19.02.1921
Neðri deild: 4. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

6. mál, einkasala á tóbaki

Fjármálaráðherra (M. G.):

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) þarf jeg litlu að svara. Hann talaði mjög hóflega, en virtist gleyma því, að áfengi er ekki að eins flutt inn í landið til lyfja og brenslu, heldur einnig til iðnaðar. Til þessa fer eins mikið og til lyfja.

Háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) þarf jeg að segja nokkur orð. Hann sjer í frv. þessu selshaus, og er hræddur um, að af honum hljótist Fróðár-undur eða jafnvel heimsendir. Hann verður að viðurkenna það, að slík einkasala, sem frv. þetta fer fram á, er alls ekki nein ný bóla, og því er það undarlegt, að hann skuli verða svona hræddur. Það var ekki málaður svona svartur fjandi á vegginn, þegar kolaeinokunin var á döfinni árið 1913, eða steinolíueinokunin árið 1917. Háttv. þm. (M. J.) sagði, að tilgangurinn með þessu frv. væri sá að birgja bannlandið með víni, en lýsti því þó yfir, að ekki ætti að afnema bannlögin. Annaðhvort fer hann hjer vísvitandi með rangt mál, eða hann skilur alls ekki „motiv“ þessa frv.. Hv. þm. (M. J.) og hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) eru báðir sammála um það, að ekki megi taka kaupmannságóðann, heldur eigi að taka toll af tóbakinu. Jeg fæ ekki skilið annað en að þetta sje mælt af áhuga fyrir því, að kaupmannsgróðinn fari til kaupmannanna, en ekki til ríkisins. (Jak. M.: Kaupmannságóðinn verður að engu í höndum ríkisins). Þessir háttv. þm. halda, að slíkt bákn þurfi að setja upp, að það geti alls ekki borið sig. Hjer er þess að gæta, að það er mjög umsvifalítið að versla með tóbak, það þarf lítið fje að binda í því, og mjög er auðvelt að fá tóbakið lánað til 6 mánaða.

Háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) sagði, að hjer væri stjórnin að taka „spekulations“-lán. Nei, það er lán til verslunar, og jeg gat þess í ræðu minni í gær, að slíkt lán mætti gjarna taka. Ennfremur sagði hv. þm. (M. J.), að vegna þess, að frv. væri bæði talað um einkasölu á tóbaki og áfengi, þá sýndi það, að vín væri skoðað nautnavara. Þetta, sem í raun og veru er ekki annað en fyndni, fellur máttlaust til jarðar við athugun þess, að tilgangur frv. er alls ekki sá, að afnema bannlögin. Tilvitnunina til Lúthers skil jeg alls ekki í þessu sambandi; hjer er, að minsta kosti, hvorki um konur eða söng að ræða. Jeg hefi aldrei orðið þess var, að það hefði ill áhrif á bannmenn, að tekinn væri tollur af víni, og skil þessvegna ekki hversvegna þeir vilja ekki kaupmannságóða. Vínandi er hjer seldur á 15–16 kr., en kostar í innkaupi 6 kr. Hversvegna hefir þetta ekki „generað“ bannmenn? Það er fyrst þegar ríkissjóður á að fá ágóðann, að samviskan slær þá.

Háttv. þm. (M. J.) spáði frv. þessu stuttra lífdaga. Við sjáum nú til. Vissara er nú samt að binda fyrir naflastrenginn á því, þetta getur orðið allra efnilegasta barn með tímanum.

Hjá hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) er hver hlutur jafnan annað hvort alveg óhæfur eða ágætur, meðalvegur er ekki til hjá honum. Þetta frv. hefir nú verið svo óheppið að lenda óhæfumegin. Jeg mótmæli því algerlega, að meiningin hafi verið sú að flytja meira vín inn í landið en viðgengist hefir, koma svo með frv. um að bæta við víntegundum, og loks koma með frv. um að afnema bannið alveg. Háttv. þm. gaf það greinilega í skyn, að stjórnin vildi flytja inn meira vín, til þess að geta grætt meira. Það er ósæmileg getsök, að stjórnin ætli að brjóta landslög, til að ná peningum í ríkissjóð.