18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í D-deild Alþingistíðinda. (3912)

108. mál, símagerð og póstgöngur í Dalasýslu og Barðastrandarsýslu

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Út af ummælum hv. þm. Dala. (B. J.) þarf jeg ekki að segja neitt fleira. Jeg svaraði því áðan, sem þurfti. Stjórnin mun svara því í verki, sem hann spurði um, hvort undirbúningur muni hafinn á næsta hausti til þess, að þetta verði, að símalagningin komist á 1922. En hjer er hvorki staður nje stund til að ákveða, hvort úr þessu getur orðið. Því eins og jeg tók fram, þá er ekki hægt að lofa því, sem ekki er trygt í hendi í þessu efni, frekar en sólskini á morgun.

Hv. þm. Str. (M. P.) vakti athygli á því, að komið gæti til mála, að hjeruð þau, sem hlut eiga að máli, söfnuðu sjálf fje að láni til bráðabirgða, ef skortur yrði hjá ríkissjóði. Stjórnin mun taka þetta til athugunar. Annars væri henni kærast, að það kæmi erindi frá hjeruðunum, sem minti á þetta; það hefði meiri áhrif en þótt það standi í þingtíðindunum. Það er síður en svo, að hjer sje um viljaleysi að ræða hjá stjórninni.

Því, sem hv. þm. Ísaf. (J. A. J.) sagði um póstgöngurnar í Dölunum, hefir nú verið andmælt af þm. Str. (M. P.), og er honum síst ver kunnugt um það. (H. K.: Síst betur). Annars skil jeg ekki, hvaða áhrif póstgöngur í Dalasýslu geta haft á skilsemi manna við bankaútibúið á Ísafirði. Jeg hefi kynt mjer nokkuð, hve margir bæir tapa á því, að póstgöngum í Dölunum var breytt. En það eru ekki aðrir bæir en þeir, sem notað gátu áður póstinn í bakaleiðinni, og þeir eru ekki margir. Menn geta gert öll sín skil hin sömu að öðru leyti. Hins vegar er jeg ekki svo kunnugur, að jeg vilji standa í þrætum um þetta við kunnuga menn. En jeg ber traust til póstmeistara, sem hefir kynt sjer þetta manna best, og lofa engu um það, sem fer í bága við hans tillögur. Vona jeg, að þetta mál fari nú að vera útrætt.

Þing 33- D-0001–0746. Bls. 47, 48, 49, og 50 eru auðar.