19.02.1921
Neðri deild: 4. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

6. mál, einkasala á tóbaki

Fjármálaráðherra (M. G.):

Í ástæðunum fyrir þessu frv. eru færð rök að því, að vjer þurfum tiltölulega háa skatta, vegna staðhátta hjer á landi, og því sje það ekki undarlegt, þótt vjer í einhverju verðum að víkja af alfaraleiðum í skattamálum, og það því fremur, sem sá skatturinn, sem víðast gefur mest, sem sje tekjuskatturinn, hlýtur að gefa oss tiltölulega minni tekjur en annarsstaðar, vegna þess, að eiginlegir auðmenn eru hjer engir, og það eru vitaskuld þeir, sem mest hleypa tekjuskattinum fram. Jeg get vel búist við, að ýmsum muni þykja farið út á hála braut í þessu frv., og hrópa upp um einokun, eins og svo oft heyrist. En jeg verð þar til að svara, að fyrir mjer er þetta mál ekki afgert með þessu eina orði, þótt það hafi illan hljóm í íslensku máli. Fyrir mjer vakir hin brýna nauðsyn á að útvega tekjur, og hjer sýnist mjer vera útvegur til þess að ná 5–6 hundruð þús. kr. á ári, án þess að landsmönnum sje verulega íþyngt eða atvinna tekin af mörgum. Jeg sje eigi betur en að vjer getum vel haft á bendi tóbaksverslunina sjálfir, eins og svo margar aðrar menningarþjóðir heimsins, og jeg sje ekki betur en vjer getum það að óskertum heiðri. Hjer er um vörutegund að ræða, sem ekki telst til nauðsynjavara. Reyndar skal jeg játa það, að nærri lætur, að tóbak sje nauðsynlegt mörgum af oss, en það er þó í tölu þeirra vara, sem hið opinbera hefir eigi siðferðisskyldu til að sjá um lágt verð á. Og jeg get alls ekki undir það tekið, sem jeg býst við að sumir kunni að halda fram, að eigi sje fært að láta landið versla með neinar vörur, því að á öllu verði tap. Landsverslunin, sem nú er, hefir einmitt sýnt það, að þetta er ekki rjett, enda er það svo, að einasti tilgangurinn með frv. þessu er að auka tekjur ríkissjóðs, og ef jeg hefði enga trú á, að landsverslun gæti grætt fje, hefði mjer aldrei dottið í hug að flytja þetta frv.

Jeg hefi heyrt raddir um það, að ýmsum mundi þykja það óviðeigandi, að ríkissjóður hefði tekjur af áfengi, og væru því mótfallnir landssjóðssölu á því. En þetta er fyrir mjer alveg ný kenning, því að jeg minnist ekki að hafa heyrt það, að bannmenn væru mótfallnir vínfangatolli, og hefir hann þó runnið í ríkissjóð. Jeg leit svo á, að jeg mundi gera bannmönnum þarft verk með flutningi þessa máls, því að jeg fæ ekki skilið annað en að landsverslun með áfengi sje betur trúandi til að flytja eigi meira inn en með þarf af þessari vöru, heldur en nokkrum öðrum. Því hefir og verið hreyft, að undarlegt sje að taka áfengi til lyfja undan lyfjasölunni, en þar til er því að svara fyrst og fremst, að þetta frv. var samið á undan lyfjasölufrv., og hafði jeg þá enga hugmynd um, að það mundi fram koma, og í öðru lagi því, að spíritus er hjer á landi notaður til eldsneytis og iðnaðar, og þann hluta áfengis er alls engin ástæða til að taka með lyfjum. Nú er auðvitað óhentugra að skifla þessu, og þegar það er athugað, að meðalaspíritus þarf ekki að verða neitt dýrari, þótt landið versli með hann en nú er hann, get jeg ekki með mínum besta vilja sjeð, að með þessu frv. sje að neinu leyti höggið nærri bannhugmyndinni, enda get jeg fullvissað alla háttv. þm. um, að það var alls eigi tilgangur minn.

Jeg skal þá ekki fara fleiri orðum um þetta frv., en get þess að jeg hefi áætlað tekjur af frv. um 640 þús. kr. á ári.

Að síðustu geri jeg það að tillögu minni, að þessu frv. verði, að aflokinni þessari umræðu, vísað til fjárhagsnefndar.