09.04.1921
Efri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

23. mál, stofnun og slit hjúskapar

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Allsherjarnefnd hefir fallið frá að koma fram með brtt. við 19. gr. í stað þeirrar, sem hún tók aftur við 2. umr. Það er ekki vegna þess, að hún sje að nokkru leyti efnisbreyting, og í sjálfu sjer kunni nefndin betur við brtt. eins og hún var, heldur en frv.gr., en hún breytti dálítið hugsun frv.greinarinnar. Hæstv. dómsmálaráðh. (J. M.) lagði allríka áherslu á, að greinin í frv. næði fram að ganga óbreytt, og vill nefndin ekki gera þetta að neinu kappsmáli. Hinsvegar vil jeg með nokkrum orðum minnast á brtt. nefndarinnar á þskj. 272.

1. brtt. er tilvitnun, sem sett er aftan við 1. málsgr. 19. gr., í 25. gr. Nefndinni þótti það viðkunnanlegra, því að hún áleit, að oft yrði farið framhjá lýsingu eftir 25. grein.

2. brtt., sem er við 26. gr., er orðabreyting. eins og háttv. deild sjer, að þar kemur „ríkissjóður“ í stað „landssjóður“.

3. brtt., sem er við 36. gr., að eftir orðunum „lög standa til“ bætist „að gefi saman hjón“, því að hitt gæti orkað tvímælis, hvort hjer væri átt við þann, sem yfirleitt hefir ekki vald að lögum til að gefa saman hjón, eða þann, sem ekki ætti að lögum að gefa saman þessi hjón. Með þessu fanst okkur vera girt fyrir allan misskilning.

4. brtt., sem er við 39. gr., er sjálfsögð vegna þess, að nú liggur fyrir þinginu breyting á aukatekjulögunum, og þar er gjaldið hærra en í frv., og fanst okkur því rjettara, í stað þess að ákveða nokkurt sjerstakt gjald, að vísa til aukatekjulaganna á hverjum tíma.

5. brtt., við 48. gr., er einnig einungis orðabreyting, og eins og háttv. deild sjálfsagt sjer, er 6. og 7. brtt. sömuleiðis orðabreytingar. 8. brtt. er orðabreyting, og kemur hún í stað þeirrar brtt., sem nefndin tók aftur við 2. umr. Okkur þótti hún ekki nógu vel orðuð þá, og gæti ef til vill misskilist, en nú er hún þannig orðuð, að hún getur ekki skilist nema á einn veg. 9. brtt. er einnig orðabreyting; þar hefir orðið „til“ slæðst inn í, en á þar alls ekki heima, og fellir brtt. það niður.

Jeg skal geta þess, að allsherjarnefnd hefir athugað brtt. háttv. þm. Snæf. (H. St.) á þskj. 251. Jeg býst ekki við, að meiri hluti nefndarinnar sje till. fylgjandi, að minsta kosti ekki seinni hlutanum. Hann bætir við nýju sjúkdómstilfelli, berklaveiki, og hefi jeg ekkert við það að athuga. En mjer finst það nokkuð viðurlitamikið og hart að gengið að heimta vottorð af öllum brúðhjónum. Sem betur fer, eru menn hjer yfirleitt heilsuhraustir, og jeg vona að það haldist, og er læknisskoðun þá óþarfa fyrirhöfn og kostnaður, einungis vegna þess, að maður og kona ætla að ganga í hjónaband; það því fremur, sem háttv. flm. tillögunnar (H. St.) gat þess við 2. umr., að þetta væri meira gert fyrir afkomendurna en sjálf brúðhjónin. Jeg get því ekki sjeð, að þetta nái tilætluðum tilgangi. Því að þótt fólki sje bannað að giftast, er því ekki þar með bannað að auka kyn sitt, og yrði því afleiðing sjúkdómanna hin sama fyrir afkomendurna. Jeg er því þakklátur, að háttv. forseti (G. B.) hefir haft góð orð um að bera upp í tvennu lagi till. á þskj. 251.