19.02.1921
Neðri deild: 4. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

6. mál, einkasala á tóbaki

Pjetur Ottesen:

Örstutt athugasemd. Mjer kom það kynlega fyrir sjónir, þegar jeg las þetta frv., að sala á áfengi skyldi vera sett á bekk með sölu á tóbaki. Og því kynlegra þótti mjer það, þar sem mjer hafði borist í hendur frv. um einkasölu á lyfjum. Hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) gaf að vísu þær upplýsingar, að ekki hefði verið kominn skriður á það mál þegar þetta frv. var samið. En þó svo hafi verið, þá tel jeg alls ekki rjett að blanda þessu saman. Hjer er bannland, og það áfengi, sem inn verður flutt, er að mestu leyti flutt inn sem lyf, og á þess vegna að hlíta að öllu leyti sömu reglum. Hjer er, ef til vill, miðað við vínanda til brenslu og iðnaðar, en jeg sje ekki, að þær vörutegundir heyri heldur undir tóbaksverslun, eða eigi að rekast með henni. Hitt liggur miklu nær, og er enda sjálfsagður hlutur, að innflutningur á þessum vínanda sje hafður í sambandi við lyfjasöluna. Jeg vil þess vegna benda þeirri nefnd, sem fær mál þetta til meðferðar, á þá leið, til að samrýma þetta, að kippa ákvæðinu um áfengi úr frv., og setja það í lyfjafrv., og láta það sæta sömu meðferð og önnur lyf.