06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

6. mál, einkasala á tóbaki

Jón Baldvinsson:

Þegar frv. þetta var til 2. umr. hjer í háttv. deild, þá ætlaði jeg að taka til máls, en frestaði því, sökum þess, að það stóð á takmörkum að deildin gæti afgreitt málið þann dag.

Jeg vil þá fyrst geta þess, að jeg tel aðalstefnu frv. rjetta, þá, að ná tekjum í ríkissjóðinn með verslun. En þótt jeg telji þá stefnu rjetta, sem fram kemur í frv., þá er jeg þó ekki samþykkur öllu því, sem í frv. þessu stendur. Jeg er óánægður yfir því, að áfengi skuli vera blandað hjer saman við. En þó get jeg greitt frv. atkvæði mitt, og er það af sömu ástæðu og háttv. þm. Borgf. (P. 0.), þeirri, að liðurinn um áfengið muni verða niður feldur úr frv. í háttv. Ed., sem fullar líkur eru fyrir að verði.

Annars finst mjer frv. þetta ná helst til skamt, þar sem í því er að eins gert ráð fyrir heildsölu á tóbaki, en ekki smásölu líka, Jeg held að það hefði verið heppilegra, að skrefið hefði verið stigið fult. Það væri bæði ilt og óþægilegt fyrir verslunina, að hverjum vindlingi og tóbaksnefi, sem keypt væri, fylgdu þau ummæli frá seljandanum, að verðið væri nú svona og svona hátt, vegna þess að ríkið hefði söluna með höndum, og að þeir gætu sjálfir útvegað þessar vörur fyrir miklu minna. Þetta hefir komið á daginn, að því er landsverslunina snertir. En til þess að koma í veg fyrir þetta, þá tel jeg að betra hefði verið að taka skrefið alveg, úr því lagt var út á þessa braut á annað borð.

Háttv. samþm. minn og sessunautur (Jak. M.) gat þess, að þessi verslun væri óþarfa milliliður. Líklega þá af því, að þessi fyrirhugaða verslun mundi ekki ná betri kaupum en nú gerist og gengur. Þetta tel jeg mjög vafasamt. Jeg hygg, að sá, sem hefir á hendi innkaup á einhverri vörutegund fyrir heila þjóð, hljóti að komast að langsamlega betri kaupum heldur en einstakir menn. Og þegar svo þar við bætist, að slíkur kaupandi er svo áreiðanlegur, að tryggari viðskifti er ekki hægt að fá, þá ætti það að vera hverjum manni auðsætt, að jafnvel þótt hjer væri um nýjan millilið að ræða, þá ætti varan samt ekki að verða dýrari neytendum.

Enn átti það að vera ástæða gegn frv., hjá minni hl. nefndarinnar, að með þessu væri bætt við nýju kaupmannsstarfi og fjölgað kaupmönnum, því að það væri enginn heildsali í landinu, sem verslaði með tóbak eingöngu. Mjer finst nú þetta sagt dálítið svipað og presturinn sagði, sem sór það, að hann þekti ekki einn staf í galdrabókinni, en sagði svo síðar, að hann þekti ekki einn, heldur alla. Það er svo í raun og veru, að nærri því hver einasti heildsali í landinu verslar með tóbak, meira og minna. Það mundi því ekki verða lítill vinnukraftur, sem sparaðist hjá flestum heildsölum landsins, ef landið tæki tóbaksverslunina í sínar hendur.

Einhver háttv. þm. sagði á dögunum, að kaupmenn væru alt of margir. Og þó jeg vilji ekki gera öll hans orð að mínum, þá var þó mikið rjett í þessu. Og hjer er einmitt um að ræða spor í þá átt að fækka starfsfólki við verslunarstörf.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hjelt því fram, að þetta frv. markaði aðra stefnu en þetta ríki yrði annars að hafa, ef það vildi halda sjálfstæði sínu. Jeg er hjer alveg á gagnstæðri skoðun. Jeg hygg, að frv. marki einmitt þá stefnu, sem þetta ríki á að hafa, til þess að halda fjárhagslegu sjálfstæði sínu. Því að með því að samþykkja frv. eru kraftar sameinaðir, vinna spöruð og ríkinu aflað tekna á hagkvæman hátt.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sagði ennfremur, að laun starfsmanna við landsverslunina væru óvenju há, og hefðu vakið óánægju meðal annara starfsmanna, er ættu við lægri laun að búa. Þó játaði nú þessi háttv. þm. (J. Þ.), að þetta væri eðlilegt, sökum þess, að stöður við landsverslunina væru veittar til skemri tíma; en eftir að háttv. þm. (J. Þ.) er þannig búinn að gera þessa ástæðu sína að engu, vill hann þó byggja á henni til þess að fella frv. En jeg held, að þeir menn, sem fengist hafa við verslun fyrir sjálfa sig nú á undanförnum árum, hafi tekið sæmilega há laun. Og hver borgar þeim þessi laun? Það er þjóðin sjálf, sem þessi laun borgar, og jeg fæ ekki sjeð, að á því sje mjög mikill munur, hvort þjóðin sjálf eða ríkissjóður borgar. Og það veit jeg víst, að í góðum verslunarárum hafa kaupmenn ekki látið sjer nægja jöfn laun og starfsmenn landsverslunarinnar hafa, heldur tekið þau miklu hærri af þjóðinni, og þá er þetta beinn sparnaður.

Þá hefir því verið haldið fram gegn þessu frv., að slík verslun mundi festa fje landsins og veikja lánstraust þess. Jeg held að þessi verslun muni ekki veikja lánstraustið að neinu ráði, því að það er mikill munur á láni til verslunarfyrirtækja yfirleitt og lánum til fastra mannvirkja, brúa, vita o. s. frv., þar sem fjeð þarf að sitja fast lengi.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um málið, en mun greiða frv. atkvæði mitt, þótt jeg sje ekki ánægður með sum atriði þess.

Mest er undir því komið, að valdir sjeu góðir menn til forstöðu fyrirtækisins, og væri betur, að það val tækist ekki ver en valið á þeim mönnum, er nú starfa við landsverslunina.