04.04.1921
Neðri deild: 34. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

6. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Háttv. frsm. meiri hl. (Sv. Ó.) sagði það í enda ræðu sinnar, að minni hlutinn hjeldi því fram, að tóbak, ef einkasala yrði á því, mundi verða dýrara en það nú er. Þetta er misskilningur. Jeg hefi aldrei haldið því fram, að einkasölu á tóbaki mætti ekki reka svo á „normal“-tímum, að tóbakið yrði ódýrara heldur en þegar viðskiftin. eins og nú er, eru einna örðugust og óhagstæðust, sem þau geta verið. En það er einmitt þessi misskilningur, að miða arðinn af einkasölunni við það ástand, sem nú er, sem nál. meiri hl. byggist á, í stað þess að miða við eðlilegt ástand viðskiftanna, eins og jeg hefi gert í mínu nál.

Háttv. frsm. meiri hl. (Sv.Ó.) benti til þess með ummælum sínum, að umr. í nefndinni hefðu mikið snúist um einkasölustefnuna yfirleitt og þær óvinsældir, sem hún ætti að mæta, en sannleikurinn er nú sá, að um það var lítið rætt. Aðalatriðið í þessu máli er það, hvort varan verði dýrari með einkasölufyrirkomulagi, eða ekki, og jeg er sannfærður um það, að hún verður hvorttveggja, og verslunin að öllu leyti óhagstæðari. Hjer verður tóbakseinkasalan, eins og til hennar er stofnað, óþarfur milliliður, sem hlýtur að hafa í för með sjer óþarfan kostnað. Um samkeppni verður vitanlega ekki að ræða, og það hlýtur að verka á vörugæðin til hins verra. Er fyrir þessu óvefengjanleg reynsla. Jeg veit að vísu, að til eru þeir menn, sem segja að þetta geri ekkert til, tóbak sje ónauðsynjavara, og því saki það ekkert, þó að það sje bæði vont og dýrt; en að þessari skoðun get jeg ekki hallast.

Það er bæði rangt og villandi, eins og gert er í nál. meiri hl., að miða einkasölu tóbaks hjer við tóbaks-.,monopól“ erlendis. Gróðinn, sem orðið hefir á tóbaks„monopol“ annara landa. er ekki sprottinn af versluninni, heldur af framleiðslunni, iðnaðinum, sem ríkin hafa tekið í sínar hendur. Jeg sje, að hæstv. fjrh. (M. G.) hristir höfuðið, en það er algerlega óþarfi fyrir hann, því að þetta er reynsla, sem eigi þýðir að mæla á móti. — Einkasalan. út af fyrir sig, hefir verið reynd víða, og hvergi gefist vel. Hjer verður einkasalan að eins óþarfur milliliður, því eins og öllum háttv. þm. er kunnugt, þá hafa smásölukaupmennirnir fengið tóbakið frá sömu verksmiðjunum sem ríkið hlýtur að fá það frá. Fram hjá þessari staðreynd kemst meiri hluti nefndarinnar með því að villa sjer sýn og miða alt við ástandið eins og það nú er, en gæta þess eigi, að jafnskjótt sem viðskiftin komast í eðlilegt horf. Þá verður hjer um enga heildsölu á tóbaki að ræða. Þá hlýtur verslunin að komast í sama horf og áður var, að kaupmenn kaupi vörur sínar yfirleitt beint frá útlöndum, tóbak sem annað, nema þá því að eins, að einstakir heildsalar geti boðið eins góð kjör, en þá yrði heldur ekki um að ræða þá gífurlegu heildsöluálagningu, sem allar gróðavonir ríkiseinokunarinnar byggjast á.

Um það, hvort þetta er nefnt einkasala eða einokun. læt jeg mig engu skifta, það er að eins heimskuleg deila um orð, og fylgjendum þeirrar stefnu er guðvelkomið. fyrir mjer, að skreyta hana eins fallegum nöfnum og þeim getur hugkvæmst. Hinsvegar er það í augum uppi, að þessi einkasala er nákvæmlega sama eðlis og gamla einokunin.

En, eins og jeg sagði áður, þá var það ekki aðallega eða fyrst og fremst ímugustur á einokunarstefnunni, er olli því, að jeg skildist frá nefndinni, heldur hitt, að frv. kom þannig úr garði gert frá hæstv. stjórn, að mjer virtist það ógerningur að samþykkja það, að svo stöddu. Áætlanirnar, sem stjórnin hefir gert um tekjurnar af einkasölunni, eru bygðar á skökkum tölum, sem stafar af misskilningi á tölum verslunarskýrslna. eins og flestum háttv. þingdm. vafalaust er nú kunnugt orðið. Og af þessum misskilningi stafar það, að gert er ráð fyrir helmingi meiri innflutningi árlega á spíritus og eognaki heldur en hann er, eða 66,000 lítra í stað 34.000. Auk þess er ónákvæmni í útreikningi á spíritusverðinu, bæði í innkaupi og útsölu, eins og jeg hefi sýnt í áliti mínu. Veldur þetta hvortveggja því, að tekjurnar af vínfangaversluninni mundu ekki verða nema lítill hluti þess, sem stjórnin áætlar, eða „brúttó“-tekjurnar að eins um 100 þús. kr. í stað 437 þús., sem stjórnin gerir ráð fyrir. Hinsvegar er jeg sannfærður um, að það eru einmitt þessar miklu tekjur af vínfangaversluninni, sem stjórninni hefir leikið hugur á sjerstaklega, og verð jeg að efast um, að hún hefði talið það tiltækilegt að ráðast í fyrirtækið, ef aðallega hefði átt að byggja á tekjunum af tóbaksversluninni, sem í áætlun stjórnarinnar eru, að heita má, hverfandi í samanburði við hitt.

Enn var það að athuga við frv., að það lá engin áætlun fyrir um rekstrarkostnað þessarar fyrirhuguðu verslunar, hvorki beinan nje óbeinan, kaupgjald, vexti, rýrnun og skemdir á vörubirgðum o. s. frv. Jeg veit, að það er að vísu hægt að ná svo og svo miklum tekjum af slíkri verslun sem þessari, með því að leggja bara nógu mikið á, og skeyta því engu, þótt sú álagning fari fram úr öllu hófi, eins og háttv. meiri hluti nefndarinnar gerir.

Háttv. frsm. meiri hl. (Sv. Ó.) hjelt því nú að vísu fram, að álagningin mundi samt eigi verða meiri en hún er hjá heildsölum, en mig undrar það stórlega, ef hann vill halda því fram í alvöru, að heildsalaálagning á venjulegum tíma sje 40–50%. Þetta er slík fásinna, að um það er ekki orðum eyðandi. Hvort slík álagning hefir átt sjer stað, það skal jeg ekkert fullyrða um. Þó þykir mjer það ekki líklegt, nema þá í alveg einstökum tilfellum. Og það er alveg víst, að slík álagning getur ekki átt sjer stað á venjulegum tímum; því hlýtur verslunarsamkepnin að aftra; þó að ekki væri um neina samkepni að ræða milli kaupmanna, þá mætti háttv. frsm. meiri hl. (Sv. Ó.) þó minnast kaupfjelaganna. eða hvar væri gagnið af þeim, ef slíkt okur gæti átt sjer stað? Háttv. frsm. meiri hl. (Sv. Ó.) gerði einnig ráð fyrir því, að það mætti fá rekstrarfje fyrir 5% vöxtu. Það er, sem sje, óbrigðul regla að gera ráð fyrir, að útgjöldin við þetta fyrirtæki verði eins lítil og hægt er að hugsa sjer á hagstæðasta tíma, en tekjurnar eru miðaðar við okurálagningu, sem ekki getur átt sjer stað nema á allra örðugustu viðskiftaárum, en þeim fylgja þá venjulega líka háir vextir.

Mjer skildist svo á háttv. frsm. (Sv. Ó.) að meiri hlutinn gerði ráð fyrir því, að tekjurnar af vínfangaversluuinni yrðu um 100 þús. kr., þrátt fyrir það, þótt tekið væri tillit til skekkjunnar, sem var í útreikningum stjórnarinnar. Þetta fæ jeg ómögulega skilið, þar sem meiri hlutinn leggur þó líka til, að álagningin minki. Hann ráðgerði álagninguna 60% á iðnaðarspíritus og ágóðalausri sölu lyfjaáfengis, en stjórnin gerir ráð fyrir 100% álagningu, og reiknast mjer því svo, með því að ganga út frá tölum stjórnarinnar, að breyttu breytanda, að tekjurnar verði 100 þús. kr. með 100% álagningu, líka á því, sem fer til lyfja. Raunar getur þessi áætlun meiri hl. þó ef til vill staðist, ef það er tilætlunin að taka brensluspíritusinn hjer með og okra á honum líka, en sje það tilgangurinn, er vikið frá því áliti þingsins, sem áður hefir verið, að brensluspíritus sje nauðsynjavara, sem ekki megi leggja mikið á.

Jeg gat þess áður, að stjórnin hefði ekki að eins gengið út frá of miklum innflutuingi á spíritus, heldur hafi hún gert of mikinn mismuninn milli innkaupsverðs og útsöluverðs hjá lyfsölum, en sökum þess, að jeg býst við, að þessu atriði verði mótmælt síðar, geymi jeg mjer rjettinn til að færa rök að því.

Hv. deild hefir nú hjer fyrir framan sig brtt. frá mjer og háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), sem fer fram á hækkun á áfengis- og tóbakstolli. Er þessi brtt. borin fram af mjer, fyrst og fremst til þess að sýna, að hægt sje að ná sömu tekjuupphæð með tollhækkun, án þess þó, að varan hækki í verði, ef það annars væri unt með ríkiseinkasölu. Brtt. hækkar tollinn á sterkum drykkjum um 3 kr. á lítra, en taki ríkið einkasölu áfengis í sínar hendur, er líka gert ráð fyrir 3 kr. álagningu, án þess að varan þurfi að hækka í verði. Ef slík álagning í raun og veru gæti átt sjer stað, án þess að útsöluverð yrði um leið að hækka, þá má auðvitað alveg eins taka þetta af lyfsölunum í tolli, því að þeir verða að selja vöruna því verði, sem þeim er skamtað, ef rjett er að þeim farið. Um tóbakstollinn er það að segja, að sje hægt að ganga út frá 45% heildsalaálagningu, þá ætti að vera í lófa lagið að færa heildsalaálagninguna það niður, sem tollhækkuuinni svarar, með því blátt áfram að setja hæfileg takmörk fyrir því, hve mikið megi leggja á vörur í heildsölu.

Auk allra þeirra ástæðna, sem mæla á móti einkasölu, og jeg hefi tekið fram í nál. mínu og hjer að framan, get jeg enn nefnt það, að enda þótt háttv. frsm. meiri hl. (Sv.Ó.) teldi hægt að fá rekstrarfje gegn 5%, þá gæti samt farið svo, að kostnaðurinn yrði talsvert mikill, eins og á mörgu öðru, sem ríkið hefir haft með höudum, t. d. hrossasölunni. Ennfremur er það að óttast, að smyglun verði mikil, ef vörurnar eru seldar dýru verði, að minsta kosti hefir sú orðið reynslan erlendis. Að lokum skal jeg víkja að því, sem einhver háttv. þm. drap á við 1. umr. þessa máls, að þetta mætti reyna, t. d. í 1–2 ár, og sjá hvernig það hepnaðist. Það er að vísu rjett, að það er leyfilegt, og jafnvel sjálfsagt, að gera margt til reynslu, en hjer held jeg að reynslan gæti ef til vill orðið fulldýr. Þætti mjer eigi ósennilegt, að stórtap yrði á einkasölunni til að byrja með, bæði vegna þess, að eigi yrði nægilega gert fyrir rýrnun á vínanda, sem oft verður geysimikill, og líka sökum reynsluleysis þeirra manna, sem við þessa verslun fengjust. Með tóbaksvörur allar er afar vandfarið, og gætu orðið stórskemdir á slíkum vörubirgðum hjá versluninni, og stórtjón af hlotist. Þetta gæti raunar lagast með tímanum, en þó mætti svo vera, að komið væri inn á þá braut að selja æ dýrara og dýrara, til að vinna upp hallann, sem orðið hefði, og það er einmitt þessi hætta, þessi misnotkun af ríkisins hálfu, sem jeg óttast mest, að af einkasölunni geti hlotist.