04.04.1921
Neðri deild: 34. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

6. mál, einkasala á tóbaki

Jón Þorláksson:

Þetta frv. er borið fram af hæstv. stjórn sem tekjuaukafrv. Jeg skal viðurkenna, að sá tilgangur frv. er alveg rjettmætur og nauðsynlegur. En frv. er ekki eins vel undirbúið eins og ætlast hefði mátt til um jafnmikilsvert nýmæli. Þetta á sjerstaklega við um þær greinar, sem ræða um áfengi. Hæstv. fjrh. (M. G.) viðurkennir, að athugasemd hafi fallið niður, sem hefði getað skýrt málið. Jeg hefi sem sje leitað árangurslaust að því í greinargerðinni, hvort brensluspíritus eigi að fylgja með öðru áfengi í frv. eða ekki. Í nál. háttv. meiri hluta er ekki heldur hægt að finna þetta, en af umræðunum má skilja, að það hafi verið tilætlun stjórnarinnar að láta brensluspíritus falla undir frv., þótt hann sje ekki tekinn með í áætlun stjórnarinnar í aths. við frv. Jeg get að minsta kosti ekki fundið það. Þessi villa gerir það óhægra að átta sig á tölunum, eins og þær liggja fyrir. Hæstv. stjórn gerir ráð fyrir brúttótekjum, sem nema tæpum 650 þús. kr. Þótt kostnaður verði talsverður, þá væri hjer um kr. tekjur fyrir landssjóð að tefla, sem erfitt væri að slá hendi á móti, ef áætlunin væri rjett. Jeg sakna í nál. háttv. meiri hluta, að gerð sje grein fyrir þeirri tekjuvon, sem landssjóður á í frv. eftir brtt. nefndarinnar. Það er lítil nærgætni viðaðra þm. að láta það bíða framsögunnar að gera grein fyrir slíkum atriðum, svo þeir verði þá að henda allar tölur á lofti. Sjerstaklega þar sem hjer er um meginatriði að ræða, því að frv. er komið fram til þess eins að afla landssjóði tekna. Jeg reyndi að henda á lofti ummæli hv. frsm. meiri hlutans (Sv. Ó.) um þetta. Og niðurstaðan var sú, að jeg er í sömu óvissunni um, hvort taka á brensluspíritus með, og hver tekjuvon er í honum, eftir brtt. nefndarinnar. Miðað við verslunarskýrslur 1915–17 verða tekjurnar af tóbakseinkasölunni 213 þús. kr.. eftir áætlun hv. frsm. (Sv. Ó.) En áætlun um tekjur af áfengissölunni gerði hann á þá leið, að 20 þús. lítrar með 60% álagningu minni gefa 96 þús. kr. tekjur. Þegar jeg heyrði þessar tölur, varð jeg í sömu óvissunni eftir sem áður, um það, hvort brensluspíritus ætti að vera með eða ekki. Ef hann á ekki að vera með, og að eins er átt við ómengaðan vínanda. Þá getur áætlunin um lítratöluna ekki náð neinni átt, og það því síður, ef stj.frv. um að takmarka stórum spíritus til iðnþarfa verður samþykt. En ef meiningin er að telja brensluspíritus með, þá vil jeg benda á, að í verslunarskýrslum 1917 er líterinn á kr. 1.77. Ef nú er haldið útreikningi háttv. frsm. (Sv. Ó.), 96.000 kr. hagnaði af 20 000 lítr., þá ætti hagnaðurinn að vera nær 5 kr. af lítra, sem nær ekki heldur neinni átt, ef verið er að tala um brensluspíritus. Það er því auðsætt, að hvort sem hann er talinn með eða ekki, þá nær útreikningurinn engri átt. Ef að eins er tekinn ómengaður vínandi, þá getur hagnaðurinn aldrei farið fram úr 30 þús. kr. á ári. Um það, hvað sje hægt að leggja á brensluspíritus, liggja engin gögn fyrir, hvorki frá stjórninni nje öðrum. En eftir því verði, sem var á brensluspíritus fyrir stríðið, hygg jeg, að ekki sje hægt að leggja mikið á hann, nema með því að hækka mikið verð hans. En eins og mönnum er kunnugt, er brensluspíritus aðallega notaður sem eldsneyti, jafnhliða steinolíu, á „prímusa“ hjá efnalitlu fólki í sjóplássum.

Eftir till. meiri hlutans get jeg því ekki gert neitt úr hagnaðinum af áfengisversluninni; jeg held, að hann sje enginn eða lítill, nema að brensluspíritus sje talinn með, en það kemur ekki skýrt fram, hvort það er tilætlun nefndarinnar eða ekki. Jeg hefi borið fram brtt. með háttv. 1. þm.

Reykv. (Jak. M.) um tollhækkun á þessum vörum, og ætla jeg að fylgja henni fram, ef þetta frv. gengur ekki gegnum deildina. Mjer hefir reiknast svo til, að sú tollhækkun, sem við stingum upp á, nemi um 300 þús. kr., eða nákvæmar 290 þús. kr., og þar hefi jeg reiknað með tölum stjórnarinnar. Þessi tollhækkun er nettó, og jeg verð að álíta hana hærri en brúttótölu þeirrar upphæðar, sem fæst með einkasölu eftir frv. stjórnarinnar og skýringum hv. frsm. (Sv. Ó.) því. Hann telur 213 þús. kr. ágóða af tóbaki, og einhverja vafasama upphæð af áfengi, öðru en því, sem ætlað er til lyfja.

Mergur þessa máls er sá, hvort hagkvæmara sje að ná svipaðri upphæð á þennan hátt eða hinn, með einkasölu eða tolli. En það er sýnilegt, að upphæðirnar verða svipaðar, hvor leiðin sem farin verður, enda bera till. og álit nefndarinnar það með sjer, að útsjeð er um alla von um 1/2 milj. kr. ágóða, eins og stjórnin ætlaðist til í upphafi.

Ríkissjóður þarfnast tekna, og spurningin er aðeins um það, hvernig á að taka þær. Og jeg verð að telja það misráðið að taka upp nýja stefnu, og að margra áliti óeðlilega og jafnvel hættulega, þegar ekkert er við það unnið fyrir ríkissjóð, því að eins og það var dregið í efa við 1. umr., að ágóði af einkasölunni yrði svo nokkru næmi, eins er hægt að draga það í efa nú, og það með meiri ástæðum, því að málið hefir skýrst. Jeg verð að vera á móti þessari leið, því að jeg tel stefnuna andstæða því, sem þetta land fyrst og fremst þarf að gæta, til þess að von sje um að það fái staðist fjárhagslega sem sjálfstætt ríki. Jeg tel einu vonina til þess þá, að allri opinberri starfsemi sje haldið innan sem þrengstra takmarka, og dugnaði og framtakssemi einstaklingsins leyft að njóta sín sem best. En hjer er stefnt í gagnstæða átt; hjer er farið fram á að þenja starfsemi þess opinbera út á nýtt og óþekt svið, og þá jafnframt farið fram á verulega fjölgun þeirra manna, sem taka laun sín úr landssjóði. Jeg vona, að enginn villist á því, þó að laun þessara starfsmanna verði ekki borguð út af ríkisfjehirði, því að fyrir gjaldendurna gildir einu, hvort peningarnir lenda í vösum þeirra á leið sinni í landssjóðinn, eða þeir fara fyrst inn í ríkisfjárhirsluna og svo jafnharðan úr henni aftur til launagreiðslu. Jeg held, að það sje fullmikil bjartsýni, að gera að eins ráð fyrir einum forstjóra. Hann mun þarfnast aðstoðarmanna og endurskoðunarmanna, og fer því frv. þetta í öfuga átt við þá stefnu, sem nú ætti að ríkja, því að það fjölgar starfsmönnum þess opinbera. Auk þessa fjölgar það öðrum starfsmönnum, sem sumum þykir nóg af fyrir. Það eru verslunarmenn.

Það var bent á það hjer í deildinni um daginn, að sú stjett væri orðin fullfjölmenn fyrir ekki stærra land, og taldi jeg það að vísu ósannað, en gat ekki mótmælt því. Nú er farið fram á að fjölga þeim enn meira. Það er áreiðanlegt, að þetta frv. verður ekki til þess að fækka þeim, sem versla með tóbak, heldur bætir það við heildsalahópinn, og jeg get tekið undir það með háttv. frsm. (Sv. Ó.), að það sje stjett, sem ekki eigi að hlynna sjerstaklega að með lögum, og því síst ætti ríkið að auka tölu þeirra og launa þá eins vel, nei, betur en aðra starfsmenn sína. Forstjóri á að hafa 10 þús. kr. laun, og er það hærra en starfsmenn ríkisins hafa, þeir, sem best eru launaðir. Það hefir þegar vakið allmikla óánægju meðal embættismanna, að verslunarmenn í þjónustu ríkisins hafa yfirleitt verið betur launaðir en þeir. En menn hafa þó sætt sig við þetta, fyrir þá sök, að þessir menn voru taldir hafa óvissa atvinnu, sem þyrfti því að vera betur borguð. En nú á að fara að stofna föst verslunarembætti með hærri launum en hæstu embættislaunum, og þykir mjer þá ekki ólíklegt, að óánægjan láti aftur á sjer bera, og það með meiri rökum en fyr. Og gæti hún komið fram í ákveðnum kröfum um hækkun launa embættismanna. Og jeg lái embættismönnum það ekki. Þeir hafa á hendi mikilsverð störf, á þeim hvílir þung ábyrgð, og þeir hafa varið mörgum bestu árum æfi sinnar til þess að afla sjer nægilegrar þekkingar, til þess að geta haft þessi störf á hendi. En svo eru ólærðir menn, sem lítinn undirbúning þurfa, teknir og settir á sama bekk, jafnvel ofar en hæstlaunuðu embættismenn. Hámarkslaun eru 9500 kr., að 2 embættum undanteknum, en forstjórinn á að hafa 10 þús. kr. laun. Jeg býst við því, að varla verði hægt að fá hæfan mann fyrir minna kaup en þetta, svo að það er ekki fært að ákveða launin lægri, en það má komast hjá því að stofna embættið, og gefa þar með tilefni til óánægju.

Einnig má búast við því, að þetta veki óánægju á annan hátt, svo sem út af því, hverjir eigi að fá tóbak í smásölu, til þess að hafa atvinnu af því. Þar að auki eru ýmsir, sem álíta þessa vöru yfirleitt flestum öðrum óþarfari, og ríkinu þá væntanlega miður vel sæmandi að fást við verslun með hana. Auk þess er tóbakið, ekki síður en ýmsar aðrar nautnavörur. oft misbrúkað. Enda er það alkunnugt, ekki síst hjer í Reykjavík, að þráfaldlega hefir verið kvartað um þessa misbrúkun, einkum að því er snertir unglinga, og væri þá ekki viðfeldið, að ríkið sjálft færi að halda henni uppi.

Þá er enn eitt atriði, sem athuga þarf, og það er kostnaðurinn við reksturinn, sem meiri hlutinn áætlar 30 þús. kr. En þar virðist bersýnilega vera villa í því, sem bygt er á, svo sem að ekki þurfi að hafa fyrirliggjandi vörur nema fyrir svo sem 200 þús. kr., og að annað stofnfje þurfi ekki að hafa. Þar er slept tolli af fyrirliggjandi birgðum, en tilætlunin mun þó vera að greiða hann, jafnóðum og inn er flutt. Ekki er heldur gert ráð fyrir útistandandi skuldum hjá viðskiftavinum eða smásölunum úti um alt land. áhættu o. fl. Auk þess er kostnaðurinn við fólkshald verslunarinnar langt of lágt reiknaður með 10 þús. kr., því sennilega þarf fleira fólk en forstjórann einan. Ef eitthvað verður svo lagt til hliðar handa versluninni sjálfri, eins og gert er ráð fyrir, má sjálfsagt gera ráð fyrir því, þegar tillit er tekið til alls þess kostnaðar, sem jeg hefi getið um, að tekjur ríkissjóðs sjálfs fari ekki mikið fram úr 200 þús. kr., í stað þó milj., sem gert var ráð fyrir í stjfrv.

Mjer finst því, að hæstv. stjórn ætti, eftir undirtektum nefndarinnar, að geta fallið frá frv. og sætt sig við það að fá sömu tekjurnar, eða nokkru meiri, með tolli.