04.04.1921
Neðri deild: 34. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

6. mál, einkasala á tóbaki

Gunnar Sigurðsson:

Það er að eins í sambandi við meginatriði þessa máls, að jeg vil gera nokkra grein fyrir atkvæði mínu. Þetta frv. markar nýja stefnu í verslunarlöggjöf ríkisins, og eigi nokkurt mál að leggja undir dóm íslenskra kjósenda, þá eru það einkum og sjer í lagi slík mál sem þetta frv. Þess vegna greiði jeg atkvæði móti þessu frv. — móti því að það fái fram að ganga á þessu þingi. Jeg vil með því tryggja mjer það, að geta rætt við kjósendur mína um þetta mál á þingmálafundum og víðar.