11.04.1921
Neðri deild: 40. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

46. mál, vörutollur

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Brtt. á þskj. 279 á að koma í staðinn fyrir brtt. á þskj. 203, frá háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.) og háttv. þm. Borgf. (P. O.), sem þeir, við 2. umr. málsins, frestuðu að láta koma til atkv. Vonast jeg til þess, að þeir hafi ekkert við þessa tillögu nefndarinnar að athuga, og telji hana fullnægjandi.

Þá eru brtt. á þskj. 268, frá háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Nefndin hefir ekki tekið neina ákveðna afstöðu til þeirra. Í þessum brtt. eru engar efnisbreytingar, nema lítilsháttar í 2. till., þar sem allir munir, sem sendir eru til útlanda til aðgerðar, skuli vera undanþegnir vörutollinum. Fjárhagsnefnd setti inn í frv., að allir þeir munir, er innlendar stofnanir sendu til aðgerðar, skyldu undanþegnir tolli, og hún setti þetta ákvæði vegna þess, að forstöðumenn ýmsra stofnana hafa farið fram á þetta við stjórnina, að fá slíka undanþágu um muni stofnananna. Stjórnin hefir að undanförnu veitt slíkar undanþágur. Sýnist nefndinni því rjettara að lögfesta þetta fyrirkomulag. En nefndin mun ekkert skifta sjer af því, hvort hin háttv. deild vill láta þessa undanþágu ná til einstakra manna eða ekki.

í 1. brtt. mun einn stafur hafa fallið niður, og er það líklega prentvilla: Krydsfine fyrir Krydsfiner.

3. og 4. brtt. eru ekki efnisbreytingar, því að blöð og bækur eru undanþegnar vörutolli, og legg jeg enga áherslu á, hvort þær brtt. ná fram að ganga eða ekki.