04.04.1921
Neðri deild: 34. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

6. mál, einkasala á tóbaki

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg get ekki verið sammála hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) um það, að eigi sje hægt að afgreiða málið sökum þess, að það hafi eigi verið borið undir kjósendur. Frv. var búið svo snemma, og sent þm., að það átti að vera hv. þm. auðvelt að bera það undir kjósendur, ef þeir hefðu viljað.

Um skekkjuna, sem hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) hefir fundið, vil jeg segja honum það, að jeg ann honum mjög vel að njóta gleðinnar af þessari uppgötvun sinni, því að jeg hefi nú þegar rekið 3 skekkjur ofan í hann í hinum sama útreikningi. Jeg get auðvitað eigi sannað, að þessi athugasemd hafi gleymst, en hann getur heldur eigi sannað hið gagnstæða. En það ætti að vera augljóst, að jeg get ekki borið siðferðislega ábyrgð — þó sú lagalega ábyrgð hvíli á mjer — á því, þegar jeg er utanlands. En aðalatriðið er það, að jeg hefi sýnt, að niðurstaðan hjá mjer er rjett.

Ef það er rjett hjá hv. sama þm. (Jak. M.), sem mjer er ekki kunnugt um, að einokun sje nú þegar á tóbaki, þá er það einmitt ástæða fyrir því, að ríkið taki við henni. Var þetta einmitt ein af aðalástæðunum, sem fram voru færðar fyrir einkasölunni á steinolíu 1917.

Þá sagði sami hv. þm. (Jak. M.), að spíritus rýrnaði oft og einatt um helming. Má vera, að þetta komi fyrir, en umsjónarmaður áfengiskaupa hefir þó sagt mjer, að rýrnunin væri venjulega mjög lítil, sjaldan meiri en 2–1 lítrar á tunnu. En þó að rýrnunin væri þetta, sem hv. þm. (Jak. M.) sagði hana, þá skiftir það engu, því að seljandi eða skipið, er vöruna flytur, eiga að bera hallann við hana, því að hún stafar annaðhvort af slæmum umbúðum eða illri meðferð í skipinu. Annars held jeg, að okkur hv. þm. (Jak.M) beri ekki svo mikið á milli um innflutning á brensluspíritus, því hann sagði hann vera um 45 þús. lítra. (Jak. M.: Ekki rjett, jeg sagði, að allur spíritusinnflutuingur mundi vera um 45–50 þús. lítra!). Þetta er nú svo mikil fjarstæða, að það er lítt hugsandi, að hv. þm. (Jak. M.) geti sagt þetta í alvöru, því að 1919, þegar brensluspíritus var fyrst tollaður, var allur innflutningurinn rúmlega 116 þús. lítrar. Og það sannar ekkert mál hans, þótt hann vitni í innflutninginn 1920, því að þá voru innflutningshöftin komin til sögunnar, og kemur hann því — sennilega óvart — með eina ástæðuna enn fyrir því, að þau hafi komið að gagni.

Annars get jeg bætt því hjer við, að aðalástæðan til þess að tolla brensluspíritusinn var sú, að hann er drukkinn. Sami hv. þm. (Jak. M.) sagði, að jeg hefði ekki haft „faktururnar“ við þegar jeg samdi frv. Það er nú talsvert hart, að hann skuli leyfa sjer að koma fram með þessa staðhæfingu, en það vill nú svo vel til, að jeg get sannað honum það með 2–3 vitnum, að jeg hafði þær við hendina, og nú hefi jeg þær í vasanum og get sýnt þær.