12.04.1921
Neðri deild: 41. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

23. mál, stofnun og slit hjúskapar

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er ekki þörf á langri framsögu um þetta mál. Það hlýtur að vera orðið háttv. deildarmönnum kunnugt, þar sem það hefir legið tvisvar fyrir þinginu áður. Skal vísað til hinna ítarlegu athugasemda við frv. 1919.

Á frv. hafa verið gerðar allmiklar breytingar í háttv. Ed., en þó aðallega orðabreytingar. Jeg sje ekki ástæðu til að fara sjerstaklega út í hinar einstöku brtt., vil að eins nefna eina eða tvær. Um það, að hverju leyti ákvæði frv. eru aðallega frábrugðin núgildandi lögum um þetta efni, er best að vísa til greinargerðar þáverandi prófessors Lárusar H. Bjarnason, sem hann hefir samið um leið og hann samdi frv. Það er sjerstaklega eitt af hinum þremur sifjalagafrv., sem jeg hefði óskað, að yrði hraðað eins og unt er, sem sje frv. um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna. Vona jeg, að það komi bráðlega úr háttv. Ed., og verði afgreitt sem lög frá þessu þingi.

Jeg álít breytingu 20. gr. þessa frv. á 19. gr. stjfrv. ekki vera til bóta. 19. gr. stjfrv. er í samræmi við hjónabandslög Norðurlanda, þar sem talin eru upp skilyrðin, sem eiga að vera fyrir hendi, þá er lýsing á að fara fram. Það er ekki rjett, að þetta sje óþörf skriffinska, því að með þessu er betur trygt, að ekki sje brotið út af fyrirmælum laganna. Jeg vil biðja háttv. allsherjarnefnd hjer að athuga vel þetta atriði, því að ef háttv. allsherjarnefnd Ed. hefði gert það, efast jeg um, að hún hefði gert þessa umræddu breytingu. Að vísu gerir hún ráð fyrir leyfisbrjefum til hjúskaparlýsingar, en það breytir ekki miklu í þessu efni.

Auk þess held jeg, að ef frv. verður samþ. óbreytt, eins og það er afgr. frá háttv. Ed., þá verði fólki, sem haldið er einhverjum sjúkdómum, gert erfiðara fyrir að ganga í hjónaband heldur en gert er nokkursstaðar annarsstaðar.

Að öðru leyti hefi jeg ekkert að athuga við frv.