06.04.1921
Efri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

23. mál, stofnun og slit hjúskapar

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg held enn þá, að rjettara sje að halda 19. gr. eins og hún er í frv. Ef mjer hefir verið rjett skýrt frá, og jeg hygg það rjett vera, þá er þetta samhljóða Norðurlandalögunum og frumvörpunum. Þetta er af nokkru atriði, nefnilega, að skilyrðin sjeu hjer öll þau sömu, því að oft kemur það fyrir t. a. m. að sænskur maður kvongast í Danmörku o. s. frv. Þegar undanþága er fengin frá lýsingu, þá verður vígslumaður að heimta þessar sannanir, áður en vígsla fer fram.

Og svo er annað. Þessi lög gera ráð fyrir minni skyldum, er hvíli á svaramönnum, en áður, og að hjónaefni gefi líka upplýsingar sjálf.

Jeg legg ekki neina áherslu á það, hvort veitt skuli undanþága, ef geðveikur maður vill ganga í hjónaband. Jeg sje samt ekki, að slíkt ætti að geta orðið nokkuð hættulegt, ef sú undanþága væri að eins veitt samkvæmt ráði læknaráðs háskólans, því að hverjum ættum vjer fremur að treysta til að sjá slíkum sökum borgið? En eins og jeg hefi áður sagt, þá legg jeg litla áherslu á, hvort sú breyting nær fram að ganga. Öðru máli er að gegna um 19. gr. Jeg álít, að frv. sje spilt, ef þær breytingar, sem háttv. allsherjarnefnd hefir gert við hana, verða teknar til greina. Það má ekki gera lítið úr samræmi, að þessu leyti, við lög annara Norðurlanda, úr því vjer erum á annað borð að líkja eftir þeim, eða taka þau upp.

Jeg held, að háttv. frsm. (Jóh. Jóh.) hafi ekki minst neitt á 8. brtt. (Jóh. Jóh.: Það er verið að taka hana til athugunar. Getur hugsast, að komi fram viðaukatill.). Ef háttv. nefnd vill athuga þá brtt., þá mun rjettast að sleppa henni nú og taka hana svo til athugunar við 3. umr.

Jeg gat um það í gær, að jeg væri ekki á móti 11. brtt., og man nú ekki eftir, að jeg hafi meira að segja að sinni.