06.04.1921
Efri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

23. mál, stofnun og slit hjúskapar

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Nefndin hefir ekki getað borið sig saman um þetta atriði, því að einn nefndarmanna mætti ekki á fundi í morgun. Ástæðan fyrir því, að nefndinni þótti betra í 17. brtt. við 45. gr. að setja „sanngjarnar“ í stað „hæfilegar“ var, að þá yrði tekið tillit til kjara beggja hjónaefna. Ef „hæfilegar“ hefði staðið, þá hefði verið miðað við kjör þess, sem fyrir órjettinum varð, en með því að hafa „sanngjarnar“ þá er miðað við ástand beggja. (Forsrh.: Óskýrara). Meining nefndarinnar var ekki önnur en þetta. Nefndin leit svo á, að orðin, sem sett eru í stað „gjörgengi“, nái því, sem átt er við með því orði, en það orð er vandskilið. Jeg hugsa, að fæstir skilji það, sem lesa greinina, eins og hún er orðuð í frv., í fyrsta sinn.

Það er prentvilla í a. lið 25. brtt., en jeg vona, að forseti láti leiðrjetta hana, og beri brtt. rjett upp. Þar á að standa: eða 57. gr., en ekki eða 56. gr. Jeg býst við, að öll nefndin sje sammála um, að rjett sje, að orðin í 56. gr. annari málsgrein: „skifti skal gera eftir öllum kjörum foreldra“ sjeu færð upp, og tilheyri 1. málsgr. sömu greinar. Brtt. 30, b. lið, við 74. gr. skal jeg taka aftur til 3. umr. Hæstv. dómsmálaráðh. (J. M.) benti á, á öðrum stað, sem sje 32. brtt. við 76. gr., að orðin „skiftinguna skal gera eftir öllum kjörum foreldra“, skuli færast upp og tilheyra 1. málsgr. sömu greinar.