. (M. P.), sem vildi telja málið hjegómamál. En samt hefir honum ekki fundist það eintómur hjegómi, þar sem hann hefir reynt að vinna á móti því, bæði innan þings og utan.(M. P.: Það er ósatt). Það er satt. Hv. þm. (M. P.) þýðir ekki að þræta fyrir það; þær röksemdir eru frá póstmeistara sjálfum. Jeg vænti þess, að hv. þm. sjái það, þegar þeir athuga betur, að þetta eru ekki skröksögur, sem við förum með um málið. Jeg vil stilla orðum mínum í hóf, og vil ekki gera eins og hv. þm. Str. (M. P.) gerði, að gera orð þm. ósennileg með tilvitnunum í þingtíðindin frá 1919. Jeg vildi líka spyrja þann hv. þm. (M. P.), til hverra hann meinti þessi orð.

Um hitt atriðið, er talað var um, bygði jeg á því, að Strandamenn mundu ekki hafa hag af breytingunni, en nú er það komið á daginn, þar sem hv. þm. Str. (M. P.) legst svo mjög á móti þessu, og er það dæmi deginum ljósara. Vitaskuld ann jeg Strandamönnum alls góðs, en mjer finst, að þeir þurfi ekki að auka þægindi sín á kostnað Barðstrendinga og Dalamanna.

Það er alveg rjett, sem hv. þm. Ísaf. (J. A. J.) tók fram, að með þessu fyrirkomulagi hafa þessi hjeruð verið slitin úr því sambandi, sem þeim á öllum ársins tímum er nauðsynlegt vegna viðskifta sinna.

Ef borin er saman umferðin á báðum þessum leiðum, þá mun ekki vera nema einn maður, sem fer um Steingrímsfjarðarheiði á móti hverjum tíu, er fara um Þorskafjarðarheiði. Jeg veit þetta af sögusögn reyndra manna, bæði úr Strandasýslu og Barðastrandarsýslu.

Mjer finst þetta mál ekki gefa tilefni til þrætu, en finst, að ræða mætti það með þeirri hógværð, sem þingmönnum er skyld. Jeg bjóst við því, að enginn mundi hafa á móti þessum bótum, og vona, að hv. þm. Str. (M. P.) leggi sig ekki mjög í framkróka til að spilla fyrir því, að óskum margra hjeraða verði framfylgt.