19.02.1921
Neðri deild: 4. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

6. mál, einkasala á tóbaki

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg skal ekki blanda mjer í deilur hæstv. fjrh. (M. G.) og annara þingmanna. Mjer skilst, að það, sem liggi til grundvallar fyrir þessu frv. stjórnarinnar, sje aukning á tekjum ríkissjóðs. Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) og hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) halda því fram, að þessum tekjuauka megi ná með hækkuðum tollum. En jeg hygg, að ef farin er sú leið, sem stjórnin vill í þessu máli, þá þurfi ekki að hækka tollana, heldur muni stórsöluágóðinn vega upp á móti þeirri hækkun, en kaupmenn halda smásöluhagnaðinum jafnt eftir sem áður.

Um einkasölu á áfengi eru aftur nokkuð skiftar skoðanir. Á þingmálafundi, sem haldinn var á Ísafirði, voru bannmenn sumir með einkasölu, en aðrir á móti. Mörgum þykir svo, sem ríkisstjórnin hafi nokkuð lagt inn á ótroðnar brautir með þessu einkasölufrv. En jeg vil geta þess, að víða erlendis er slík ríkiseinkasala á ýmsum vörutegundum, t. d. bæði á Spáni og Ítalíu.

Mjer þykir það nokkuð kynlegt, ef eigi ætti að leyfa frv. að koma í nefnd, því að róleg yfirvegun mun sýna, að hjer er um tekjuauka að ræða fyrir ríkissjóð, en bannlögunum ekkert tjón unnið.