18.02.1921
Neðri deild: 3. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

46. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Mjer er það ljóst, að ýmsum hv. þm. muni bregða í brún, er þeir sjá, að stjórnin vill halda vörutolli áfram, en ekki taka upp verðtoll. En ástæðurnar til þess eru tilfærðar í aths. við frv., og vil jeg leyfa mjer að vísa til þeirra, til þess að losna við að taka þær upp aftur hjer. Vona jeg, að þær nægi til að sannfæra hv. deildarmenn um, að sú leið er ekki fær, að taka upp verðtollsstefnuna, þótt hún fljótt á litið sje sanngjarnari. Umsagnir lögreglustjóranna í þessu efni eru talandi vottur, og þeir tala af reynslu, og hún er jafnan talin ólygnust.

Þótt jeg eindregið fylgi vörutolli fremur en verðtolli, er jeg þó alls ekki blindur fyrir því, að vörutollurinn hefir sína galla, sjerstaklega eins og hann hefir verið. En í því frv., sem hjer liggur fyrir, hefir einmitt verið reynt að bæta úr þeim, með því að búa til nýjan flokk með allháum tolli, og veita heimild til, þar sem sjerstaklega stendur á, að setja tollinn niður.

Að öðru leyti er frv. lítið breytt, en öll hin gildandi vörutollslög dregin saman í eina heild.

Jeg veit það vel, að það er leitt að þurfa að taka aðflutningsgjald af öllum aðfluttum vörum, en eins og nú er, sje jeg ekki nokkurn möguleika á að losna við það.

Jeg minnist þess, að þegar hið núgildandi aðflutningsstimpilgjald var lögleitt í fyrra, var það meðal annars gert í þeim tilgangi, að sannreyna með því, hvernig verðtollur gæfist hjer á landi. Nú er þessi reynsla komin, og hún mælir sannarlega ekki með þessari skattaleið.

Þegar þessi umræða er á enda, legg jeg til, að frv. verði vísað til fjárhagsnefndar, og skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, nema andmæli komi fram.