06.04.1921
Efri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

23. mál, stofnun og slit hjúskapar

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Jeg verð að segja nokkur orð út af ræðu hæstv. forsrh. (J. M.) í gær. Nefndin hefir ekki getað borið sig saman um þær aths., sem hann gerði við brtt., vegna þess, að einn nefndarmanna er veikur. En okkur hinum kom saman um að falla ekki frá brtt. um að nema burt síðari málsgr. 10. gr. Þessi málsgr. er í dönsku lögunum, en hvorki í þeim sænsku nje norsku.

Sama er að segja um brtt. við 19 gr. Nú eru lýsingar orðnar heldur fátíðar, en þrátt fyrir það, er engin ástæða til þess að fæla menn frá þeim, með því að vera óþarflega strangur í kröfum um skilríki. Nefndin telur nóg að heimta ábyrgð svaramanna á því, að skilyrðin sjeu fyrir hendi, og vitanlega fylgir embættisábyrgð þess, sem athöfnina fremur, að alt sje löglegt. Aftur virðist það óþörf skriffinska að heimta jafnan öll skilríki skrifleg, svo að prestur, sem hefði skírt og fermt dóttur sína, yrði að gefa henni vottorð úr kirkjubókinni, til þess að hann mætti lýsa með henni. Hæstv. forsrh. (J. M.) var að tala um, að prestar hefðu brent sig á að gefa hjón saman, sem vanti lögleg skilríki. Jeg hygg, að það hafi nú ekki verið oft, og helst ekki nema í því að gefa saman hjón, er annaðhvort þeirra stóð í sveitarskuld, en nú hefir ákvæðunum, sem bönnuðu að gefa þann í hjónaband, er sveitarstyrk hafði þegið, verið kipt úr löggjöfinni. Vitaskuld er gott og þægilegt að hafa öll skilyrðin talin upp í einu, eins og gert er í 19. gr. frv., en einkum var þó ástæða til þess, ef ólöglærðir vígslumenn ættu að framkvæma vígsluna, eins og frv. gerir ráð fyrir. En það vill nefndin einmitt taka burt úr frv., og þá er miklu minni ástæða til að rígskorða þetta svo mjög.

Það gæti verið, að það þyrfti að orða betur 13. brtt. nefndarinnar, sem á við 35. gr.: „Nú eru hjónaefni gefin saman af öðrum en lög standa til, og er sú athöfn þá ógild“. Forsætisráðherra (J. M.) gat þess til, að þetta mætti skýra svo, að hjónavígslan væri ógild, ef annar framkvæmdi en sá, sem bar að gefa saman þessi hjón. Nú er í 11. brtt. sýslumönnum og bæjarfógetum gert að skyldu að vígja alla. jafnt menn utan hjeraðs sem innan. Þetta gæti því ekki átt við borgaralega vígslu. Enda átti nefndin með orðunum: „öðrum en lög standa til“ vitanlega við menn, sem ekki hefðu lagalegt vald til að framkvæma athöfnina. Og ef þeir vígja, þá á vígslan að vera ógild. En þeir, sem vald hafa til þessa, eru sýslumenn, bæjarfógetar, prestar þjóðkirkjunnar og löggiltir forstöðumenn annara trúarfjelaga. En vel getur verið að þetta mætti orða skýrara.

8. brtt., sem á við 16. gr., getur verið að sje ofurlítil efnisbreyting, og mun nefndin athuga það til 3. umr. Jeg man svo ekki að hæstv. forsrh. (J. M.) kæmi með fleiri aths. við þennan kafla, sem nú liggur fyrir.