04.04.1921
Neðri deild: 34. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

6. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Jeg sný mjer þá að háttv. frsm. meiri hl. (Sv. Ó.) og háttv. þm. Ak. (M. K.).

Jeg get ekki neitað því, að jeg hafði skemtun af ræðu hv. frsm. (Sv. Ó.). Hann sannaði greinilega í ræðu sinni og till., að hann hafði ekki miðað við ástandið nú, heldur miðað við verðlag 1917. En um leið vísar hann til þess, að þessi álagning á tóbak, 45%, geti staðist samanburð við ástandið nú. En hann gætir þess ekki, að nú hefir verið einokun og innflutningsbann á tóbaki, alt fram að þessu. Þeir miða í raun og veru við ástandið nú. (M. K.: Ekki rjett!) Þetta er rjett. Sannleikurinn er sá, að þessir tveir háttv. þm. miða ýmist við ástandið nú eða ástandið áður, alt eftir því hvort heppilegra er fyrir útreikninga þeirra.

Í raun og veru hefi jeg ekki miðað við verðlagið á neinni ákveðnum tímum, heldur við það, að á venjulegum tímum, þegar hin frjálsa samkepni fær að njóta sín, þá hverfur álagningin á tóbaki hjá heildsölunum. Það er og hreinasti misskilningur hjá hv. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að heildsölunum fækki við þessa ráðstöfun. Slíkum heildsölum getur ekki fækkað, af þeirri einföldu ástæðu, að þeir eru ekki til. Það eru engir heildsalar til hjer, sem eingöngu versla með tóbak. Þegar tímarnir breytast, og það verður innan skams, þá geta allir kaupmenn fengið tóbak beint frá erlendum verksmiðjum með þeim kostnaði. er ekki mun nema meira en 2–3%. Það sem því hjer er til samanburðar, er annarsvegar 2–3%, en hinsvegar 45%.

Allir ættu því að geta sjeð, að hjer er um nýjan millilið að ræða í versluninni, sem gerir verslunina dýrari að miklum mun, jafnvel þótt till. stjórnarinnar, er fer fram á 30%, verði samþ.

Þessir hv. þm. (Sv. Ó. og M. K.) hafa það á móti tollhækkuninni, að hún bæti aðstöðu einstakra kaupmanna til þess að leggja meira á vöruna, þeir muni leggja á sama hundraðsgjald, hversu hár sem tollurinn verður. Það liggur næst að halda, að þessir hv. þm. (Sv. Ó. og M. K.) gangi hjer út frá því, að kaupmenn leggi líka á tollinn. Mjer þykir það satt að segja undarlegt, hversu hv. þm. Ak. (M. K.) hefir gleymt fyrra lífi sínu, eða man hann þá ekki lengur, að verslunin stjórnast af því, hvað mikið kostar að versla. Kaupmenn binda sig ekki við ákveðið hundraðshlutfall, heldur við hitt, að þeir geti haft sem mest viðskifti, og þó hagnast eins og þeir þurfa til að geta framfleytt sjer og sínum og staðist allan kostnað. Þetta eru lög frjálsrar samkepni, sem þm. (M. K.) ætti ekki að hafa gleymt, þótt nú sje hann orðinn ærið blindaður af einokunum. Það er því engin ástæða fyrir kaupmanninn að hækka álagningu, þótt tollurinn sje hækkaður.

Það er nú víst orðinn siður hjer að týna athugasemdum, það hafa gert bæði hæstv. fjrh. (M. G.) o. fl. Hann var annars góður, að finna hana. En þó verð jeg að halda því fram, að sú athugasemd hjálpar honum lítið. Þó brensluspíritusinn eigi að bæta upp hallann, þá er innflutningurinn af honum ekki nægilega mikill til þess, því að eftir því, sem jeg kemst næst, mun innflutningur alls spíritus vera um 45–50 þús. lítrar, að brensluspíritus með töldum. Jeg verð nú líka að telja það dálítið vafasamt, hvort hæstv. fjrh. (M. G.) hafi nokkurn tíma haft þessa athugasemd, hygg heldur, að hann hafi gripið til brensluspíritusins í einhverju fáti, nú þegar á þing kom, til að bæta upp hallann að nokkru leyti.

Það hlýtur að vera langt frá rjettu lagi, að innflutningur af brensluspíritus nemi 50 þús. lítrum, því að fyrstu 2 ársfjórðungana 1920 var innflutningurinn að eins 11 þúsund lítrar, og hefir innflutningurinn þó væntanlega þá verið óhindraður að mestu. Enn er það dálítið einkennilegt, að hvorki hæstv. fjrh. (M. G.) eða þeir hv. þni., er vilja láta brensluspíritusinn bæta upp hallann, gæta þess, að innflutningur vínanda mundi minka, ef lögin næðu fullkomlega tilgangi sínum, sökum fullkomnara eftirlits með bannlögunum, og að brensluspíritusinn mundi því eigi gera meira en vega þann mismun upp. Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að jeg reyndi til þess að snúa mig frá brensluspíritusnum með því að bera því við, að hann væri notaður til eldsneytis af fátæklingum. Það er ekki rjett, að jeg sje með því að snúa mig út úr neinu. En undanfarandi þing hafa litið svo á, að ekki ætti að leggja á brensluspíritus, sem annan vínanda, og því var enginn tollur á hann lagður fram að 1919, og þá að eins lágt gjald. Það verður því hjer breytt frá stefnu undanfarandi þinga, ef á að fara að leggja á hann jafnt sem annan spíritus.

Þá vildi hæstv. fjrh. (M. G.) vefengja, að jeg færi rjett með innkaupsverð á spíritus. Það sannaði nú lítið hjá honmn, þó að hann berði sjer á brjóst og segði, að þar væru „faktúrurnar“, því að það er ekki nægilegt, að vita hvað hann kostar erlendis, heldur verð hans komins hjer í hús, að viðbættum flutningskostnaði, tolli og rýrnun. Flutningskostnaður og tollur hefir nú að sönnu verið tekinn með, en hann hefir gleymt rýrnuninni, sem oft getur orðið alt að helmingi, og því eigi tekið hana með þegar hann samdi frv.

Háttv. fylgismenn þessa frv. fara líka á snið við sannleikann, þegar þeir eru að tala um það, hve vel tóbakseinkasalan hafi reynst erlendis. Sannleikurinn er sá, eins og jeg hefi áður tekið fram, að tóbakseinkasalan ein út af fyrir sig hefir gefist illa, t. d. í Japan, þar sem hún var afnumin aftur eftir 4 ár. En þar, sem einokun á tóbaksiðnaðinum hefir fylgt með, hefir einkasalan tekist betur, en þó sýnist það auðsætt, að það hljóti að vera tóbaksiðnaðinum að þakka.

Um það, hvort þetta eigi að heita einkasala eða einokun, er algerlega þýðingarlaust að þrátta. Hitt er aftur á móti eigi rjett, að segja, að munurinn stafi af því, að einokunin hafi verið valdboðin og lögð á okkur af annari þjóð, en þessa einkasölu leggjum við á okkur sjálfir, af fúsum og frjálsum vilja. Þessi mismunur gerir hvorki að rjettlæta eða órjettlæta einokunarnafnið. Fyrst og fremst er hjer við að athuga, að einokunin var lögð á okkur, ekki af annari þjóð, heldur af löglegri stjórn landsins, konungi vorum, sem þá var einvaldur, og því einn um löggjafarvaldið. Það var því löggjafarvald þjóðarinnar, sem kom fornu einokuninni á, og sama verður nú, komist hún á; að eins þessi breyting, að löggjafarvaldið er nú komið í hendur þingsins ásamt konungi. —- Orðið getur því eigi verið breyttrar merkingar sökum þessarar ástæðu. — En annars skiftir þessi orðaleikur engu máli.