04.04.1921
Neðri deild: 34. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

6. mál, einkasala á tóbaki

Pjetur Ottesen:

Það var að eins örstutt athugasemd. Jeg mintist á það við 1. umr., hversu hjáleitt það er hjá stjórninni að blanda saman einkasölu á tóbaki og áfengi. Það er þeim mun óviðfeldnara, sem samtímis er komið fram frv. um einkasölu á lyfjum, og það er vitanlegt, að mestur hluti þess áfengis, sem inn er flutt, er fluttur inn sem lyf.

Hæstv. fjrh. (M. G.) færði það til afsökunar, að þetta frv. hefði verið samið áður en ráðið var, að hitt frv., um einkasölu á lyfjum, yrði lagt fyrir þingið; en sú afsökun nær harla skamt.

Jafnframt því, sem nefndin tók frv. til meðferðar, þá hefði hún átt að taka þetta atriði til yfirvegunar og bæta fyrir yfirsjón stjórnarinnar. Þetta hefir nefndin gert að eins að nokkru leyti, þar sem hún hefir lagt til, að áfengi til lyfja verði selt án hagnaðar, en látið að öðru leyti við svo búið standa. En jeg mun þó greiða atkvæði með frv., því að mjer er kunnugt um, að frv. verður breytt í háttv. Ed., ef frv. um lyfjasöluna verður samþ. þar, og veit jeg, að nefnd sú í Ed., sem hefir lyfjasölufrv. til meðferðar, mun leggja það til, að áfengið verði tekið með lyfjunum, og mun jeg því greiði atkv. með frv. til Ed.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta eða lengja umræðurnar frekar, en vil aðeins bæta því við, að þó að jeg sje eindregið fylgjandi frjálsri verslun, og öll einokun sje eitur í mínum beinum, þá er það einungis af hinni knýjandi þörf til að afla ríkissjóði tekna, að jeg get verið með þessu frv., og því, að jeg sje ekki færa leið til þess að ná tekjum af tóbakinu í ríkissjóð, fram yfir það, sem nú er, með öðru móti en þessu.