09.04.1921
Efri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

23. mál, stofnun og slit hjúskapar

Sigurjón Friðjónsson:

Jeg sje, að till. á þskj. 251 er borin fram af umhyggju fyrir ófæddri kynslóð, og það er sjálfsagt, að hún á mikinn rjett á sjer. En jeg verð þó að álíta, að þeir eigi mestan rjett á sjer, sem uppi eru, og mjer virðist till. ganga nær rjetti þeirra en jeg get vel sætt mig við. Allir vita, að fólk er mjög viðkvæmt í ásta- og hjúskaparmálum, einkum í æsku, og það hefir orðið mörgum að gæfutjóni og heilsutjóni að verða fyrir vonbrigðum í þeim efnum. Ef nú þess háttar vonbrigði bætast ofan á heilsubrest, getur það haft afleiðingar, sem ilt er að vera valdur að. Þessi aths. mín á einkum við berklaveikissjúklingana, og er til ábendingar um, að athugavert sje að ganga mjög ríkt eftir heilbrigðisvottorðum, þegar um giftingu þeirra er að ræða. En þó álít jeg hitt engu síður viðsjárvert, að heimta að alt fólk í landinu, sem vill giftast, sje lagt undir kynferðissjúkdómsskoðun, á meðan þeir sjúkdómar eru ekki tíðari en þeir eru enn. Þótt jeg geti gengið inn á fyrri hluta tillögunnar, mun jeg greiða atkvæði mitt á móti þeim síðari. Það þýðir það, að þessi heilbrigðisatriði verða þá aðallega á ábyrgð vígslumanna og svaramanna, sem geta, eins og líka hvert hjónaefni sem er, heimtað heilbrigðisvottorð af lækni, ef eitthvað grunsamlegt er við heilsufarið.