09.04.1921
Efri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

23. mál, stofnun og slit hjúskapar

Halldór Steinsson:

Það er fyrst viðvíkjandi 2. þm. S.-M. (S. H. K.). Jeg játa það fúslega, að það geta komið fyrir tilfelli, að hættulaust sje að vígja mann og konu, sem ganga með slíka sjúkdóma. En jeg sje ekki hvernig hægt er að koma því svo fyrir, að það skemmi ekki regluna. Jeg skal fúslega ganga inn á einhverjar breytingar, ef háttv. þm. (S. H. K.) getur búið svo um, að vel fari.

Háttv. 1. landsk. varaþm. (S. F.,) misskilur meiningu mína, ekki síður en háttv. frsm. (Jóh. Jóh.). Jeg verð enn að álíta, að þetta verði einungis pappírslög, ef það á að banna að vígja fólk, sem veikt er af þessum sjúkdómum, en heimila svo ekkert vottorð, er sanni það, að fólk þetta sje í raun og veru heilbrigt. Jeg get ekki skilið, hvernig svo glöggir menn sem þessir eru báðir, geta misskilið jafneinfalt atriði og þetta er. Jeg álít, að það sje þá miklu hreinlegra að vera á móti brtt. í heild sinni.