04.04.1921
Neðri deild: 34. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

6. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Meiri hluti fjhn. hefir gert nokkrar verulegar breytingar á frv. því, sem fyrir liggur, og eru þær sumpart gerðar í því skyni að gera fyrirhugaðan verslunarrekstur einfaldari, en sumpart eru þær þess eðlis, að álagningu á einkasöluvörurnar er breytt, lagt minna á áfengi, en meira á tóbak. — Aðrar breytingar eru eingöngu orðabreytingar og skifta ekki miklu máli, nema breytingin við 11 gr., um að hafa hámarksverð ætíð ákveðið, en ekki aðeins heimild til að ákveða það, eins og frv.stj. fór fram á.

Af 7 nefndarmönnum hafa að eins 5 ritað undir nál., en jeg þykist mega fullyrða, að 6. nefndarmaðurinn er meiri hlutanum sammála, enda lýsti hann yfir samþykki sínu í nefndinni við meiri hl., áður heim færi í páskaleyfi. Aðeins 1 nefndarmaður hefir farið aðra leið, og kemur fram með sjerstakt álit, er fer í öfuga átt við álit meiri hlutans. Aðalástæða hans virðist vera sú, að hann treysti stjórninni ekki til þess að reka verslunarfyrirtækið svo vel, að hagnaður yrði að. Það gefst ef til vill tækifæri til þess að athuga það nánar síðar.

Jeg vil geta þess, að stefna meiri hl. er óháð afstöðu þeirra einstöku nefndarmanna til einkasölu yfirleitt; sumir nefndarmenn hallast að henni, aðrir telja óháð og frjáls viðskifti eiga hvarvetna að ráða, en þessi skoðun hefir orðið að víkja og verið látin víkja fyrir þörf ríkisins á auknum tekjum. Það er ekki efa undirorpið, að einkasala á þessum vörutegundum hlýtur að vera arðvænleg, ef sæmilega er á haldið, og það án þess að vörurnar verði dýrari en alment gerist.

Áætlun sú um tekjuaukann, sem lesa má í aths. við stj.frv., hefir breyst talsvert við breytingar nefndarinnar. Bæði er það, að nefndin gerir ráð fyrir lækkun á álagningu vínfanga, og eins munu hafa slæðst villur í áætlun stjórnarinnar um innflutning á vínanda. En þó vil jeg fullyrða, að áætlunin er nærri lagi. Jeg hefi farið aðrar leiðir en stjórnin, til þess að fá út sömu upphæð tekna. Jeg hefi bygt á innflutningi áranna 1915–’17, í stað þess að stjórnin miðaði við árin 1917–’20, og eins byggi jeg á hærri álagningu á tóbaki, eða 35% á munntóbaki, neftóbaki og reyktóbaki, í stað 20% í áætlun stjórnarinnar, og 45% á vindlum og vindlingum, í stað 30%. En jeg miða líka við lægra innkaupsverð en stjórnin, eða verð það, sem var 1915–’17, í stað þess að stjórnin miðar við 1917. Af samanburði þessara ára má sjá, að meðalinnflutningur þessara ára hefir verið sem næst 40 þús. kg., og nær 1/6 af því vindlar og vindlingar.

Af skýrslunum má ráða, að innflutningur þessi sje nokkuð meiri á venjulegum tímum, því að á árinu 1916 er hann yfir 120 þús. kg., og 1919 hefir hann einnig farið fram úr nefndri meðaltalsupphæð. Jeg byggi því mína áætlun á 120 þús. kg. og meðalverði fyrir árin 1916 og 1917, sem er nálægt 3 kr. Auðvitað hefi jeg þá lægri tölu en stjórnin, en jeg hefi þá líka hærri hundraðstöluálagningu, og ætti með því móti áætlun mín að vera vissari. Aftur er meðaltalsverð á vindlum og vindlingum þessi ár 12 kr., en stjórnin, sem miðar við ár 1917, telur það 16 kr. Jeg fæ nú út, að tekjurnar af einkasölu tóbaksins, miðaðar við 30 og 35%, verði 213 þús. kr. Þetta er því mjög nærri því, sem áætlunin í frv. stjórnarinnar sýnir, og tel jeg ugglaust, að upphæðin verði eigi minni.

Að tóbak verði dýrara við þetta fyrirkomulag, getur ekki komið til tals. Þegar miðað er við 3 kr. meðalverð á 1 kg. tóbaks, annars en vindla, verður það, með þessari 35% hækkun, 4 kr. og 5 aura á kg., og sje svo bætt við það tolli, þá nemur verðið rösklega 8 kr. Sjá því allir, að það er ekki óveruleg álagning, sem þarf til þess að ná því verði, sem nú er á tóbaki, en það mun vera sem næst 20 kr. kg. — Væri hinsvegar bygt á því verði, sem stjórnin áætlar, og miðað er við árið 1917, mundu auðvitað tekjurnar af einkasölunni, eftir sama hlutfalli, verða meiri, eða því sem næst 284 þús. kr.

Að því er snertir hagnaðinn af einkasölu á vínföngum og vínanda, þá er erfitt að gera áætlun um hann, og jeg sje mjer því síður fært að leggja fram ábyggilega áætlun, þar sem nefndin leggur til, að öll vínföng og vínandi til lyfja og læknisdóma verði seld án nokkurs hagnaðar. Nú liggja engar skýrslur fyrir um það, hve mikið vín er notað til lyfja og læknisdóma, og hve mikið fer til annars. Hins vegar er öllum ljóst, hversu gífurlega allur innflutningur á vínföngum og vínanda hefir aukist síðustu árin, á árunum l917 til 1918 úr 9.700 lítrum upp í 17.600 lítra. Og mjer dylst ekki, að þessi aukning innflutnings stafar meira af misbrúkun áfengis en af vaxandi þörf til lyfja. Að ætlast á það, hve mikið af þessu sje nauðsynlegt lyfjabúðum, er ekki hægt með neinni nákvæmni. Með því að reikna með 60% álagningu og miða við meðalverð síðustu ára, en gera ráð fyrir þriðjungi vínandans til annars en lyfja, hefi jeg komist að þeirri niðurstöðu, að álagningin myndi nema 96–100 þús. kr. Á þennan hátt hefi jeg þá komist að því, að aðaltekjur ríkisins af einkasölu á tóbaki og áfengi mundu geta orðið 3–400 þús. kr., en það fer auðvitað nokkuð eftir því, hvort miðað er við innflutningsverð 1917, eins og stjórnin gerir í aths. sínum við frv., eða við árin 1915–’17, eins og jeg geri. — Auðvitað er þetta áætlun. Þó mun þessi upphæð ekki geta orðið minni en 300 þús. kr. Með þessu er auðvitað nokkuð dregið úr áætlun stjórnarinnar, og jeg býst við því, að þeir, sem fastast fylgja því frv., sjái eftir því, hve mikið er felt undan, þar sem lyfin eru. En nefndin varð að líta hjer á fleira en tekjuaukann. Óeðlilegt virðist að hækka lyfin að mun í verði, með álagningu á efni þeirra, og yfirleitt munu bannmenn allir álíta illa viðeigandi að nota slíka vöru til að afla landinu tekna með, (M. G.: Ekki allir!). Jæja, þá meiri hluti. (M. G. og M. P.: Nei! nei! alls ekki). Og að slíkt væri ógerlegt vegna kaupenda þeirra, sem lyfjanna þurfa að neyta. Þetta er þá sú fjárhagslega niðurstaða. Tekjurnar nema að minsta kosti 300 þús. kr., og er það upphæð, sem ekki verður fengin með öðru móti, án þess að gjaldendur finni óþægilega til þess. Tóbak gæti jafnvel orðið að mun ódýrara en venjulegt er, ef stjórnin leyfði ekki altof háa álagningu hjá smásölukaupmönnum. Hún ætti ekki að fara fram úr 30%, og miða jeg þá að sjálfsögðu við 30% af því verði, sem tóbak er búið að fá með álagningu ríkisstjórnar og tolli. Verðið færi ekki með því móti fram úr 10 kr. á kg., og talið eftir verðlagi því, sem jeg hefi bygt á, en nú má telja útsöluverð hjer um 20 kr. á kg.

Því hefir verið haldið fram af ýmsum, sem hafa beyg af frv. þessu, að verslunarreksturinn yrði svo dýr, að ekki mundi svara kostnaði að fást við hana, að stórfje þyrfti til að reka hana, og að vaxtamissir af því, ásamt starfsmannalaunum, mundi eta upp ágóðann að mestu.

Jeg hefi athugað hve miklu inuflutningur nemur síðan frá 1910, og miðað við 120 þús. kg., sem mun fara mjög nærri meðalinnflutningi nú. Virðist mjer, eftir fyr nefndu meðalverðlagi fyrir 1916 og 1917, að innkaupsverð tóbaksins alls nemi um 566 þús. kr. Jeg skil nú ekki í, að sú upphæð þyrfti ávalt að standa föst í þessum varningi; og nægilegt virðist mjer að ætla útistandandi og rentulausan árlangt þý af upphæðinni. Sje nú miðað við 600 þús. kr. innflutningsverð, þá er þriðjungur þar af 200 þús. kr., sem eiga að renta sig með 5%, og gerir það 10 þús. kr. í ársvexti. Annars er alls ekki auðgert að áætla kostnaðinn við verslunarreksturinn nákvæmlega, síst meðan óákveðið er, hve miklar birgðir eiga að vera til á hverjum tíma og hverjar reglur eiga að gilda um útsölu.

Áætla mætti 10 þús. kr. í mannhald og til skrifstofuhalds, eða fyrir framkvæmdarstarfið, og nægilegt virðist að leggja ofan á 10 þúsund fyrir öðrum útgjöldum, svo sem húsaleigu og rýrnun. En eftir þessu ætti samlagður rekstrarkostnaður að nema 30,000 kr. um árið. Jeg veit, að svona áætlun er ekki nákvæm, en hún er sennileg, og tekjurnar munu þó ná 300 þús. kr. eða jafnvel mun meiru.

En það er fleira en sjálf hagnaðarvonin, sem fyrir mjer vakir, þegar jeg mæli með þessu frv. Jeg álít, að ávinningur verði einnig á öðrum sviðum. Alt eftirlit með sölu vínfanga og vínanda verður mun auðveldara, og það eitt er mikilsvert atriði. Mjer blandast ekki hugur um það, að sú aukning innflutnings á vínföngum, sem síðustu ár hefir átt sjer stað, stafar af misbrúkun, en ekki af vaxandi þörf. Einnig er það mikilsvert, að með slíkri einkasölu má fyrirbyggja það taumlausa okur, sem beitt hefir verið stundum við sölu þessa varnings. Það ætti ekki að geta komið fyrir, að tóbak verði selt því ógegndarverði, sem undanfarið hefir átt sjer stað. Það er alkunna, að 1917–18 var tóbakspundið stundum selt á 25 kr. eða 50 kr. kg. En það er alveg augljóst af verslunarskýrslunum, að tóbakspundið, með tolli og öllum kostnaði, var ekki meira en 3–4 kr. virði, komið í hús hjer á landi. Ef til vill þarf ekki að gera ráð fyrir svo gegndarlausu okri hjer eftir, en hugsanlegt væri það þó, ef mjög þrengdi að, og lítið væri fyrir af vörunni.

Því hefir verið haldið fram á móti þessu frv., að einstakir menn yrðu með því sviftir atvinnu, og er þar átt við tóbakssalana. Þetta er að nokkru leyti rjett, en ekki allskostar. Úr því að gert er ráð fyrir, að ríkisstjórnin annist heildsöluna, en smásalar hafi á hendi útbýtinguna, þá er hjer að eins um takmörkun að ræða. Og jeg lít svo á, að þótt nokkuð rýrnaði atvinna fárra heildsala við þetta, þá sje enginn skaði skeður. Slík atvinna verðskuldar enga sjerstaka viðurkenningu frá hendi þjóðfjelagsins, og hefir ekki verið því til mikilla þrifa.

Jeg skal þá víkja nokkrum orðum að nál. minni hl. Jeg hefi að vísu minst á það áður, en að eins í svip.

Ástæður minni hl. gegn frv. eru sjerstaklega þær, að stjórnin sje þess ekki umkomin að reka þessa verslun svo, að ágóði verði af henni, og í öðru lagi það, að hún muni ekki geta rækt eftirlitið með innflutningi víns, svo að ekki verði misbrúkað, frekar en nú. Mjer skilst, að því er snertir þetta eftirlit, að þá muni það verða mun auðveldara, þegar stjórnin, eða trúnaðarmenn hennar, hafa það á hendi. Þessi vínsala hefir verið í höndum lyfjabúða og lækna, því nær án alls eftirlits, enda er það opinber leyndardómur, að sumir þessir aðiljar hafa misbrúkað mjög leyfið til útláta á vínanda og áfengi. Mætti hjer benda á tilfelli, þar sem í tveim læknishjeruðum, sem eru svipuð að mannfjölda, hafa verið notaðar áfengisbækur svo tugum skiftir í öðru, en að eins tvær til þrjár í hinu á jafnlöngum tíma.

Háttv. minni hl. leggur líka áherslu á það, að tóbak verði dýrara en ella með einkasölufyrirkomulagi. Jeg þykist áður hafa leitt rök að því, að svo þurfi ekki að vera, heldur megi þvert á móti gera ráð fyrir lægra verði.

Þá telur minni hl. fyrirsjáanlegt, að kostnaðurinn við rekstur tóbaksverslunarinnar muni gleypa því sem næst allan ávinning. Jeg held nú, að við stöndum álíka vel að vígi með að fullyrða nokkuð um þetta. En líkurnar eru ekki á hlið minni hl., enda mundi ekki svo kappsamlega varinn ímyndaður rjettur kaupmanna til að versla með tóbakið, ef ekki væri þar um arðsama verslun að ræða, og jeg þykist hafa leitt góðar líkur að því, að 10% af ágóðanum nægði ríkisversluninni í reksturskostnað.

Þá vil jeg minnast á þær mótbárur, að hættara sje við tollsvikum, ef einkasölustefna nær að sigra. Jeg held nú að flestir sjeu sammála um það, að hættan verði einmitt minni. Það er að minsta kosti víst, eins og stjórnin bendir á í aths. við frv., að kostur verður á því að einkenna svo tóbakið, að ekki verði hægt að flytja inn tóbak í blóra við ríkisstjórnina, nema með margfaldri hættu á, að uppvíst verði. Líklegasta leiðin til varnar tollsvikum virðist mjer einmitt vera sú, að hafa einkasölu og einkenna allan varninginn ákveðnu merki.

Að svo mæltu skal jeg ekki tefja þá meira í svip, er vilja koma fram með mótmæli gegn þessu frv.