06.04.1921
Efri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

23. mál, stofnun og slit hjúskapar

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Hæstv. dómsmálaráðherra (J. M.) lagði mikla áherslu á það, að ekki væri skert samræmið við löggjöf Norðurlanda, um lýsingarskilyrðin. En jeg verð að líta svo á, að hæstv. dómsmálaráðherra hafi sjálfur brugðið frá þeirri reglu, þegar hann gerði á frv. þær breytingar, sem gefa jafngreiðan aðgang að undanþágu frá lýsingu og áður var — eins og líka nefndin álítur alveg rjett. Útkoman er því sú, að lýsingar verða hreinustu undantekningar eftirleiðis, eins og þær eru nú, því að það veldur hvorki fyrirhöfn nje kostnaði að ráði að kaupa sjer leyfisbrjefið. Það er einmitt í þessu, sem liggur aðalósamræmið milli vorra hjónabandslaga og annara Norðurlandaþjóða, að hjer á landi er miklu greiðari að gangur að því að losna við lýsingu. Eftir dönskum lögum um þetta efni getur konungur að eins veitt undanþágu frá lýsingu, þegar sjerstakar ástæður eru fyrir hendi. Eftir norskum lögum má að eins sleppa lýsingu. þegar annað hjónaefna liggur á banasæng. Og eftir sænskum lögum er þessi undanþága að eins heimiluð, ef annað hjónaefna er sjúkt. eða ef maðurinn er kallaður í stríð. Þegar við berum þessi ákvæði saman við ákvæði um sama efni í íslenskum lögum, þá sjáum við fljótt, að hjer er um miklu meiri mismun að ræða en þótt slept sje að heimta öll þau vottorð og skilríki, sem 19. gr. frv. ræðir um. Jafnframt liggur það í augum uppi, að ef þessum ákvæðum yrði haldið og stranglega framfylgt, þá yrði það til þess, að aldrei yrði lýst með hjónaefnum hjer á landi, en jeg geri ekki ráð fyrir, að hæstv. dómsmálaráðherra (J. M.) vilji leggja neinn þröskuld í veg þeirra, sem vildu halda þeirri góðu og gömlu venju.

Viðvíkjandi því, sem háttv. þm. Snæf. (H. St.) sagði, vil jeg taka það fram, að þar sem enginn læknisfróður maður á sæti í allsherjarnefndinni, þá taldi hún það tæplega ráðlegt að gera á frv. miklar breytingar í þessum efnum. Við vitum, að álit hinna bestu lækna var leitað um þetta, og samkvæmt þeirra ráði voru svo þau ákvæði sett, sem hjer er um að ræða. Að því er snertir umyrði hans um börnin, þá vil jeg leyfa mjer að vekja athygli hv. þm. (H. St.) á því, að öll börn fæðast ekki í hjúskap, og hætt er við, að eftir því sem þessi ákvæði yrðu gerð strangari, þá fjölgaði lausaleiksbörnunum að sama skapi, en þeim er sjaldnast betur borgið.

Jeg tel rjettast að geyma brtt. við 16. gr. til 3. umr. og taka hana þá til nýrrar yfirvegunar. 8. brtt. hefir verið tekin aftur, og jeg hefi þá ekki meira að segja um þetta efni að sinni.