19.02.1921
Neðri deild: 4. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

6. mál, einkasala á tóbaki

Jakob Möller:

Það er eiginlega alveg óþarft að jeg standi upp. En svo er mál með vexti, að þótt það muni vera talin sjálfsögð kurteisi á þingi að hleypa málum til 2. umr. og í nefnd, þá get jeg ekki, að því er þetta frv. snertir, greitt því atkvæði mitt, að það verði látið fara til nefndar. Þetta frv. er í raun rjettri fullkomin óhæfa. Eins og allir vita, þá er bannaður innflutningur á áfengi til landsins. Og það er reynsla undanfarinna ára, að innflutningur áfengis til landsins er miklu meiri en sæmir. Háttv. stjórn hefði átt að koma með einhverjar till., er færu í þá átt að hefta innflutninginn, en hún kemur nú með frv., sem fer í þá átt, að ríkissjóður fái gróðann af þessum innflutningi. Því meiri, sem innflutningurinn yrði meiri Athugum afleiðingarnar af þessu. Þær eru þær, að í stað þess að skerpa andvara stjórnarinnar til eftirlits, þá má gera ráð fyrir því, að ef frv. yrði að lögum og vínfangaverslunin gerð að tekjulind fyrir ríkissjóðinn, þá mundi það verka „demoraliserandi“ á landsstjórnina í því efni. Jeg fæ ekki betur sjeð en að að leiðingin af þessu yrði ennfremur sú, að bráðlega kæmi till. um að bæta við nýjum víntegundum, þangað til alt væri komið aftur í gamla horfið. Það væri þó miklu betra að bíta hausinn af skömminni og afnema bannlögin hreinlega.

Jeg finn svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Vegna tóbaksverslunarinnar er engin ástæða til að koma þessu frv. fram; tekjunum má alveg eins vel ná með hækkuðum tolli, og þá aðferð á að hafa, til að fá tekjur af munaðarvöru í ríkissjóð. Lengra skal jeg ekki fara út í þá sálma, að þessu sinni, enda stóð jeg upp eingöngu í því skyni að gera í fáum orðum grein fyrir atkvæði mínu.