06.04.1921
Efri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

23. mál, stofnun og slit hjúskapar

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vil leyfa mjer að benda hinni háttv. nefnd á, að brtt. við 42. gr. 1. lið er efnisbreyting. Breytingin er aðallega gerð til að forðast orðið „gjörgengur“, og í staðinn fyrr það er sett .... „mátti því eigi skuldbinda sig til hjúskapar að lögum“. En frv. hefir eigi að eins fyrir augum það ógergengi — ef jeg mætti hafa það orð — heldur yfirleitt.

Nefndin hefir rjettilega og viðkunnanlega sett í stað „makar“ „annað hjóna“ og „hitt hjóna“. Jeg vil að eins benda hinni háttv. nefnd á, að mjer hefði fundist rjettara, að hún hefði einnig í 3. og 4. lið 42. gr. haft „hitt hjóna“ sökum samræmisins.

Þá vill nefndin, samkvæmt 17. brtt. b. við 45. gr. frv., setja „sanngjarnar“ í stað „hæfilegar“. Dálítill munur er á þessu. Þetta „sanngjarna“ verður fremur persónulegt mat dómarans sjálfs, en „hæfilegt“ meira alment mat. Jeg sje eigi hvaða ástæðu nefndin hefir haft til að setja hjer „sanngjarnar“ í stað „hæfilegar“, þegar litið er á 3. brtt., þar sem talað er um hæfilegar bætur fyrir ráðspjöll.

Lakari þykir mjer þó brtt. 17 e. við 45. gr. Samkvæmt þessari brtt. vill nefndin fella niður ákvæðið, að bæturnar skuli miða við kjör beggja. Nefndin virðist ekki hafa tekið eftir því, að í þessu frv. eru skaðabætur ekki að eins miðaðar við kjör þess, sem fyrir skaðanum verður, eins og annars er gert yfirleitt í einkamálum, heldur tekin upp sú stefna, að miða þær einnig við kjör hins, sem bæturnar á að greiða. Þessi regla er einnig tekin upp í hinum sifjafrv. Úr því jeg nefni hin sifjafrv. vil jeg leyfa mjer að taka það fram, að jeg vona þess fastlega, að frv. um óskil getnu börnin komi bráðlega frá háttv. nefnd, því að það frv. átti fyrst og fremst fram að ganga af þessum frv.

Jeg vil benda hv. nefnd á, að í 25. brtt. stendur: „55 eða 56. gr.“, en á að vera „55. eða 57. gr.“ (Jóh. Jóh.: Það er prentvilla). Það mætti leiðrjetta þetta, ef forseti vildi leyfa það.

Þá er brtt. nefndarinnar við 2. málsgr. 56. gr. Jeg hefi ekkert verulegt að athuga við breytinguna sjálfa, eins og hv. nefnd eflaust hugsar hana. En með brtt. er felt burtu upphafið á annari málsgr., og hefir það sjálfsagt ekki verið tilætlunin. Úr þessu mætti bæta með því að færa upphaf 2. málsgr. upp, og bæta aftan við fyrri málsgr.

Þá held jeg, ef jeg hefi ekki hlaupið yfir neitt, að jeg hafi ekkert að athuga fyr en kemur að 74. gr. Við aðra málsgr. þeirrar gr. gerir nefndin efnisbreytingu, sem jeg geri ráð fyrir, að hún hafi ekki ætlað að gera. Jeg ímynda mjer, að ekki þurfi annað en benda nefndinni á þetta, og þá muni Hún taka þessa brtt. aftur. Í brtt. nefndarinnar er málsgr.orðuð svo: „Áskilinn styrkur fellur niður, giftist styrkhafi á ný“. En þetta er ekki það, sem við er átt. Nei, meiningin er, að öll framfærsluskylda falli niður. (Jóh. Jóh.: Það er auðvitað meiningin).

Það sem jeg nefndi áðan, að athugavert væri við brtt. við 56. gr., kemur aftur fyrir í 76. gr. Mætti bæta úr því á sama hátt, að flytja 1. málslið 2. málsgr. upp í 1. málsgr.

Jeg held það sje þá ekki fleira, sem jeg hefi að athuga við brtt. nefndarinnar. Flest af því, sem jeg hefi haft við þær að athuga, er mjög smávægilegt. — Jeg skal að eins geta þess að lokum, að rjettara hefði verið að hafa eitthvað í fyrirsögn IX. kap., sem benti til þess, að hann væri að sumu leyti til bráðabirgða. „Ýmisleg ákvæði“ má þó duga.