09.04.1921
Efri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

23. mál, stofnun og slit hjúskapar

Halldór Steinsson:

Jeg sje að jeg á bágt með að sannfæra háttv. frsm. (Jóh. Jóh ). Embættismaður sá, sem vígslu framkvæmir, hefir engin tök á að sanna, hvort hjónaefnin sje haldin af næmum sjúkdómum, t. d. holdsveiki, berklaveiki, flogaveiki, — að jeg nú ekki nefni kynsjúkdóma. Hvernig á vígslumaður að sjá það utan á hjónaefnunum, hvort þau ganga með kynsjúkdóma eða eigi? Hann sagði, að heilbrigðir menn þyrftu ekki læknisskoðunar við. En þess er nú samt krafist. Hvert barn í barnaskólanum er skoðað, hver nemandi í alþýðuskólum landsins o. s. frv., svo það er þessvegna engin ástæða til að undanskilja frá þessari skyldu þá, er ganga inn í hjónabandið og eiga í vændum að auka kyn sitt.