07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

46. mál, vörutollur

Magnús Kristjánsson:

Það eru að eins örfá orð, sem jeg vildi segja, án þess að lengja umr. að neinum mun. Mjer þykir leitt, að það skuli koma fram svo órökstuddar aðfinslur við starf nefndarinnar, eins og lesa má út úr orðavalinu á brtt. á þskj. 203, sem háttv. flm., 2. þm. Skagf. (J. S.) árjettaði nokkuð í ræðu sinni. Nefndin hefir þó ekkert til saka unnið; hún hefir að eins sagt um þessa brtt. (203), að hún væri ankanalega orðuð og kæmi tæplega heim við efnið. Undarlegt að slíta í sundur náskylda flokka og skjóta þar inn í ólíkum tegundum. Hitt hjelt jeg, að þeim ætti að vera ljóst, þessum háttv. þm., að þessi upptalning þeirra er alls ekki tæmandi. Og það er misskilningur hjá þeim hv. flm., að nefndin hafi verið á móti því að telja verkfæri þessi í lægri flokki. En svo held jeg, að hann sje nú vafasamur þessi gróði fyrir landbúnaðinn, sem þeir byggja á með sinni uppástungu. Annars vil jeg mótmæla þeim orðum, sem fallið hafa í garð nefndarinnar frá háttv. flm., því að þau eru vægast sagt óbilgjörn.

Þá var það háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). með póstbögglana. Jeg lít nú svo á, að þessi hækkun nái ekki til blaða, nje annars þess, er þm. nefndi. Yfirleitt held jeg, að nefndin hafi reynt að koma vörutollinum í viðunanlegt horf, en hitt var henni vitanlega ljóst, að upptalning og flokkun á vörum getur altaf verið deiluatriði, enda er jeg þeirrar skoðunar, að verðtollur sje heppilegri grundvöllur til þess að byggja á heldur en vörutollur.

Það má vel vera, að brtt. á þskj. 203 nái fram að ganga, en þó hefði jeg talið betur farið, að háttv. flm. hefðu orðið við beiðni háttv. frsm. (J. A. J.) um að fresta henni og reyna að lagfæra þetta fyrir 3, umr. En eins og hún er nú, get jeg ekki annað en greitt atkv. á móti henni.

Jeg ætlaði að vera stuttorður, og læt því hjer staðar numið.